miðvikudagur, 26. júní 2013

Kommúnistar og landráðafólk


Ég hef verið á mörgum átakafundum innan samtaka launafólks undanfarna tvo áratugi. Þar er oft hart barist og snaggaralega tekið til orða. En ég minnist þess ekki að hafa heyrt eða séð þar þá lágkúru og fólsku sem þingfréttamenn báru inn í stofur landsmanna þegar kynnt voru störf Alþingis á síðasta kjörtímabil.

Á meðan Alþingi starfaði síðasta kjörtímabil hófst nær hver einasti fréttatími á klipptum bútum frá ræðustól Alþingis. Þar kom iðulega fram að ef fólk væri ekki sömu skoðunar og Sjálfstæðismenn, þá væru þeir hinir sömu kommúnistar og líkt við fjöldamorðingja.

Þeir sem ekki voru sömu skoðunar og þingmenn Framsóknar voru landráðmenn, það væri fólk sem ekki stæði í lappirnar og vildi að íslenskum almenning væri gert að greiða skuldir erlendra óreiðumanna.

Þingmenn beggja þessara fyrrverandi stjórnarandstöðuflokka komu nær daglega inn á heimili okkar í gegnum sjónvarpið og fullyrtu að allir þeir einstaklingar, sem vildu kanna til hlýtar hvort það væri heimilunum til hagsbóta að Ísland gerðist aðili að sama ríkjasamstarfi og helstu nágrannalönd okkar, væru andstæðingar hins Íslenska lýðveldis og vildu afsala fullveldi landsins.

Okkur var sagt að þeir sem væru ekki sömu skoðunar og þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri fólk sem vildi gefa erlendu ríkjabandalagi, sem væri samskonar og Nasistaríki Hitlers, allar auðlindir Íslands.

Þessir þingflokkar virtu að vettugi niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um endurnýjun Stjórnarskrárinnar. Ég ætla ekki að hafa eftir þau ummæli sem viðhöfð voru um okkur Stjórnlagaráðsliða. Ekkert kom fram frá þessum þingmönnum um hvað þeir vildu gera, engar málefnalegar tillögur, einungis að allt sé ómögulegt og Stjórnlagaráð væri ómerkilegur kjaftaklúbbur.

Sömu þingmenn börðust gegn því að fólkið í landinu fengi að svara nokkrum lýðræðislegum spurningum um auðlindir og jöfnun atkvæðisréttinda. Þessir hinir sömu þingmenn voru staðnir að því að læðast út um bakdyr Alþingis til þess að koma í veg fyrir lýðræðislega kosningu í þinginu.

Við getum afnumið verðtyrgginguna og látið skuldir hverfa, en ríkistjórnin stendur í vegi fyrir því. Hún vill níðast á fólkinu í landinu, boðaði þáverandi stjórnarandstaða í öllum spjallþáttum og innslögum í fréttatímum.  

Þegar þjóðin þurfti helst á því að halda í október 2008 að til væri aðili sem hún gæti treyst og trúað og gæti tekið að sér leiðtogahlutverk, var staðan sú að forsetinn hafði verið beinn þátttakandi í spilverki fjármálaaflanna. Sama átti við um Alþingi stjórnarþingmenn þingmenn og ráðherrar voru beinir þátttakendur í aðgerðum fólust í því að dylja raunveruleikann og það varð til þess að efnahagshrun hér á landi varð mun alvarlegra fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin en í öðrum löndum.

Ráðherrar og stjórnarþingmenn höfðu haldið því að okkur að Ísland ætti ekki að bera sig saman við Norðurlönd og ætti ekki að taka mark á ábendingum þaðan, aðstæður væru allt aðrar á Íslandi. Leyndarhyggjan við völd. Regluverk og ábendingar Norðurlanda þóttu of íþyngjandi. Þingmenn sjálfstæðismanna berjast fyrir því að engu verði breytt og vilja koma í veg fyrir að fólkið í landinu geti komið að eigin málum.

Nú eru þessir menn komnir í valdastólana, þá er það þeirra fyrsta verk að ráðast gegn umræðunni í landinu og kalla hana ómerkilegar "Loftárásir" á stjórnvöld. Nú vilja þeir koma böndum á það sem fram fer í RÚV. Greinilega óttast þeir að núverandi stjórnarandstaða fái sama rúm hjá þingfréttmanni RÚV og þeir fengu.
 

Engin ummæli: