fimmtudagur, 28. nóvember 2013

Þjóðin reynir valdarán

Þessi grein birtist nokkuð stytt í Fréttablaðinu 25. nóv. og fékk gríðarlega lesningu, hún er hér birt í fullri lengd.
 
 
Í Fréttablaðinu þ. 21. nóvember skrifar Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri leiðara þar sem hann reynir að réttlæta aðgerðir valdastéttarinnar í að koma í veg fyrir að Stjórnskránni verði breytt.

Hann gefur ekkert fyrir vilja þjóðarinnar og vitnar ítrekað til Skúla Magnússonar héraðsdómara helsta baráttumannsins gegn breytingum á hinum „helga gjörningi“.

Sá var reyndar í Stjórnarskrárnefnd, höfundar umfangsmikillar skýrslu sem Stjórnlagaráð fór eftir í sinni vinnu í góðri samvinnu við íslenska þjóð, en það vakti mikinn áhuga lýðræðissinna um heim allan.

Þegar niðurstaða Stjórnalagaráðs lá fyrir varð Skúla ásamt nokkrum öðrum ljóst að valdastéttin íslenska þótti illa að sér vegið. Þjóðin ætlaði að gera valdarán vildi taka til sín þau völd sem fámennur hópur hafði náð til sín í gegnum göt á úreltri Stjórnaskrá. Þá tók Skúli ásamt ásamt nokkrum einstaklingum úr Háskóla umhverfinu U-beygju og snérust af öllu afli gegn endurnýjun stjórnarskrárinnar. Einkennilegt, (reyndar ekki) þar sem niðurstaða Stjórnlagaráðs var nefnilega í fullu samræmi við það sem þessir hinir sömu höfðu áður sett fram.

Það var afgerandi niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, 73.509 samþykktu eða 31% kosningabærra manna og þeir sem höfnuðu voru 36.302 eða 16% kosningabærra manna.

Aldrei í sögu nokkurs lýðræðisríkis hefur það gerst að valdhafar fari gegn jafn afgerandi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, þaðan af síður að valdhafar grípi til þess örþrifaráðs að gefa sér atkvæði þeirra sem heima sátu. Í öllum lýðræðislegum kosningum er það niðurstaða þeirra sem mæta á kjörstað sem ræður.

Þegar talsmenn íslenskra valdhafa áttuðu sig á að þeir hefðu orðið sér til háðungar um hin lýðræðislega heim, var gripið til örvæntingarfullra skýringa eins og ritstjórinn er með „Þjóðaratkvæðagreiðslan var síðan líka gölluð; þar var spurt spurninga um sum mikilvæg atriði stjórnlaganna en ekki önnur, þannig að hún veitti heldur takmarkaða leiðsögn.“

Íslenska afbrigðið ef almúginn kýs ekki í samræmi við vilja valdastéttarinnar, þá hefur hann fengið ranga tilsögn.

Ritstjórinn fullyrðir ásamt Skúla að íslenskur almúgi sé illa að sér umfram það sem gerist í öðrum lýðræðisríkjum og hann segir „Eftir þennan skelfilega málatilbúnað var gjörsamlega útilokað að ná samkomulagi um afgreiðslu breyttrar stjórnarskrár á Alþingi fyrir kosningar, enda er stjórnarskrá ekki plagg sem á að afgreiða í bullandi pólitískum ágreiningi.“ Hvenær hafa breytingar á stjórnarskrá verið afgreiddar án þess að um það hafi verið pólitískur ágreiningur? Aldrei.

Talsmenn valdastéttarinnar hafa haldið að almúganum að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur sagt, eða ummæli höfundar Reykjavíkurbréfs um að hún sé „helgur gjörningur“,hvorki meir eða minna. Hver var skoðun stjórnmálaforingja þegar núverandi stjórnarskrá var borinn upp árið 1944?

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis ... Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf."

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „... er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „... nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. ... Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 –að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“

Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var að kjósa um skilnaðinn við Danmörku. Lýðveldisstjórnarskráin var saminn til bráðabirgða.

Ólafur Lárusson prófessor í lögum sagði „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum náinnar framtíðar. Lýðsveldisstjórnarskráin í þeirri mynd sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“

Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Það var einhugur um lýðveldisstjórnarskránna, en sá einhugur snerist um að hún væri einungis til bráðabirgða, en ákvæði hennar tryggja ráðherraræðið og þar er víglínan, hún tryggir nefnilega pilsfaldakapítalismann og helmingsskiptaregluna.

Engin ummæli: