þriðjudagur, 26. nóvember 2013

Innanríkisráðherra skrökvar að þjóðinni


Innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna, var í kvöldfréttum og hélt því fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi tekið mál Geirs H. Haarde til „meðferðar“, og það sé til vitnis um viðurkenningu dómstólsins á því, að ekki hafi verið staðið með sanngjörnum hætti eða rétt að málshöfðun á hendur ráðherranum fyrrverandi.


Þetta er rangt hjá Hönnu Birnu, annað hvort er hún vísvitandi að segja þjóðinni ósatt eða hún er enn eina ferðina að fjalla um hluti sem hún þekkir ekki.

Það er ekki til staðar nein viðurkenning af því tagi sem innanríkisráðherra nefnir. Það að auki er málið ekki til meðferðar heldur athugunar. Á því er grundvallarmunur og við verðum að ætlast til þess að ráðherra í ríkisstjórn Íslands viti það.

Nær öllum málum, sem tekin eru til athugunar hjá Mannréttindadómstólnum, er vísað frá. Hin eru tekin til meðferðar - og síðan dæmt.

Málflutningur innanríkisráðherra er þar af leiðandi ósvífinn og villandi, og er næst víst hluti af viðvarandi viðleitni forsvarsmanna Valhallar að hvítþvo ráðherra hrunstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokkinn.

Það segir okkur til hvar við erum stödd þegar að svo óheiðarlegur málflutningur berst frá innanríkisráðuneyti, ráðuneyti sem á að veita Mannréttindadómstólnum upplýsingar.

Fréttastofu RÚV ber að upplýsa almenning um þetta mál, og það rækilega.

Einnig verður forvitnilegt hvort ráðherrann ætli að leita sátta áður en fyrir liggur hvort Mannréttindadómstóllinn ætli í raun og veru að taka málið til meðferðar, og við ætlumst vitanlega til að RÚV flytji okkur fréttir af málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar.

Það er síðan kaldhæðni örlaganna að Geir H. Haarde hafði forgöngu um endurskoðun mannréttindaákvæða og fleiri ákvæða stjórnarskrárinnar árið 1995 en lét ákvæðin um Landsdóm standa óhreyfð þó þau séu augljóslega úrelt og barn síns tíma.
  
Í nýju stjórnarskránni sem samþykkt var með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu en núverandi og fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokks höfnuðu alfarið og virtu þar með um vilja þjóðarinnar að vettugi, stendur hins vegar um ráðherraábyrgð :
 
„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákveður, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra. Nefndin skipar saksóknara sem annast rannsóknina. Hann metur hvort niðurstaða rannsóknarinnar sé nægileg eða líkleg til sakfellingar og gefur þá út ákæru og sækir málið fyrir dómstólum. Nánar skal kveðið á um rannsókn og meðferð slíkra mála í lögum.“


 
 

Engin ummæli: