föstudagur, 22. nóvember 2013

Tíu milljón prósent launahækkunarkrafa

Ég setti þennan pistil inn áðan, en var bent á villu í framsetningu minni, sem var réttmæt, ég vona að þessi framsetning skiljist betur.

Ég hef verið undanfarin 2 ár unnið að því að skrifa sögu samtaka rafiðnaðarmanna. Í þeim gögnum sem ég hef eru meðal annars kjarasamningar frá stofnun aðildarfélaga Rafiðnaðarsambandsins í byrjun síðustu aldar, þar sem eru m.a. lágmarkslaun ísl. rafvirkja allt frá stofnun stéttarfélags þeirra árið 1926.

Lágmarkslaun danskra rafvirkja voru á þeim tíma hin sömu og íslensku rafvirkjanna og voru það fram í stríðsbyrjun, en þá skilur á milli. Á stríðsárunum er atvinnuástand hér í háspennu vegna veru msvifa varnarliðanna og á þeim tíma hækka laun hinna íslensku rafvirkja meir en hinna dönsku, en svo fara hlutirnir heldur betur að breytast upp úr árinu 1946.

Lágmarkslaun íslenskra rafvirkja voru árið 1926 1,70 Íkr. og þeirra dönsku 1,70 Dkr.

Í dag eru lágmarkslaun íslenska rafvirkjans 1.100 Íkr.,  en dananna 144 Dkr.

Laun þeirra dönsku í íslenskum krónum hafa því hækkað um 18,5 milljón prósent. Að teknu tilliti til gjaldmiðilsbreytinga og gengi Íkr. gagnvart hinni dönsku. (Þ.e.a.s. hinu opinbera, það er síðan umhugsunarefni hvort það haldi, ef litið er til aflandsgengis eða einhvers annars, en þá verða niðurstöðurnar enn hrikalegri)

Dönsku launin hafa því hækkað í Dkr. um tæp 8.500 prósent á þessum 87 árum.

Laun danska rafvirkjans í íslenskum krónum hafa hins vegar hækkað um 18,5 milljón prósent.

Á sama tíma hafa laun íslenska rafvirkjans hækkað um 6,5 milljón prósent.
 
En allt er þetta afstætt, eftir því frá hvaða sjónarhól við horfum. En þó blasir eitt við
 
Krónan er mesti óvinur íslenskra launamanna 

Ef maður skoðar allt ferlið sést að eftir árið 1955 verður hver kollsteypan á fætur annarri allt fram að Þjóðarsátt, þá er lágdeyða fram yfir aldamórin síðustu og svo taka við kollsteypurnar undanfarinn áratug.

Við skoðun á þessum gögnum blasir við sú staðreynd að íslenskir launamenn eru endurtekið í kjarsamningum að reyna að ná svipuðum raunlaunum og voru í upphafi þess samningstímabils sem er að renna sitt skeið. Eða með öðrum orðum að berjast fyrir því að ná svipuðum kaupmætti og samið hafði verið um, áður en stjórnvöld felldu krónuna á samningstímabilinu.

En það markmið næst reyndar sjaldan þrátt fyrir mikil og tíð verkföll í samanburði við nágrannalönd okkar, nema með einhverjum utanaðkomandi aðgerðum stjórnvalda, sem oft voru síðan verið tekin úr sambandi af næsta ríkisstjórn. Það kallaði síðan á enn umfangsmeiri kröfur um launahækkanir.

Að teknu tilliti til þessa að þá verður að segjast eins og það er, að umfjöllun SA undanfarna daga um launahækkanir þar sem því er haldið fram að það séu aðgerðir launamann sem pumpa áfram verðbólguna, það er hreint út sagt kostuleg framsetning.

Það verður einnig að segjast eins og það er að því miður er mjög margt í spilunum þessa dagana, séu aðstæður skoðaðar í samhengi við ummæli nokkurra ráðherra undanfarið, að þá bendir margt (kannski allt) til þess að við stefnum hraðbyri í sama ástand og var á tímabilinu 1980 – 1990.

Þá verður mjög líklegt að forsætisráðherra segi í næsta áramótaávarpi „Guð hjálpi okkur.“

Engin ummæli: