föstudagur, 8. nóvember 2013

Sæmd Guðmundar Andra


Guðmundur Andri Thorsson er að mínu mati einn snjallasti rithöfundur þjóðarinnar í dag, ásamt því að vera einn af bestu pistlahöfundum okkar. Hann sendir nú frá sér bókina Sæmd og ég gat ekki beðið  - hljóp út í búð og náði mér í eintak.
 
Við lestur bókarinnar upplifði ég það að sögumaðurinn værum við, almúgi þess lands. Áhrifalaus í framvindu samfélags okkar, lýsing á því hvernig líf okkar ákvarðast af geðþótta valdastéttarinnar.

Sá ræður sem kemst til valda sama hvaða brögðum hann beitir, hans skilningur og skoðanir á samfélaginu eru þær einu réttu.

Hann einn ætlar að hefja fólkið og þjóðina upp úr fáfræðinni, vesaldómnum og skuldafeninu.

Hann einn er búinn að finna menn í útlöndum sem eiga að borga skuldir okkar.

Hann einn ætlar að tryggja að einhverjar erlendar stofnanir séu ekki að raska ró okkar og koma í veg fyrir að hann geti bjargað okkur og alið okkur upp í réttum anda.

Og svo kviknar lítill vonarneisti í bókarlok. Við eigum kannski eftir allt  - smá oggulítinn sjéns.

Ritstíll Guðmundar Andra er einfaldlega unaðslegur, bara hann einn út af fyrir sig er þess virði að bókin sé lesinn, burtséð frá því hvað Guðmundur tekur til umfjöllunar.

Bókin er áhrifamikil og heldur lesandanum föngnum frá upphafi til enda. Þetta er  ein af þeim bókum sem maður mun lesa aftur og aftur.

Klárlega skyldulesning.

1 ummæli:

Bubbi sagði...

Mikið er ég glaður að lesa þetta hlakka til og er þér algörlega sammála um gæði Guðmundar sem rithöfunds