miðvikudagur, 17. desember 2008

Helköld staða

Viðtalið við fyrrv. forsætisráðh. Svíþjóðar í Sjónvarpinu í gærkvöldi var upplýsandi. Ég hef reyndar heyrt þetta allt áður á þeim norðurlanda ráðstefnum sem ég hef sótt seinni hluta þessa árs og fjallað um hér.

Það eru íslenskir stjórnmálamenn sem ekki hafa staðið sig í stykkinu við að setja samskonar lög og halda úti virkum eftirlitstofnunum og eru í öðrum Evrópulöndum um fjármálafyrirtæki, fyrirtæki, upplýsingaskyldu, flutning fjármagns og peningaþvottavélar staðsettar erlendis í eigu erlendra fyrirtækja í eigu íslendinga.

Það voru íslendingar sem kusu stjórnmálamennina og þess vegna eru það íslendingar sem bera ábyrgð á þeim sem þeir kusu til valda, sagði Göran. Það var íslenska frjálshyggjan sem dró íslenska þjóðfélagið í frá norrænu þjóðfélagsumgerðinni. Íslenskir stjórnmálamenn ásamt forseta landsins fóru í boði fjármagnsfurstanna í heimsreisur og auglýstu sjálfa sig og fluttu erindi um að þeir stjórnuðu besta frjálshyggjuríki í heiminum.

Á Íslandi væri svo mikið frelsi fyrir peningamenn að þeim væri frjálst að eiga peningaþottavélar, sem ekki væri skráðar á þá sem ættu þær. Þeir auglýstu eftir fleirum fjárglæframönnum og buðu þeim heim til Íslands, sem þeir væru óðum að breyta í fjármálaparadís.

„Á þessu bera íslenskir kjósendur ábyrgð. Þeir geta ekki sent þá ábyrgð annað“, sagði Göran kúabóndi og fyrrv. forsætisráðherra Svíaríkis.

Það voru margir sem vöruðu við hvert stefndi í fyrir síðustu kosningar. En frjálshyggjumennirnir sögðu að þar færi öfundarmenn og afturhaldssinnaðir norðurlandakratar og við kusum þá áfram til valda.

En nokkrir vildu trúa og tóku hvert lánið á fætur öðru. Lán til þess að kaupa sér stærra hús, og annað til þess að kaupa sér stærri bíl. Svo eitt lán til þess að byggja sumarbústað og annað lán til þess að fá sér heitan pott og skella sér til útlanda á fótboltaleik og kaupa leikföng.

Þessi lán voru tekin í banka sem var í eigu þeirra sem áttu líka flugfélagið og leikfangabúðina í London og fótboltafélagið. Þeir áttu svo útbú erlendis, sem tóku að sér að geyma sparnað fyrir enskan og hollenskan almenning til þess að geta skaffað nógu mikið af lánum heima á Íslandi og tóku svo sjálfir drjúgan hlut af þessu og fluttu erlendis í athafnalausu skjóli íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna þeirra, sem héldu að þeir væru búnir að finna upp hina eilífu paradís og buðu hingað helstu predikurum frjálshyggjunnar. Sjálfur forsætiráðherra tók á móti þeim og blessaði í fréttum Stjónvarpsins

„Færðu séreign þína úr lífeyrissjóðnum þínum til okkar“ auglýstu bankarnir, og hættu að borga í verkalýðsfélagið og sjúkrasjóðinn og láttu okkur fá þessa peninga og við búum til „special díl“ fyrir góða kúnna.

Við skulum ávaxta peningana þína þá á okkar sérhönnuðu reikningum og peningarnir munu vinna fyrir þig. En nú er hinn sérhannaði reikningur horfinn og bankinn svarar ekki símanum., kvartar fólkið undan þegar það hringir örvinglað í okkur starfsmenn stéttarfélaganna.

Og nú er annað stórt vandamál að koma upp á borð starfsmanna Vinnumálastofnunar, neðanjarðarhagkerfið. Þeir fjölmörgu sem unnu svart og voru „verktakar“ eru að uppgötva að þeir eiga engan rétt í kerfinu vegna þess að launatengdum gjöldum hefur ekki verið skilað.

En svo voru reyndar mikið fleiri íslendingar, sem fóru varlegar. Þetta fólk krefst þess að þeirra hagsmuna sé líka gætt. Það hefur greitt 12% af sínum launum í lífeyrissparnað og stóð í skilum með sína skatta, á meðan aðrir nýttu þessa fjármuni í einkaneysluna og gerðu grín af litlum bílum og umsvifum hinna skilvissu. En nú krefst þetta fólk þeirra sparifé fara ekki til þess að að greiða upp skuldir annarra.

Það eru helkaldar afleiðingar sjálfumglaðra stjórnmálamanna og embættismanna þeirra sem nú liggja á borðum Alþingis og eru að taka stefnuna pakkaðar í gluggaumslög inn um póstlúgur íslenskra heimila.

Hverja skyldu íslendingar kjósa næst?

2 ummæli:

Unknown sagði...

Má ekki segja að hver er sinnar gæfu smiður í þessu einsog öðru.Við kjósum eða kjósum ekki, það er þeir sem mæta ekki á kjörstað eða á fundi til að kjósa stjórn félags bera líka ábyrgð. Þannig að fólk á að mæta og kjósa.

Arnþór sagði...

Ekki er hægt að segja annað en að þú sért hrokafullur og kaldrifjaður Guðmundur. Hér er texti eftir betri mann en við erum báðir.

"Félagslegt réttlæti og pólitískt siðgæði eru hlutir sem erfitt er að festa í lög. Þetta eru dyggðir sem blunda í einstaklingnum og liggja í þjóðarsálinni. Það ber vott um virðingarleysi og jafnvel mannvonsku þegar þessar dyggðir eru algjörlega hunsaðar. Embættismenn sváfu á vaktinni í brúnni. Hér hrundi hagkerfið til grunna og enginn sem ber ábyrgð sér ástæðu til þess að segja af sér. Það er greinilega grunnt á pólitísku siðgæði á þessu landi.

Þegar yfirgnæfandi meirihluti fólksins í þessu svokallaða lýðræðislandi krefst kosninga þá bera ráðamenn fyrir sig ótrúlegustu afsökunum. Þeir segja að björgunarstarfið kalli á alla krafta þeirra og kosningabarátta yrði því of tímafrek. Við vitum þó öll að fjöldi alþingismanna hefur í gegnum tíðina verið á launaskrá fyrirtækja og stofnana út um allan bæ á meðan þeir gegna þingstörfum. Fólkið sem skúrar Alþingishúsið ætti að reyna að mæta jafn skrykkjótt á vinnustað!

Stjórnmálamenn eru á háum launum og enn betri eftirlaunum. Hvers vegna segja þeir ekki upp aukastörfunum og mæta til kosninga í vor?

Hvað segir það um okkur sem manneskjur og hvers konar félagslegt réttlæti er það að gera þúsundir einstaklinga sem skulda verðtryggð lán eignalausa á einn svipstundu. Og stela þannig afrakstri margra ára vinnu af þessu fólki? Þetta er gert á sama tíma og varla er hróflað við þeim sem rústuðu öllu kerfinu. Fólkið sem á undanförnum árum hefur verið að kaupa allt of dýrt húsnæði—þökk sé m.a. verðtryggingunni sem stórhækkar allt fasteignaverð—og hefur unnið myrkranna á milli á enga sök á gengisfellingum, okurvaxtastefnu eða spillingu í bankakerfinu. Nú á að leysa efnahagsvandan m.a. með því að leiða þennan hóp í sláturhús.

Líkt og Ugluspegill reiknaði barn í konu þá hafa einhverjir spekingar reiknað það út að verðtrygging lána lækki vaxtabyrðina. Þetta eru mjög villandi útreikningar vegna þess að það er verið að reikna út vexti innan kerfis sem felur í sér verðtryggingu. Aðrar þjóðir búa við kerfi sem byggir á framboði og eftirspurn lána sem bera fasta vexti. Það kerfi hefur alla tíð í nær öllum tilfellum skilað lánþegum lægri vöxtum heldur en íslenska okurkerfið. Verðtryggingin sem kerfi hefur því stórhækkað greiðslubyrðina, ekki lækkað hana. Þetta er útskýrt í smáatriðum hér.

Það er ekki eins og þetta séu einhver geimvísindi. Þegar tveir aðilar semja, en aðeins annar þeirra er látinn axla alla áhættu, þá eru í gangi viðskipti sem eru í hæsta máta óeðlileg og hljóta samkvæmt grundvallarreglum hagfræðinnar að leiða af sér einhverja vitleysu. Helstu gallarnir eru að falin greiðslubyrði fær fólk til þess að bjóða of hátt í húsnæðið og raunvextir verða of háir þegar eðlilegt samband á milli framboðs og eftirspurnar er tekið úr sambandi. Svona vinnubrögð eru ekki í anda eðlilegra viðskiptahefða og geta varla talist lögleg þótt einhverjir pólitíkusar hafi troðið þessu í gegnum þingið. Verðtryggingin var á sínum tíma taktísk viðurkenning stjórnvalda á þeirri staðreynd að þau kunnu ekki að stjórna hagkerfinu ... og kunna það greinilega ekki enn. Íslenska stjórnarskráin er ansi lélegt plagg sem vaskir stjórnmálamenn okkar eru búnir að tala um að breyta í hálfa öld og sennilega væri best að láta Evrópudómstóllinn dæma í þessu máli.

Möppudýrin í lífeyrissjóðunum eru öll á bandi verðtryggingarinnar og segja afnám hennar stórhættulegt fyrir sjóðina. En eins og nýlegt stórtap þessara sjóða sýnir þá eru þetta ekkert sérstaklega sleipir peningamenn eða sjálfstætt hugsandi hagfræðingar. Best væri að leggja þessa sjóði niður og láta kerfið vinna alveg sjálfkrafa. Það er hægt að gera á þennan hátt:

Reikningar eru opnaðir í Seðlabankanum fyrir alla Íslendinga sem eru á vinnumarkaði. Lífeyrissjóðsgreiðslurnar fara sjálfkrafa inn á þessa reikninga í formi ríkisskuldabréfa. Ef einstaklingur deyr um aldur fram þá fá erfingjarnir peningana millifærða á sinn reikning. Það kostar sama og ekki neitt að reka svona kerfi rafrænt, allir fjárfesta í öruggum bréfum og fá síðan greitt til baka að fullu. Berið þetta saman við ruglið sem núna er í gangi.

Lífeyrissjóðirnir eru risaeðlur sem eiga að hverfa.

Framtíð Íslands er ekki björt ef yngsta kynslóð húsnæðiskaupenda verður látin taka á sig stærri skell en aðrir. Réttlát reiði eitrar þá út frá sér í samfélaginu og mikill landsflótti liggur í loftinu. Eru stjórnmálamenn landsins virkilega svo kaldrifjaðir að þeir láti þetta gerast eða eru þeir bara steinrunnin nátttröll sem stara út í tómið. Það verður að afnema verðtrygginguna strax."