föstudagur, 23. júlí 2010

Hin fársjúka umræðulist

Ég hef margoft komið að því hversu fársjúk umræðulistin sé hér á landi og þá borið hana saman við það sem ég þekki til á hinum norðurlandanna þar sem ég hef verið við nám og störf.

Hér nota menn hiklaust þá lágkúru sem kölluð er að fara í manninn ekki boltann, til þess að komast hjá því að ræða það sem til umræðu er og víkja sér undan því að þurfa að færa málefnaleg rök fyrir sínu máli. Svo einkennilegt sem það nú er þá nær þetta hiklaust inn í suma spjallþætti og fréttatengda þætti

Ég hef oft vitnað til þessa í ESB umræðunni, en ætla núna að benda á þá meðferð sem dóttir mín fær þessa dagana og fékk reyndar einnig þegar hún tók sig til fyrir tveim árum og varði umtalsverðum fjármunum og tíma til þess að fá hingað til lands þekktustu umhverfisinna heimsins og þá sem höfðu náð langt í hinu svokallaða græna hagkerfi.

Þegar ég tók þá til varnar viku sumir sér að mér á förnum vegi og öskruðu, „Þú þarna sem ert pabbi þessarar ríku ofdekruðu frekju.“ Þeir sem þekkja Björk vita að þessi lýsing er fjarri öllu lagi. Hún hefur verið besta auglýsing fyrir Ísland og nýtt öll tækifæri sem henni hafa boðist til þess að koma landinu og náttúru þess á framfæri.

Hún var ótrúleg lágkúran sem birtis í mynd Halldórs í Fréttablaðinu í gær. Þeir sem eru ósammála Björk í Magma-málinu hafi sumir hverjir gripið til ráðs sem alþekkt er í rökræðulist, eða öllu heldur til að koma sér undan rökræðu. Það elsta í bókinni og sem svo margir komast upp með hér á landi, gengur út á að sverta sendiboðann og reyna þannig að beina umræðunni að einstaklingnum og framhjá málinu sjálfu.

Hvað er hún Björk að vilja uppá dekk, hún sem borgar ekki alla sína skatta á Íslandi? „Hvers vegna er Björk að fara fram á að Magma borgi skatta á Íslandi ef hún gerir það ekki sjálf?“ Eins og skrifað uppúr Morfísbókinni.

Krafan um að Magma greiði skatta af hagnaði á HS Orku er sjálfsögð og rökrétt. En það er margt annað er aðfinnsluvert við kaupin. Magma á að fá einkaafnot af takmarkaðri náttúruauðlind og því frumskilyrði að skattar og gjöld af þeirri starfsemi verði greidd á Íslandi.

En að líkja því saman við það hvar Björk borgar skatta af erlendri starfsemi sinni er fullkomlega út í hött. Starfsemi Bjarkar fer fram að mestu leiti erlendis og hún hefur nær allar tekjur sínar erlendis. Hún er ekki að nýta takmarkaða náttúruauðlind í eigu almennings og er ekki á sama stað hvað það varðar og Magma eða kvótagreifar og landeigendur.

Björk þarf vitanlega að greiða skatta á þeim stað sem við á hverju sinni og borgar skatta hér. Hún leggur í talsverðan aukakostnað við að flytja hingað tæknifólk sér til aðstoðar til þess að vera með sem mest af sinni starfsemi hér heima.

Við krefjumst réttilega af erlendum fyrirtækjum sem hér starfa að þau greiði skatta af sinni starfsemi hér og höfum einnig krafist þess að starfsmenn þeirra geri það líka og reyndar fengið á baukinn fyrir að ganga of langt í þeim efnum .

En þessi málflutningur nær inn í fjölmiðla og í spjallþættina. Ég ætla ekki að ræða aths.runur bloggheima, þær eru margar hverjar svo víðáttu vitlausar og ómerkilegar. En þessi umræðulist virkar hér á landi þó svo annarsstaðar t.d. á hinum norðurlandanna væri tekið á þessu af spjallþáttstjórnendum og vönduðum fjölmiðlamönnum.

Hér á landi er þessu tekið athugasemdalaust upp, enda svínvirkar þetta hér í landi hinnar löskuðu umræðulistar og okkur miðar ekkert. Svo langt er gengið að þessi umræðulist hefur verið tekinn upp í heimum stjórnmálamanna og er einkennandi á Alþingi íslendinga.

þriðjudagur, 20. júlí 2010

Einkavæðing orkunnar

Vegna þeirrar umræðu sem fram fer þessa dagana langar mig til þess að endurbirta pistil sem ég skrifaði í nóv. 2007, það var á tímum REI hans Guðlaugs Þórs og þegar klækjapólitíkin var við völd í Reykjavíkurborg.

Þegar frjálshyggjan náði taki á stjórnmálamönnum sem voru við völd hér á landi gleymdu þeir sér í einhverri gróðafíkn og vildu vera miklir kallar sem spiluðu á alþjóðamarkaði með peninga, réttara sagt eignir sem við almenningurinn í þessu landi eigum. Þetta sáum við svo vel þegar í fjárfestingafyrirtækjum sem þáverandi ráðamenn stofnuðu í kringum orkuveitufyrirtækin.

Flestir íslendingarnir sem ekki hafa velt því fyrir sér hvort orkuframleiðendur eigi að greiða eitthvert gjald fyrir vatnið eða gufuna sem renna í gegnum virkjanirnar, vegna þess að þetta hafa verið fyrirtæki í eigi almennings. En þegar stjórnmálamenn sukku til botns í spilafíkninni og vildu einkavæða orkufyrirtækin, þá staldrar maður við og situr örlítið lengur með kaffibollan við morgunverðarborðið og spyr sjálfan sig; Er það möguleiki að skyndilega sitjum við íslendingar uppi með það að einhver einstaklingur hafi eignast öll vatnsréttindi í Þjórsá, gufuaflsréttindin á Reykjanesi, Langasjóinn eða öll orkuréttindi á Torfajökulssvæðinu?

Er aðferðafræðin við kostnaðarútreikninga við framkvæmd virkjana rétt? Eru stjórnmálamenn að leiða okkur í samskonar vegferð með orkuréttindin og fiskinn í sjónum? Er skilið nægjanlega vel á milli verðmats á réttindum og kostnaðar við virkjanir?

Ein af ástæðunum fyrir mikilli raforkueftirspurn til álframleiðslu hér á landi síðustu ár er, sé litið til þess sem fram kom fyrir nokkru um orkuverð til ALCOA í Suður-Ameríku, að virkjanaréttindin hafi ekki verið réttilega metin til fjár. Vatnsréttindin eru ekki í raforkuverðinu hér á landi. Ríkið á mikil vatnsréttindi t.d. í Þjórsár, sem eru auk þess mun verðmætari vegna þess að íslenska þjóðin er búinn að byggja vatnsmiðlanir ofar í ánni fyrir milljarða og setja undir það umtalsvert land. Þetta er veigamikill þáttur í að koma umræðu um nýtingu og náttúruvernd inn á málefnalegar brautir.

Víða erlendis er búið að einkavæða og selja almenningsveitur. Þeir sem eignuðust fyrirtækin lokuðu viðhaldsdeildum, sögðu upp starfsfólki og stoppuðu viðhald og uppbyggingu. Með því náðu þeir að sýna glæsilega afkomu á ársfundum og hlutabréfin ruku upp. Nú er að koma upp að viðhald og endurnýjun hefur verið trössuð í mörg ár og fyrir liggur að fjárfesta þurfi fyrir umtalsverðar upphæðir til að tryggja vatn og frárennslislangir og rafmagn. Það er ekki hægt nema hækka afnotagjöld umtalsvert segja núverandi eigendur. Annað hvort verður almenningur að kaupa þessi fyrirtæki tilbaka eða sætta sig við verulega aukna skattlagningu í formi hækkaðar afnotagjalda.

Það verður virkjað meira á Íslandi en þegar hefur verið gert. Þegar við lendum í niðursveiflunni og fáum yfir okkur atvinnuleysi, eins og ætíð hefur gerst eftir nokkurra ára uppsveiflu, þá verður þess krafist að það verði virkjað. Virkjanir í neðri hluta Þjórsár voru flokkaðar í vandaðri forvinnu þeirra sem unnu að Rammaáætlun sem fyrstu valkostir. Þá voru ekki gerðar neinar athugasemdir. Ef þessar virkjanir verða ekki reistar þá þarf að reisa einhverjar aðrar, það liggur í hlutarins eðli.

Að lokum væri það bara ekki eðlilegast að orkuveitufyrirtækin okkar snúi sér alfarið að því að framleiða og afhenda okkur eigendunum ódýra og hreina orku á góðu verði.

fimmtudagur, 15. júlí 2010

Góðar ábendingar AGS

AGS bendir réttilega á að ríkisstjórnir íslendinga hafi ekki tekið með í reikninginn þann hluta skattkerfisins sem fari fram í gegnum vinnumarkaðinn. Á þetta hefur verið bent nokkrum sinnum hér á þessari síðu. Í stuttu máli er það vegna andstöðu bænda- og útvegsmanna valdsins að þróun almenna tryggingarkerfisins væri ekki með sama hætti hér á landi og hún var í hinum norðurlandanna. Þekkt er hvernig þetta sama vald stóð í vegi fyrir afnámi hjúalaga og fleiri atriðum til hagsbóta fyrir hinn almenna launamann. Við erum að upplifa það hið sama í dag í umræðunni um aðild að ESB.

Þegar samtök launamanna sáu að ráðandi stjórnmálaöfl komu í veg fyrir að íslenskir launamenn hefðu sömu réttindi væru annarsstaðar á norðurlöndunum, börðust þau með langvinnum verkföllum fyrir því að ná fram í gegnum kjarasamninga. Þetta sést best í íslenska lífeyriskerfinu, sjúkrasjóðakerfinu og veikindadagakerfi kjarasamninga. Þessi kerfi eru á hinum norðurlöndum rekin í gegnum skattkerfið og almenna tryggingarkerfið.

Þar á ég við að veikindaréttur gagnvart vinnuveitanda er mun lengri hér á landi en á hinum norðurlandanna og þegar hann þrýtur taka sjúkrasjóðirnir við og svo lífeyrissjóðirnir ef um mjög langvinn veikindi er að ræða. Ef þetta íslenska kerfi væri lagt niður og fært yfir á almenna tryggingakerfið, skapaðist svigrúm til u.þ.b. 15% launahækkunar, en aftur móti þyrfti ríkissjóður að hækka skatta um svipaða upphæð.

Ég hef oft gagnrýnt hversu takmarkaða þekkingu íslenskir stjórnmálamenn hafa í raun á þeim hluta hagkerfisins fram fer á vinnumarkaðinum. Þar er ég t.d. að vísa til kostulegra fullyrðinga fyrrv. stjórnarþingmanna sjálfstæðismanna og framsóknar um skatta hér á landi, þar sem þeir tóku ekkert tillit til jaðarskatta og skerðingarmarka bótakerfisins og þvertóku fyrir að ræða hvaða áhrif skattabreytingar þeirra höfðu á þá sem minnst höfðu til hnífs og skeiðar.

Skýrsla AGS er greinargóð um margt, m.a. um þessa hluti. Þó svo margir séu andvígir AGS þá er klárt að það er rétt afstaða vina okkar á hinum norðurlöndunum að það yrði að koma íslenskum stjórnvöldum í skilning um að þeir stjórnarhættir, sem hér hafa verið tíðkaðir voru einfaldlega ekki í lagi. Vinnubrögð á Alþingi hafa ekki boðleg, ráðherraræði sem einkennist af verndun valda fárra á samfélaginu ásamt þekkingar- og skilningsleysi á hvernig hin almenni vinnumarkaður fúnkerar.

Ábendingar AGS um ehf-væðinguna sem orðið hefur á undanförnum árum eru þarfar og þó fyrr hefði verið. Sérhyggjan hefur náð langt, og harla einkennilegt að hlusta á ehf- menn gera kröfur um þjónustu frá hinu opinbera og maður verður oft undrandi þegar þeir mæta inn á gólf hjá okkur í stéttarfélögnum og gera kröfur um styrki, en hafna því jafnframt að greiða af réttum launastofni. Ehf-menn halda niðri eðlilegri þróun samfélagsins og launaþróun. Sérfræðingar AGS benda réttilega á að lágmarkslaun hinna ýmsu stétta eru of lág.

mánudagur, 12. júlí 2010

Við höfum unnið rökræðuna

Öll munum við eftir því þegar boðberar nýfrjálshyggjunnar mættu fyrir nokkrum árum með sigurglott á vör í hvern spjallþáttinn á fætur öðrum með yfirlýsingar um að þau hefðu unnið rökræðuna. Sovétið væri hrunið og hið íslenska efnahagsundur byggt á nýfrjálshyggjunni blasti við.

Ég verð að segja, og hef reyndar bent á það nokkrum sinnum hér á þessari síðu, að ég sé eiginlega engan mun á niðurstöðu Sovétsins og hinu Íslenska efnahagsundri. Gríðarleg eignatilfærsla hefur átt sér stað frá almenning til fárra og þeir sem voru við völd hafa algjörlega brugðist í því að stjórna. Það er ríkið sem á að setja sanngjarnar leikreglur og halda þeim uppi.

Nú stendur þetta sjálfumglaða fólk ásamt okkur hinum yfir rústum íslensks samfélags, þúsundir heimila og fyrirtækja eru gjaldþrota. Hér á landi hefur kaupmáttur hrunið vegna falls krónunnar, skuldir snarhækkað og fjöldi heimila búinn að missa hús sín. Það gerðist ekki í nágrannalöndum okkar.

Þetta sama fólk fer nú mikinn í því að koma í veg fyrir að fram geti farið viðræður við ESB um hvaða kostir standi Íslandi til boða, svo þjóðin geti tekið upplýsta afstöðu til þess hvort hún eigi samleið með öðrum Evrópulöndum eða vilji standa ein og einangruð með sína krónu.

Mótsögnin blasir í því að útgerðarmenn sem fjármagna þessa herferð gegn aðildarviðræðum að ESB, nota ekki krónuna til þess að gera upp sín viðskipti og þeir nota Evru, en vilja nota krónuna til þess að geta blóðsúthellingalaust haldið launum í landinu niðri. Ísland verði láglaunasvæði sem velmenntað vinnuafl flýr.

Ný könnun á vegum samtaka dönsku verkalýðsfélaganna sýnir að tugi þúsunda af hámenntuðu starfsfólki muni skorta á danska vinnumarkaðinn fram til ársins 2019 og þangað leita íslenskir menntamenn. Í niðurstöðum kemur fram að hámenntað starfsfólk skili mun meiru inn í hagkerfið en lítt menntað. Þetta helgast m.a. af því að hámenntað fólk býr við meira starfsöryggi, skilar meiri framleiðni, tekur færri veikindadaga og fer seinna á ellilífeyri en þeir lítt menntuðu.

Ef nota á krónuna verða vextir að vera hærri en í samkeppnislöndunum og verðtrygging er óhjákvæmileg. Skattar þurfa að vera hærri til að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð og velferðarkerfið verður máttvana vegna fjárskorts. Verðtryggða krónan var innleidd sakir þess efnahagslífið gekk ekki með óverðtryggðri krónu. Það munum við vel sem vorum að reyna að koma þaki yfir okkur á árunum 1980 – 1990. En fyrir því voru líka siðferðileg rök, talið var réttlátt að þeir sem áttu aðgang að lánum greiddu þau til baka í sama verðgildi.

Málflutningur þeirra sem eru gegn því að íslendingar fái að taka málefnalega afstöðu til aðildar að ESB og þess að skipta um gjaldmiðil einkennist af einangrunarhyggju og þjóðarrembing. Ísland eigi að fá sérlausnir umfram aðra, þessu er haldið fram þrátt fyrir að erlend lönd vilja helst ekki eiga samskipti lengur við íslendinga. Þeir standa ekki við samninga og það sé nánast ómögulegt að fá niðurstöður í viðræður við samninganefndir sem koma frá Íslandi.

Nú liggur það fyrir að 71% þjóðarinnar vill fara þessa leið ef það liggi fyrir að við náum hagstæðri niðurstöðu í fiskveiðistjórnun. Báðir stjórnaflokkarnir vilja fá niðurstöður í aðildarviðræður, þó svo það liggi fyrir að VG sé á móti inngöngu. Sama má segja um stóran hóp innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

En Heimsýnarhópurinn reynir allt sem unnt er að gera lítið úr afstöðu þeirra sem vilja láta reyna á umsóknarferlið. Viðbrögð á vettvangi stjórnmálanna benda til að lítill lærdómur hafi verið dreginn af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir að hruni krónunnar og bankanna.

Mótsögnin hjá Heimssýnar afstaða þeirra til nauðsynlegra efnhagsráðstafana til framtíðar, þetta blasir í umræðum um dóm Hæstaréttar. Þar ætla menn að bæði að halda og sleppa og stefna með því inn á sömu braut og leiddi til Hrunsins.

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni

„Það er erfitt að taka ákvarðanir og gera áætlanir fram í tímann á þeim forsendum hvað eigi mögulega að gera hér í framtíðinni. Það virðist vera planið að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evruna eftir einhver ár. Mér líst vel á það," segir Hilmar V. Pétursson, forstjóri tölvuleikjaframleiðandans CCP í viðtali í Fréttablaðinu í dag.

Ég hef alloft vitnað til ummæla hans á fundum um stöðuna á íslenska vinnumarkaðinum og muninum á hinum nú og svo þeirrar stöðu sem forsvarsmenn útvegs og landbúnaðar vitna útrekað til. Það var staðan fyrir áratug og lengra tíma síðan.

Hilmar bætir við að stjórnendur fyrirtækisins bindi vonir við að innganga Íslands inn í ESB muni leiða til þess að umhverfið sem þeir hafi starfað í síðustu ár róist og verði líkara því sem er í öðrum löndum þar sem CCP er með starfsemi. „Þar getum við gengið að flestu vísu," segir Hilmar.

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja erum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt. Íslenskt atvinnulíf starfar í alþjóðlegu umhverfi og við verðum að víkja frá einangrunarstefnunni. Vandamálið var ekki síst að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er krónan. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda.

Það er brýnt að annar gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu, sé horft til framtíðar. Ísland á miklar auðlindir og mun ná vopnum sínum. Það eru allar forsendur fyrir því að það sé hægt að á skömmum tíma. Ef ekki verður gripið til réttra aðgerða verður Ísland láglaunasvæði við hlið hinna norðurlandanna sem eru með lægri vexti, hærri laun, mun lægra verðlag og mun betra öryggisnet. Það kallar á fólksflótta.

Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni er lykill og grunnur að lausn annarra stórra vandamála á Íslandi og um leið forsenda endurreisnar. Það er því allra stærsta viðfangsefnið sem framundan er. Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni verður að finna á allra næstu vikum og mánuðum þannig að gengið geti styrkst um a.m.k. 30% innan árs og komist í langtíma jafnvægisstöðu (gengisvísitalan 140) eftir um eitt ár.

Hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðarframleiðslunni er innan við 8% og skapar um þriðjung gjaldeyris. Þau 20.000 störf sem þarf að skapa á næstu 4 árum til þess að koma atvinnuleysinu niður fyrir 4% verða ekki í sjávarútvegi og landbúnaði. Ný störf verða til í sömu störfum og atvinnuleysið er nú; þjónustu og tæknigreinum. Það er því kaldranalegt fyrir atvinnulausa fólkið að heyra þá sem hafa atvinnu hafna algjörlega eina möguleikanum að koma þróuninni í réttan farveg og til framtíðar með því að nýta orkuna og byggja upp þekkingariðnað, líftækni, lyfjaframleiðslu og ferðaþjónustu.

Þessar atvinnugreinar eiga það sameiginlegt að búa við stöðugleika. Þau þurfa aðgang að erlendu fjármagni og erlendum mörkuðum, af því að heimamarkaðurinn er of smár. Okkur er lífsnauðsyn að tengjast stærra myntsvæði, sem getur fært okkur stöðugt efnahagsumhverfi. Ella munu atvinnugreinar framtíðarinnar ekki þrífast hér. Unga menntaða fólkið mun flytja úr landi og þeir sem eru að mennta sig núna koma ekki heim.

þriðjudagur, 6. júlí 2010

Skuggahliðin

Margir hafa haft orð á því hver íslensk umræðulist er löskuð. Einkennist af upphrópunum og órökstuddum klisjum, sjaldan fari fram upplýst umræða. Þetta á við um landsmálin og er auk þess ákaflega áberandi hvað varðar umræðu um ESB, kosti og galla.

Almenning hefur blöskrað vinnubrögð þingmanna og það orðfæri og vinnubrögð sem þeir beita. Sú óheillavænlega þróun átti sér stað á Alþingi á undanförnum áratugum, að ráðherrar og æðstu embættismenn virtu Alþingi einskis. Alþingi virtist vera til þess eins að afgreiða ákvarðanir sem nokkrir ráðherrar ásamt tilteknum embættismönnum tóku án nokkurrar umræðu á Alþingi eða samskipta við aðila í atvinnulífinu.

Nú má velta því fyrir sér hvort sé afleiðing eða orsök. Hafa ráðherrar og embættismenn gefist upp á því að eiga vitræna umræðu í Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sakir þess að þingmenn þekkja tilgangsleysi sitt?

Atburðir eftir Hrun hafa flett ofan af hverri ormagryfjunni á fætur annarri. Hér ríkir klíkuskapur. Afgreiðslur stofnana og ráðherra hefur einkennst af fyrirgreiðslu. Kerfið verið spillt og snýst um að tryggja völd. Fram kom alvarleg ábending um vinnubrögð ráðherra frá umboðsmanni Alþingis um að lagasetningu Alþingis væri verulega ábótavant. Allt að þriðjungur laga sem Alþingi setti stangist á við stjórnarskrá eða gildandi lög!!??

Bönkum var athugasemdalaust gert kleift að pumpa milljörðum króna inn í hagkerfið svo hægt væri að standa við kosningaloforð, auk þeirra gríðarlegu upphæða sem komu með krónubréfunum. Margir bentu á þetta og settu fram aðvaranir, en æðstu embættismenn og ráðherrar tóku þá ákvörðun að eyða þessum fjármunum í að lækka skatta, sem varð til þess að þenslan jókst enn frekar og gengi krónunnar varð 30% of hátt.

Það leiddi til þess að heimilin og fyrirtækin skuldsettu sig upp fyrir fasteignamat sem keyrt var upp af sömu spennu, töluvert upp fyrir raunverð. Sérfræðingar bankanna hvöttu til la´ntöku og fjárferstinga og undir það var tekið með hástemmdum yfirlýsingum um Íslenska efnahagsundrið af þáverandi ráðherrum og efnahagssérfræðinganna þeirra í stjórn Seðlabankansa um hvað allir hefðu það gott í hægri sveiflu Hagkerfisins.

Margir bæði innlendir og erlendir sérfræðingar hrópuðu á að grípa yrði til ráðstafana vegna mikils vaxtar bankanna og skuldsetningar, sú stefna sem fylgt væri í íslensku hagkerfi væri úrelt og gæti ekki leitt til annars en mikils og sársaukafulls Hruns.

Allir kannast við svör þáverandi ráðherra og Seðlabankans. Sama á hverju gekk og hvaðan gagnrýni kom, alltaf sögðu Davíð, Geir, Þorgerður og Árni að allt væri í lagi og engin ástæða til þess að taka mark á þessum athugasemdum. Menn ættu bara að fara heim og læra fræðin sín betur.

Athafnir þessara embættismanna og ráðherra hafa leitt til þess að tugþúsundir íslendinga hafa tapað ævisparnað sínum og sitja uppi með gríðarlegar skuldir. Þetta fólk hefur ekkert unnið til saka, annað en að vilja njóta þeirra miklu lífsgæða sem auðhyggja sagðist hafa búið þeim. Fjárglæframenn nýttu sér svigrúm sem slök íslensk reglugerð og eftirlit gaf þeim til þess að skuldsetja þjóðina. Embættismenn og ráðherrar vildu hafa þetta svona og auglýstu Ísland með dyggri aðstoð forseta lýðsveldisins sem fjármálaparadís.

Æðstu embættismenn með Davíð Oddsson seðlabankastjóra og Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis í broddi fylkingar, töldu að þetta skipti engu vegna þess að það stæði ekki til að greiða þessa skuldir. Þáverandi forsætis- og fjármálaráðherrar virtust trúa því að þetta væri rétt og við myndum komast upp með það.

Þrátt fyrir að erlendir ráðherrar og seðlabankastjórar ítrekuðu að íslendingar yrðu að sætta sig við að fara að viðteknum samskiptum siðaðra þjóða og greiddu upp skuldir sínar. Norðurlandaþjóðirnar sögðu ásamt öðrum þjóðum, að ekki kæmi til greina að koma að því að hjálpa íslendingum, nema þá í gegnum AGS, sakir þess að sú leið virðist vera sú eina til þess að koma íslenskum stjórnmálamönnum í skilning um að háttsemi þeirra gangi ekki.

Sé litið til frétta undanfarinna daga, þá virðist lýðskrumið enn vera við völd, og fátt annað en langvinn og sársaukafull lægð blasi við. Í dag búa um 20 þús. íslendingar á hinum norðurlandanna, þeim hefur fjölgað á undanförnum misserum og á eftir að fjölga enn frekar.

mánudagur, 5. júlí 2010

Eru víglínur að skýrast?

Ef reisa á Ísland upp úr rústunum þá verður það ekki gert með skammtíma aðgerðum, hinum venjubundnu íslensku „þetta reddast leiðum“ eins og harðlínukjarnar Sjálfstæðisflokks og VG vilja. Fólk er búið að fá sig margfullsatt af hinum endurteknu sveiflum íslensku krónunnar og agalausri efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem oft einkennast frekar af verndun hagsmuna fárra og kjördæma poti en heildaryfirsýn.

Það voru mikil mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að halda ekki áfram á þeirri leið sem mörkuð var með inngöngu í EES með frekari tengslum við evrópska efnahagsstjórn. Um aldamótin síðustu lá fyrir að uppbygging íslensks atvinnulífs var ekki afmörkuð við Ísland og taka yrði á gjaldmiðilsmálum. Krónan hefur valdið kerfishruni og eignaupptöku. Vextir eru óheyrilegir og þar af leiðandi verðlag. Kaupmáttur hefur fallið og það þarf mikið að gerast til þess að hægt verði að endurvinna þá stöðu sem búið var að ná.

Það sem gerðist eftir 2003 var að mestu innistæðulaus bóla, sem ríkjandi stjórnvöld vildu ekki horfast í augu við. Þeir sem voguðu sér að benda á þetta voru hæddir og lýst sem púkó og neikvæðum. Fáir sem vildu vera í þeirri stöðu, allra síst ríkjandi stjórnmálamenn. Þeir vildu að allir væru vissir um að þeir hefðu skapað hið Íslenska efnahagsundur.

Hið íslenska efnahagsundur með einkavæðingu bankanna sem grunn varð þjóðinni dýrkeypt. Arkitektarnir eru enn að sitja á Hádegismóum og halda úti Bloggsíðum þar sem þyrlað er upp moldviðri til þess að villa fólki sýn. Þessum mönnum tókst á nokkrum árum að gera Ísland að skuldugasta landi Evrópu. Sparifé landsmanns gufaði upp, skuldir ókleifur múr, laun hafa hrapað og kaupmáttur færður 10 ár aftur í tímann.

Undir stjórnleysi og eftirlitsleysi þessra manna vorum við gerð ábyrgð fyrir glórulausu fjárplógsdæmi þar sem sparifé Hollendinga og Breta var dregið inn í óseðjandi hítina. Þeir sendu inn á heimili landsmanna menn á prémíum og bónusum til þess að fá fólk til þess að taka ólögleg lán, sem settu svo tugþúsunda heimila á hliðina.

Það er ríkið sem brást undir stjórn þessara manna. Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings, þar á bæ var ekki tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu. Það eru stjórnvöld sem setja lögin og þau lögðu til hliðar samkennd og jöfnuð og létu markaðshyggjuna ráða för. Með því hafa þau ákveðið að viðhalda því ástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans og þá um leið að verðtrygging verði hér áfram.

Eru víglínur að skýrast? Eru flokkarnir að riðlast? Er ritstjóranum og hans fólki að takast að splundra fjórflokknum?

sunnudagur, 4. júlí 2010

Icesave upprifjun

Fjármálaráðherra segir erfitt að fá Hollendinga og Breta að samningaborðinu til þess að ræða Icesave. Konungar lýðskrumsins með forsetan sem klappstýru, héldu því fram að með stóru feitu Nei myndum við komast í úrvalssamningstöðu. Bretar og Hollendingar óttuðust Neiið. Staðreyndin er önnur. Menn vilja ekki ræða við íslendinga. Það er tilgangslaust því þeir fara ekki eftir samningum nema þeim henti, heyrir maður sagt um okkur á fundum og ráðstefnum á Norðurlöndunum. Það er búið að semja þrisvar við íslensk stjórnvöld, en þau vildu svo ekki standa við þá samninga. Tap íslendinga vegna þessa er gríðarlegt og nálgast eina ársframleiðslu.

En rifjum aðeins upp málavexti. Ef forráðamenn Landsbankans hefðu ákveðið að reka bankastarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í þarlendum dótturfyrirtækjum, en ekki sem útibú frá Landsbankanum, þá lægi reikningur vegna Icesave til íslenskra skattgreiðenda ekki fyrir á Alþingi Íslendinga.

Þeir sem með þessum hætti framvísuðu vísvitandi Icesave á hendur þjóðarinnar eru : Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar; og Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson formaður bankaráðs og fyrrv.framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins.

Það voru þessir menn sem ákváðu að yfirbjóða innlánsvexti keppinauta í samkeppni um innlán sparifjáreigenda í þessum löndum. Bankinn var undir þeirra stjórn sokkinn í skuldir og þeir börðust við að koma í veg fyrir hrun hans og sóttust eftir erlendu fjármagni.

Skv. skýrslu hollenskra lagaprófessora til hollenska þingsins, var því hafnað ítrekað af hálfu Landsbankanum, að færa Icesave-netbankana frá aðalbankanum í útibú í Hollandi og Bretlandi, undir eftirliti og sparifjártryggingu þarlendra yfirvalda.

Það má færa fyrir því rök að meginástæða þessa hafi verið, að forsvarsmönnum Landsbankans hafi verið ljóst að þar fengi bankinn allt aðra og mun harðari og gagnrýnni meðhöndlun, en hjá hinu íslenska Fjármálaeftirliti og Seðlabankanum. T.d. mokaði Seðlabankinn hundruðum milljóna í íslensku bankana fram á Hrundag og Fjármálaeftirlitið gerði í raun ekkert þó svo að alla vega allnokkrir bentu á hvert stefndi.

Með því að hafna tilmælum seðlabanka Hollands og breska fjármálaeftirlitsins komu forráðamenn Landsbankans beinlínis í veg fyrir að lágmarkstrygging innistæðueigenda hjá Icesave yrði borin af tryggingarsjóðum viðkomandi landa, en ekki íslenskum skattgreiðendum.

Með neyðarlögunum haustið 2008 áréttaði ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, að íslenska ríkið ábyrgðist allar innistæður í íslenskum bönkum og þ.m.t. lágmarkstryggingu í útibúum utan Íslands. Alþingi íslendinga samþykkti neyðarlögin og lagði þar með grunn þeirrar stöðu sem við búum við.

Í samningum við Bretana sem Árni M. þáv. fjárm.ráðh. samþykkti, þá ákvarðaði hann ábyrgð Íslands og lánaskilmála, sem voru reyndar mun verri en sú samningsniðurstaða, sem nú liggur fyrir Alþingi. Að baki undirskriftar Árna var ríkisstjórn með meirihluta á Alþingi. Það er í raun þessar athafnir sem binda okkur þá hnúta sem við búum við.

Áður en Hrunið skall á, lá það fyrir að norðurlöndin skilyrtu aðkomu AGS fyrir allri lánafyrirgreiðslu sína við Ísland. Eftir Hrunið var það einnig skilyrt, að Ísland stæði við lágmarkssparifjártrygginguna gagnvart Icesave. Fyrri skuldbindingar voru ítrekaðar með skuldbindingarskjali frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu frá 19.nóv.2008 sem eru undirskriftir Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og Árna Matthiesen, fjármálaráðherra.

Þetta er staðan sem við höfum setið í frá fyrri hluta árs 2008 og það vissu fyrrverandi stjórnarflokkar og núverandi stjórnarandstaða betur en allir aðrir. Ísland kæmist ekki undan því að takast á við þessar skuldbindingar. Ef Ísland gerði það ekki, hefðum við rofið gildandi milliríkjasamninga og féllum niður í ruslflokk og hefðum ekki aðgang að fjármagni til uppbyggingar nema þá á okurvöxtum.

Við stefnum í að verða Argentína Norðurlanda í boði framangreindra aðila. Skuldir ríkisins og stórfyrirtækja á vegum hins opinbera eins og Landsvirkjun, Landsnet, Orkuveitan eru það miklar að hvert prósent í hærri vöxtum skiptir hundruðum milljóna árlega í auknum vaxtakostnaði.

Hann er gríðarlegur skaðinn sem stjórnarandstaðan er búinn að valda með hátterni sínu. Ljótasta lýðskrum og ábyrgðarleysi sem sést hefur hér á landi.

En ef formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vilja takast í alvöru á við þennan vanda ættu þeir að skoða 249. gr.; „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

Um vinnumarkað

Sæll Guðmundur, langaði til þess að ónáða þig aðeins með fyrirspurn. Ég tók eftir í morgunkorni Greiningardeildar Glitnis á föstudag að vitnað var í könnun frá Hagstofu Íslands um samanburð á vinnumarkaðnum hér á landi og í ESB.

Þar kemur meðal annars fram að vinnutíminn sé enn lengri hér á landi en víðast annars staðar í ESB og eins og mikið hefur verið rætt um að atvinnuleysi sé lægra hér en víða annarsstaðar.

Er lengri vinnudagur hér til marks um verri lífsskilyrði ? eða er hann af hinu góða fyrir samfélagið í heild ? Svo er það atvinnuleysið, telur þú að atvinnuleysi hér á landi myndi aukast með inngöngu í ESB ?

Þú hefur verið óþreytandi við að fjalla um krónuna og ESB og langaði mig því þess að heyra frá þér.


Sæll
Ég hef oft í pistlum mínum vitnað í ummæli forsvarsmanna þeirra fyrirtækja sem hafa verið að taka til sín stærsta hluta þeirrar fjölgunar sem hefur verið á íslenskum vinnumarkaði. Þeim ber öllum saman um að rekstarskilyrði hér séu óviðunandi meðan krónan er notuð hér, vonlaust að gera áætlanir, vaxtakostnaður óviðunandi og erfitt að fá erlenda fjárfesta. Hér er ég að tala um forsvarsmenn Össur, CCP, Marel og fleiri hátæknifyrirtækja. Einnig má benda fyrirtækisem hafa alfarið flutt héðan.

Þeir hafa verið að flytja starfsemi úr landinu og eru með um 2.000 manns í vinnu annarsstaðar. Þeir segjast ekki sjá stækkunarmöguleika hér heima. Þeir hafa margoft sagt að það væri hægt að flytja heim öll þessi störf ef krónan væri ekki og við innan ESB. Mér finnst með ólíkindum hversu fréttamenn hafa í litlu sinnt þessum ummælum.

Ég hef einnig bent á þróunina í félagatali Rafiðnaðarsambandsins. Sambandið er 40 ára á þessu ári með tæplega rúmlega 5000 félagsmenn. Þeir voru liðlega 6.000 árið 2008.

Árið 1970 við stofnun RSÍ voru félagsmenn 480. Mjög fáir unnu í tæknifyrirtækjum eða um 50, nær allir í byggingariðnaði og orkugeiranum

Árið 1980 voru félagsmenn 900. Um helmingur vann í tæknifyrirtækjum

Árið 1990 voru félagsmenn 1.800. 800 unnu í tæknifyrirtækjum

Aldamótin 2000 voru félagsmenn 3.600. 2.000 unnu í tæknifyrirtækjum

Fyrri hluta ársins 2008 voru félagsmenn liðlega 6.000 1.000 unnu í störfum tengdum landbúnaði, fiskvinnslu og byggingariðnaði. Um 300 í orkugeiranum. Aðrir unnu í tækni- og þjónustugeiranum. Semsagt öll fjölgun starfa hefur verið hjá tæknifyrirtækjum. Ekki þeim starfsgreinum sem eiga að ráða för hér á landi.

Núna eru félagsmenn 5.000. 1.000 hafa flutt úr landi til starfa eða farið til frekara náms. Skipting starfa er svipuð, mest er þó fækkun í byggingariðnaði.

Í könnun sem gerð var fyrri hluta árs 2008 voru meðalheildarlaun íslenskra rafiðnaðarmanna svipuð og í Noregi og þá um leið þau hæstu sem voru á norðurlöndum, en meðalvinnutími okkar manna var 45 klst. á viku meðan hann var 40 klst. annarsstaðar á norðurlöndum. Föst laun okkar voru svipuð og í Danmörku nokkuð lægri en í Noregi hærri en í Svíþjóð og nokkuð hærri en í Finnlandi.

Í dag eru laun íslenskra rafiðnaðarmanna um það bil helmingi lægri en laun rafiðnaðarmanna í Noregi og eru kominn niður fyrir laun finnskra rafiðnaðarmanna, þrátt fyrir að þeir vinni lengri vinnuviku. Skuldir okkar manna hafa snaraukist og kaupmáttur fallið.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem við erum að ganga í gegnum svona sveiflu þó hún sé vitanlega mikið stærri núna en áður. Þar má minna á stóru niðursveifluna 1968 - 1972 og svo mikla fallið fyrir 1990, og svo um aldamótin. Alltaf hefur það verið leiðrétt af stjórnmálamönnum með því að fella krónuna og um leið eyðilagt kjarabaráttu launamanna og mikil eignatilfærsla frá almenning.

Ég hef starfað mikið í stjórnum norrænu og evrópskum samtökum byggingarmanna og eins í stjórnum norræna rafiðnaðarsambandsins og verið þar formaður í 6 ár. Ég tel að ef við ætlum ekki að missa fleiri störf úr landi þá sé einungis ein leið og það er að ganga í ESB.

Einnig er ég sannfærður um að ungt og menntað fólk mun ekki una því samfélagi sem hér verður boðið upp á, með lakari þjónustu hins opinbera og takmörkuðum störfum þar sem þjóðfélagið mun verða stýrt af mönnum sem setja fiskvinnslu og landbúnað fremstan og vilja getað ástundað stórkostlegar eignatilfærslur til fárra með aðstoð krónunnar.

Sama mun eiga sér stað í tæknifyrirtækjunum, þau munu ekki fá nægilega vel menntað fólk og þau vilja ekki starfa í umhverfi krónunnar og munu í enn frekari mæli flytja starsemi sína erlendis.

Ef ekki verður gengið í ESB og tekin upp alvöru gjaldmiðill þá munum við búa áfram við svipað ástand og er núna, með um 10 - 14% atvinnuleysi og Ísland verður áfram láglaunasvæði. Atvinnuleysi mun ekki aukast vegna þess að okkar stærsta útflutningsgrein verður ungt og vel menntað fólk sem flýr landið. Einnig mun fullorðið fólk flytja á eftir börnum sínum, þar sem þjónusta við fullorðið fólk er mun betri annarsstaðar á norðurlöndum og lífeyrir nýtist betur.

laugardagur, 3. júlí 2010

Krónan umgjörð efnahagslegra þrælabúða

Samanburður á verði matvæla eða annarri vöru í hinum ýmsu löndum og hjá okkur segir í raun ekkert. Hann er álíka marklaus ef rætt er um kauphækkanir einar út af fyrir sig. Það er kaupmáttur sem segir okkur til um árangur kjarabaráttu. Hversu langan tíma við þurfum að verja til þess að kaupa nauðþurftir, þak yfir fjölskylduna með rafmagni og hita, sem segir okkur til um raunverð matvæla.

Til að fá marktækan samanburð á verði milli landa er nauðsynlegt að hafa í huga kaupmátt íbúa þeirra landa sem verið er að bera saman. Samkvæmt evrópskri könnun, sem gerð var vorið 2009, á verði matvæla í ýmsum löndum Evrópu var verðlag matvæla fjórum prósentum hærra hér á landi en að meðaltali í ríkjum ESB. Um er að ræða mikla breytingu frá sambærilegri könnun sem gerð var árið 2006 en þá var verðlag hæst á Íslandi eða 61 prósenti hærra en að meðaltali í ESB. Skýringarnar á þessari breytingu er aðallega að finna í gengisfalli krónunnar en frá 1. apríl 2006 til 1. apríl 2010 hækkaði gengisvísitala krónunnar um 91 prósent sem þýðir að virði hverrar krónu fór nærri því að helmingast, sem segir okkur að hér er einungis um verðlækkun að ræða frá sjónarhóli útlendinga. Um leið hafa laun Íslendinga lækkað jafn mikið.

Á sama tímabili hefur kaupmáttur launa, dregist saman um 9,1 prósent. Auk þess hafa skattahækkanir valdið því að fólk hefur minna umleikis. Við verðum að verja meiri tíma til þess að geta keypt daglegar nauðsynjar og matvælaverðið á Íslandi verður hátt til lengdar. Ef við göngum í ESB mun matarverð á Íslandi lækka svo um munar, í það minnsta í þeim vöruflokkum þar sem höftin og tollarnir eru mestir. Ellegar væru sérhagsmunahópar á borð við Bændasamtök Íslands ekki á móti því að leyfa tollfrjálsan innflutning matvæla.

Algengt viðkvæði þeirra stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótaeigenda og bænda er að verja krónuna með því að halda því fram að lönd innan ESB eigi við efnahagsvandamál að etja. Staðreyndin er sú að okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins. Í þeim löndum sem þeir benda á er almenningur ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem Alþingi þarf að glíma við. Ísland er rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar.

Ef þjóð býr við stöðuglan gjaldmiðil verður rekstur fyrirtækja og hins opinbera reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Þetta blasir við okkur ef við lítum t.d. til Danmerkur, og það er vegna þessa að þjóðir leita inn í ESB og til að tryggja fullveldi sitt. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar. Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Hvergi á norðurlöndunum eða í vestan-verðri Evrópu hefur kaupmáttur fallið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar.

Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum. Við viljum losna undan þeim viðjum sem þessi valdaklíka heldur okkur í og fá efnahagslegt frelsi takk fyrir.

föstudagur, 2. júlí 2010

Krónan ástmögur valdastéttarinnar

Staða krónunnar er allt of lág. Með því að halda krónunni svona lágri er verið að skapa nýjan heimatilbúinn og gríðarlegan vanda, í formi aukinna skulda upp á þúsundir milljarða. Það veldur mikilli eignarýrnun, greiðsluþroti og gjaldþrotum. Núverandi upplýsingar benda til dæmis til þess að eignarýrnun í bankakerfinu frá því fyrir hrun sé um 4.200 ma.kr. eða um 280% af VLF. Á þennan mælikvarða er hrunið á Íslandi fimm sinnum stærra en næststærsta hrun allra tíma (Indónesía, 1998).

Þeir aðilar sem halda því fram að það sé fínt að láta gengið falla til að vinna sig út úr vandanum eru einungis að horfa á rekstrareikning þjóðarinnar, ávinningurinn kemur þá í hlut fárra útvalda (skuldlausra), en ekki er horft á afleiðingar þess á efnahagsreikning þjóðarinnar, og skuldir hækka um tæpa gríðarlega.

Sveigjanleikinn sem fylgir því að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil - og nýtist svo vel þegar allt er komið í óefni - er dýru verði keyptur og það er almenningur sem borgar þann brúsa. T.d. með því að borga þegar upp er staðið 4 - 5 sinnum meira en t.d. Danir og Svíar fyrir þakið sem hann byggir yfir sig og sína.

Sveigjanleikinn kostar okkur himinháa vexti. Frá árinu 1995 og til ársloka 2007 var vaxtamunur við útlönd að meðaltali um 5%. Gengi krónunnar var nánast hið sama í lok þessa tímabils og það var í upphafi. Lántökukostnaður í krónum var því að meðaltali um 5% á ári hærri en í viðskiptaveginni myntkörfu á þessu 12 ára tímabili. Við erum að borga 3 - 4 sinnum meira fyrir þakið sem við kaupum yfir fjölskylduna, það er vegna þess að við erum með krónuna. Ef við ætlum að losna við verðtrygginguna, verðum við að byrja á því að losa okkur við krónuna.

Þessi vandi er miklu mun stærri og alvarlegri en sá ávinningur, sem kemur fram á rekstrarhlið fárra. Því til viðbótar er það ekki heldur ávinningur fyrir öll venjuleg fyrirtæki m.a. í útflutningi - að hafa svona lágt gengi þó ávinningurinn sé einhver á rekstrarhlið. Gengisfallið skapar miklu mun meiri vanda fyrir venjuleg fyrirtæki á efnahagshliðinni - þar sem aukning erl. skulda þurrkar út allt eigin fé og setur viðkomandi einingu í greiðslu stopp eða mikinn vanda.

Gengisfallið er því ekki að hjálpa neinum - nema kannski skuldlausum aðilum í útflutningi. Á meðan allir aðrir tapa, og yfir standa stórkostlegustu eignatilfærslur Íslandssögunar. Í þessu sambandi skal haft í huga, að svona mikið gengisfall er ekki til komið af eðlilegum viðskipta- og efnahagsástæðum. Þar er um að kenna kerfishruni krónunnar og allri umgjörð hennar.

Endurreisn á gengi verður því viðkomið með hefðbundnum aðferðum, þær eru ekki lengur fyrir hendi á Íslandi. Þessu veldur breytt í umgjörð krónunnar; hrunið bankakerfi, traust á fjármálamörkuðum, lánshæfnismat Íslands með lokuðum aðgang að erl. bankakerfi og getuleysi Seðlabankans okkar sem lánveitanda til þrautavara, o.fl. o.fl.- sem gerir það að verkum að ekki er hægt að ná genginu til baka með hefðbundnum aðferðum. Þær gagnast ekki nema að takmörkuðu leiti.

Kerfisáhætta krónunnar jókst við fall bankanna. Samningar við ESB og aðstoð Seðlabanka Evrópu er okkur lífnauðsyn, eins og ég hef komið nokkrum sinnum að, með fastgengi þar til evra verður tekin upp eins fljótt og mögulegt er - í samstafi við Seðlabanka Evrópu - byggt á langtíma jafnvægisgegni (gengisvísitölu 135 -140).

Jón Steinsson lektor í hagfræði við Columbia háskóla í New York segir : „Sjálfstæð peningamálastjórn okkar Íslendinga veldur því að krónan lækkar í verði þegar kreppir að. Þetta hjálpar íslenskri framleiðslu þegar allt er í rugli. En þessi hegðun krónunnar gerir það einnig að verkum að krónueignir eru sérstaklega óaðlaðandi fyrir fjárfesta.

Með öðrum orðum, sveigjanleiki krónunnar fælir fjármagn frá Íslandi. Íslenska krónan hækkar því fjármagnskostnað íslenskra fyrirtækja að staðaldri. Yfir tímabilið 1995 til 2007 var þetta krónuálag 5% á ári að meðaltali.

Lykilspurningin þegar kemur að því að velja á milli þess að halda krónunni til frambúðar eða að taka í staðinn upp aðra mynt er því: Er möguleikinn á því að geta fellt gengið í niðursveiflu nægilega mikils virði til þess að hann réttlæti það að íslenskt atvinnulíf þurfi að búa við 5% hærri fjármagnskostnað en samkeppnisaðilar í öðrum löndum ár eftir ár?

Margir kvarta sáran yfir okurvöxtum og vísitölutengingu lána á Íslandi. En sömu aðilar eru oft svarnir andstæðingar þess að krónunni sé kastað og annar gjaldmiðill tekinn upp í staðinn. Þessir aðilar vilja borða kökuna og eiga hana. Í rauninni er eini raunhæfi möguleikinn til þess að losna við okurvexti og vísitölutengingu lána að við köstum krónunni. En þá mættum við heldur ekki lengur koma okkur í ógöngur með reglulegu millibili því gengisfelling yrði ekki lengur möguleiki í stöðunni.“