Nýr félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi
frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar sem hækka frítekjumark
atvinnutekna ellilífeyrisþega og afnema skerðingar grunnlífeyris vegna
lífeyrissjóðstekna.
Það er fagnaðarefni að eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar
sé að bæta kjör eldri borgara. En það er jafnframt óásættanlegt að ríkisstjórnin
skuli ekki leggja fram þá niðurstöðu sem liggur fyrir eftir mikla vinnu í
heildarendurskoðun á almannatryggingarkerfinu og unnið hefur verið að um margra
ára skeið í breiðri samstöðu fulltrúa allra flokka og fulltrúa hagsmuna aðila.
Vinnu sem miðaðist öll við að einfalda kerfið, gera
það skilvirkara og bæta stöðu bótaþega með því að lagfæra hin margslungnu skerðingarmörk,
sem fáir skilja og hafa flest nú orðið verulegar skerðingar í för með sér til
þeirra sem síst skildi. Núverandi stjórnarflokkar áttu ásamt öðrum þingflokkum
fulltrúa í þessari vinnu og skrifuðu í vor undir tillögur sem var samstaða um
að lagðar yrðu fram á þessu ári.
Í þessari tillögu er gengið mun skemur og þessi
breyting gagnast einungis tekjuháum lífeyrisþegum, en ekki þeim sem hafa
lífeyrissjóðstekjur undir 215.000 kr. á mánuði og/eða lágar atvinnutekjur hafa
engan ávinning af boðuðum breytingum.
Ástæða er að benda stjórnmálamönnum
sérstaklega á hver verði raunframtíðarbyrði af almannatryggingum. Styrkleiki uppsöfnunarlífeyriskerfisins
er að næstu ár munu einstaklingar sem hafa réttindi í lífeyrissjóðum, sem er nú
að meðaltali 120 þús.kr./mán., stækka tekjuskattsstofninn mjög hratt og skapa þar
af leiðandi vaxandi tekjur hjá ríki og sveitarfélögum.
Þetta er atriði sem stjórnmálamenn
virðast ekki gera sér grein fyrir. Vandi lífeyrisþega er mestur næstu 10-12 ár,
og þar með ríkissjóðs, en til lengdar mun lífeyriskerfið styrkja bæði stöðu
ríkisfjármála og samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Nokkrir embættismenn í fjármálaráðuneytið
virðast vilja halda tekjum af greiðslum sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna utan við
sviga, sem og skatttekjum af greiðslum almannatrygginga.
Það er grundvallaratriði að verkaskipting milli almannatrygginga og
lífeyrissjóða sé skýr. Það sé tryggt að launafólk hafi áþreifanlega
betri hag af því á efri árum að hafa greitt iðgjöld til samtryggingarsjóða á
starfsævinni.
Sveigjanleiki í starfslokum er
mikilvægur. Í tillögunum er lögð áhersla á að auka hann þarf og viðhalda
möguleika launafólks til að velja sér séreignarsparnað
sem tryggir raunverulegt val um fyrirkomulag starfsloka.
Þá er einnig horft til þess að
auka þurfi verulega áherslu á
starfsendurhæfingu þeirra sem missa starfsorku til þess að tryggja eins
og kostur er áframhaldandi þátttöku á vinnumarkaði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli