fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Vinur er sá, er til vamms segir

Hvar er sómatilfinning þeirra sem létu allar aðvaranir sem vind um eyri þjóta? Hlustuðu ekki á aðvörunarbjöllurnar glymja. Þessir hinir sömu ætla að sitja áfram eins og ekkert hafi gerst, þrátt fyrir að þjóðin krefjist að menn verði dregnir til ábyrgðar. Þeir ætla sér að sitja að endurskoðun og haga málum þannig að þeir geti sópað til hliðar afglöpum sínum.

Ætíð þegar frjálshyggjumenn Sjálfstæðisflokksins hafa rætt um efnahagsstefnur hefur þeim verið sérstaklega í nöp norrænt hagkerfi, þá sérstaklega við Svíþjóð, en hampað BNA. Hvar standa Norðurlöndin í dag í samanburði við BNA? Þrátt fyrir þetta leita Geir og félagar sérstaklega til Norðurlandanna eftir aðstoð. Svörin sem hafa komið þaðan, og reyndar frá öllum öðrum, hafa verið skilmerkileg; Það komi ekki til greina að láta okkur fá peninga fyrr en það liggi fyrir að tekið verði til í efnahagsstjórninni.

Geir og félagar hafa þráast við í 7 vikur og hreytt ónotum í vinarþjóðir okkar. Það er runnið af okkur, segja Geir og félagar, sjáið ekki að við erum edrú í dag og höfum fullt vald á drykkjunni. Látið okkur hafa einn kassa strax, ekki vera svona leiðinleg við okkur.

Hvernig í veröldinni telja Geir og félagar sig geta verið mað einhverjar dylgjur í garð Norðurlanda um að þær séu ekki lengur vinaþjóðir okkar. Eins og Geir og sérstakur efnahagsmógull Sjálfstæðisflokksins Hannes Hólmsteinn eru að dylgja um í fjölmiðlum í morgun. Var sóðaræða Forsetans yfir sendiherrunum um daginn eignlega ekki alveg nægileg. Staðan er nú einfaldlega sú að afstaða þeirra er vinargreiði. Þeir þekkja vel hvað hefur verið að gerast á Íslandi.

Íslensk stjórnvöld hafa verið virkir þátttakendur á hömlulausu eyðslufylleríi bankanna og ýtt undir skuldaaukningu almennings með því að láta krónuna vera 30% of sterka. Messað yfir þjóðinni að allt sé hér í toppstandi, fellt niður skatta til þess að ýta ennfrekar undir eyðsluna. Vitanlega vildu margir trúa þessu og tóku þátt í þessu með fjárfestingum sem í dag er að setja mörg heimili á hausinn. Jú það voru heimilin sem tóku þessa ákvörðun. En undir hvaða skilaboðum frá Geir og félögum og fjármálaráðunautum bankanna? Þetta er allt í fínu, skál.

Og nú á að láta 700 milljarða í hendur Seðlabankastjórans! Jesús minn. Eru menn eitthvað undrandi á því að það vefjist fyrir vinum okkar. Vinur er sá, er til vamms segir.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er einmitt málið. Íslendingar þurfa nú að safna undirskriftum og senda á IMF þess efnis að þeir geri það sama og Norðurlandaþjóðrinar þ.e sendi ekki hingað krónu fyrr en þetta lið er farið frá.

kv. Fríða

Nafnlaus sagði...

Guðmundur þú verður að mæta á austurvöll næsta laugardag.
Það eru stórkostlegir hagsmunir fyrir okkur fólkið í landinu undir því að þessir drullusokkar komist ekki upp með það að hirða tugi og hundruð milljarða út úr bönkunum kortéri fyrir lokun og stingi svo af með þetta, það verður að ná þessum mönnum !!!!

Nafnlaus sagði...

Hverjir eru þessir "félagar" Geirs sem þú vísar í? Gott væri að þú nefndir þá - finnst þér það ekki?

Nafnlaus sagði...

Ha! sómatilfinning? Hvað er það?