fimmtudagur, 20. júní 2013

Kynjabundin launamunur


Umræða um jöfnun á launamun kynjanna er ofarlega á baugi. Þingmenn fara sumir hverjir mikinn og segja að nú sé loksins lag, það séu lausir kjarasamningar næsta vetur!!??
 
Eftir að ég fór að starfa fyrir verkalýðshreyfinguna og kynntist vel hvernig „kaupin á eyrinni“ ganga fyrir sig og þeim lögum og reglum sem gilda um samskipti á vinnumarkaði, þá hef ég alloft orðið furðu lostinn yfir þekkingarleysi þingmanna á atvinnulífinu og barnalegum upphrópunum þeirra um samtök launamanna og lífeyrissjóðina.

Mig langar aðeins að benda á nokkur atriði í því efni. Svona að fenginni reynslu úr aths. dálkunum ætla ég að byrja á því að taka það fram að ég er ekki á móti jöfnun launa kynjanna og í flestum launakönnunum innan RSÍ hafa rafkonur ávalt verið með hærri meðallaun en rafkarlar, það er að segja ef við notum sömu meðaltalsreglur og nýttar eru í launakönnunum og íslenskum samanburðaraðferðum.
 
Ástæða er að geta þess að það er oftast ekkert að marka þær niðurstöður sem þingmenn fá,  þegar þeir taka sig til og bera saman launakannanir mismunandi hópa.

Það er grundvallaratriði í þessu samhengi að mjög stórt hlutfall launamanna á íslenskum vinnumarkaði er á launum, sem liggur töluvert ofan við umsamin lágmarkslaun. Það er nefnilega í allmörgum tilfellum ekki samið um annað en lágmarkslaun. Á öðrum  vinnumörkuðum sem ég þekki til, þ.e.a.s í nágrannalöndum okkar, þá er nefnilega samið um allan launaskalann.

Það sem hins vegar skapar að langstærstu leiti hina íslensku sérstöðu er reglulegt gengisfall krónunnar. Áratugum saman hefur íslenskum launamönnum verið gert að búa við það ástand að kjarasamningar standast aldrei út samningstímann, sökum þess að stjórnmálamenn fella reglulega krónuna og gengisfella þar með launin til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn og gera þannig hluta launa upptækan og útflutningsfyrirtækin í sjávarútvegi græða hundruð milljarða sem ekki má skattleggja að mati núverandi ríkisstjórnar.

Þetta íslenska ástand hefur orðið til þess að hér landi fara fram reglulega launaleiðréttingar á vinnustöðunum á miðju samningstímabili, vitanlega sérstaklega hjá þeim hópum og einstaklingum sem eru í bestri stöðu hverju sinni.
 
Þessu fyrirkomulagi er síðan reyndar lýst sem ákaflega jákvæðu ástandi í skýrslum hins opinbera um íslenskan vinnumarkað. Hann sé mun sveigjanlegri en aðrir þar sem að til eru lágir launataxtar sem tiltölulega fáir eru á. Það hafa t.d. stjórnmálamenn bent á, t.d. eins Halldór Ásgrímsson gerði með eftirminnilegum hætti þegar hann gaf út kynningapésa um íslenska vinnumarkað og benti á þá leið að flytja inn erlent vinnuafl og skella því á lágmarkstaxta, eins og gert var í stórum stíl við Kárahnjúka og varið að þáverandi ríkisstjórn með kjafti og klóm.

Í nágrannalöndum okkar eru launamenn að langstærstum hluta ætíð á umsömdum launatöxtum og þeir standast út samningstímann. Kaupmáttur er stöðugur, lán taka ekki stökkbreytingum og vextir eru þriðjungur af því sem þeir eru hér á landi. Þetta er ástand sem ný ríkisstjórn hefur gefið út að hún muni verja, ekki komi til greina að skipta um gjaldmiðil, enda væri hún þá að ganga gegn þeim öflum sem studdu hana inn á þing.

Um síðustu aldamót var 60% munur á umsömdum lágmarkstöxtum rafiðnaðarmanna og meðalraunlaunum. Í dag hefur þessi munur minnkað um helming sakir þess að okkur hefur tekist að ná fram í kjarasamningum undanfarinn áratug um verulegri hækkun á lægstu töxtum okkar umfram umsamdar lágmarkslaunahækkanir.

Þar hjálpaði til að íslensk fyrirtæki voru algjörlega berskjölduð gagnvar því þegar hingað streymdu erlend fyrirtæki og nýttu leiðbeiningar í kynningarbæklingi þáverandi ríkisstjórnar um að nota einvörðungu lágmarkstaxta, þá helst unglingataxta fyrir alla sína starfsmenn.

Þetta varð til þess að íslensk fyrirtæki voru ekki samkeppnishæf og fengust til þess að hækka lágmarkstaxtana langt umfram umsamdar launahækkanir. Í dag er um 30% munur á meðallaunum og umsömdum gólfum í kjarasamningum.

Jöfnun launa kynjanna er ekki framkvæmanleg nema að færa lágmarkstaxta að raunlaunum og allir fari á umsamda taxta, sú aðgerð kostar um 30% launahækkun í mörgum starfsstéttum, þá fyrst verður hægt að taka á þessum vanda með markverðum hætti.

Ef tryggja á að útrýmingu kynjabundins launamunar, verður að byrja á því að tryggja að kaupmáttur kjarasamninga haldist. Það verður ekki gert nema með því að taka upp gjaldmiðil, sem heldur þokkalega sínu raungildi út samningstímann hverju sinni.

Það sem ég óttast þó mest að sú tilraun sem stjórnmálamenn fari út í verði til þess að kippa niður raunlaunum og þá þeim sem eru á launum sem eru yfir taxta. 

Engin ummæli: