mánudagur, 5. júlí 2010

Eru víglínur að skýrast?

Ef reisa á Ísland upp úr rústunum þá verður það ekki gert með skammtíma aðgerðum, hinum venjubundnu íslensku „þetta reddast leiðum“ eins og harðlínukjarnar Sjálfstæðisflokks og VG vilja. Fólk er búið að fá sig margfullsatt af hinum endurteknu sveiflum íslensku krónunnar og agalausri efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem oft einkennast frekar af verndun hagsmuna fárra og kjördæma poti en heildaryfirsýn.

Það voru mikil mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að halda ekki áfram á þeirri leið sem mörkuð var með inngöngu í EES með frekari tengslum við evrópska efnahagsstjórn. Um aldamótin síðustu lá fyrir að uppbygging íslensks atvinnulífs var ekki afmörkuð við Ísland og taka yrði á gjaldmiðilsmálum. Krónan hefur valdið kerfishruni og eignaupptöku. Vextir eru óheyrilegir og þar af leiðandi verðlag. Kaupmáttur hefur fallið og það þarf mikið að gerast til þess að hægt verði að endurvinna þá stöðu sem búið var að ná.

Það sem gerðist eftir 2003 var að mestu innistæðulaus bóla, sem ríkjandi stjórnvöld vildu ekki horfast í augu við. Þeir sem voguðu sér að benda á þetta voru hæddir og lýst sem púkó og neikvæðum. Fáir sem vildu vera í þeirri stöðu, allra síst ríkjandi stjórnmálamenn. Þeir vildu að allir væru vissir um að þeir hefðu skapað hið Íslenska efnahagsundur.

Hið íslenska efnahagsundur með einkavæðingu bankanna sem grunn varð þjóðinni dýrkeypt. Arkitektarnir eru enn að sitja á Hádegismóum og halda úti Bloggsíðum þar sem þyrlað er upp moldviðri til þess að villa fólki sýn. Þessum mönnum tókst á nokkrum árum að gera Ísland að skuldugasta landi Evrópu. Sparifé landsmanns gufaði upp, skuldir ókleifur múr, laun hafa hrapað og kaupmáttur færður 10 ár aftur í tímann.

Undir stjórnleysi og eftirlitsleysi þessra manna vorum við gerð ábyrgð fyrir glórulausu fjárplógsdæmi þar sem sparifé Hollendinga og Breta var dregið inn í óseðjandi hítina. Þeir sendu inn á heimili landsmanna menn á prémíum og bónusum til þess að fá fólk til þess að taka ólögleg lán, sem settu svo tugþúsunda heimila á hliðina.

Það er ríkið sem brást undir stjórn þessara manna. Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings, þar á bæ var ekki tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu. Það eru stjórnvöld sem setja lögin og þau lögðu til hliðar samkennd og jöfnuð og létu markaðshyggjuna ráða för. Með því hafa þau ákveðið að viðhalda því ástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans og þá um leið að verðtrygging verði hér áfram.

Eru víglínur að skýrast? Eru flokkarnir að riðlast? Er ritstjóranum og hans fólki að takast að splundra fjórflokknum?

1 ummæli:

Hólmfríður Bjarnadóttir sagði...

Eins og alltaf þegar þú fjallar um þessi mál Guðmundur, er ég sammála þér. Mínum skoðunum verður ekki betur lýst og þess vegna hef ég oft sett texta frá þér (vandlega merktan að sjálfsögðu) inn á bloggið mitt. Hafðu þökk fyrir fyrir skrifin.