Vegna þeirrar umræðu sem fram fer þessa dagana langar mig til þess að endurbirta pistil sem ég skrifaði í nóv. 2007, það var á tímum REI hans Guðlaugs Þórs og þegar klækjapólitíkin var við völd í Reykjavíkurborg.
Þegar frjálshyggjan náði taki á stjórnmálamönnum sem voru við völd hér á landi gleymdu þeir sér í einhverri gróðafíkn og vildu vera miklir kallar sem spiluðu á alþjóðamarkaði með peninga, réttara sagt eignir sem við almenningurinn í þessu landi eigum. Þetta sáum við svo vel þegar í fjárfestingafyrirtækjum sem þáverandi ráðamenn stofnuðu í kringum orkuveitufyrirtækin.
Flestir íslendingarnir sem ekki hafa velt því fyrir sér hvort orkuframleiðendur eigi að greiða eitthvert gjald fyrir vatnið eða gufuna sem renna í gegnum virkjanirnar, vegna þess að þetta hafa verið fyrirtæki í eigi almennings. En þegar stjórnmálamenn sukku til botns í spilafíkninni og vildu einkavæða orkufyrirtækin, þá staldrar maður við og situr örlítið lengur með kaffibollan við morgunverðarborðið og spyr sjálfan sig; Er það möguleiki að skyndilega sitjum við íslendingar uppi með það að einhver einstaklingur hafi eignast öll vatnsréttindi í Þjórsá, gufuaflsréttindin á Reykjanesi, Langasjóinn eða öll orkuréttindi á Torfajökulssvæðinu?
Er aðferðafræðin við kostnaðarútreikninga við framkvæmd virkjana rétt? Eru stjórnmálamenn að leiða okkur í samskonar vegferð með orkuréttindin og fiskinn í sjónum? Er skilið nægjanlega vel á milli verðmats á réttindum og kostnaðar við virkjanir?
Ein af ástæðunum fyrir mikilli raforkueftirspurn til álframleiðslu hér á landi síðustu ár er, sé litið til þess sem fram kom fyrir nokkru um orkuverð til ALCOA í Suður-Ameríku, að virkjanaréttindin hafi ekki verið réttilega metin til fjár. Vatnsréttindin eru ekki í raforkuverðinu hér á landi. Ríkið á mikil vatnsréttindi t.d. í Þjórsár, sem eru auk þess mun verðmætari vegna þess að íslenska þjóðin er búinn að byggja vatnsmiðlanir ofar í ánni fyrir milljarða og setja undir það umtalsvert land. Þetta er veigamikill þáttur í að koma umræðu um nýtingu og náttúruvernd inn á málefnalegar brautir.
Víða erlendis er búið að einkavæða og selja almenningsveitur. Þeir sem eignuðust fyrirtækin lokuðu viðhaldsdeildum, sögðu upp starfsfólki og stoppuðu viðhald og uppbyggingu. Með því náðu þeir að sýna glæsilega afkomu á ársfundum og hlutabréfin ruku upp. Nú er að koma upp að viðhald og endurnýjun hefur verið trössuð í mörg ár og fyrir liggur að fjárfesta þurfi fyrir umtalsverðar upphæðir til að tryggja vatn og frárennslislangir og rafmagn. Það er ekki hægt nema hækka afnotagjöld umtalsvert segja núverandi eigendur. Annað hvort verður almenningur að kaupa þessi fyrirtæki tilbaka eða sætta sig við verulega aukna skattlagningu í formi hækkaðar afnotagjalda.
Það verður virkjað meira á Íslandi en þegar hefur verið gert. Þegar við lendum í niðursveiflunni og fáum yfir okkur atvinnuleysi, eins og ætíð hefur gerst eftir nokkurra ára uppsveiflu, þá verður þess krafist að það verði virkjað. Virkjanir í neðri hluta Þjórsár voru flokkaðar í vandaðri forvinnu þeirra sem unnu að Rammaáætlun sem fyrstu valkostir. Þá voru ekki gerðar neinar athugasemdir. Ef þessar virkjanir verða ekki reistar þá þarf að reisa einhverjar aðrar, það liggur í hlutarins eðli.
Að lokum væri það bara ekki eðlilegast að orkuveitufyrirtækin okkar snúi sér alfarið að því að framleiða og afhenda okkur eigendunum ódýra og hreina orku á góðu verði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli