föstudagur, 23. júlí 2010

Hin fársjúka umræðulist

Ég hef margoft komið að því hversu fársjúk umræðulistin sé hér á landi og þá borið hana saman við það sem ég þekki til á hinum norðurlandanna þar sem ég hef verið við nám og störf.

Hér nota menn hiklaust þá lágkúru sem kölluð er að fara í manninn ekki boltann, til þess að komast hjá því að ræða það sem til umræðu er og víkja sér undan því að þurfa að færa málefnaleg rök fyrir sínu máli. Svo einkennilegt sem það nú er þá nær þetta hiklaust inn í suma spjallþætti og fréttatengda þætti

Ég hef oft vitnað til þessa í ESB umræðunni, en ætla núna að benda á þá meðferð sem dóttir mín fær þessa dagana og fékk reyndar einnig þegar hún tók sig til fyrir tveim árum og varði umtalsverðum fjármunum og tíma til þess að fá hingað til lands þekktustu umhverfisinna heimsins og þá sem höfðu náð langt í hinu svokallaða græna hagkerfi.

Þegar ég tók þá til varnar viku sumir sér að mér á förnum vegi og öskruðu, „Þú þarna sem ert pabbi þessarar ríku ofdekruðu frekju.“ Þeir sem þekkja Björk vita að þessi lýsing er fjarri öllu lagi. Hún hefur verið besta auglýsing fyrir Ísland og nýtt öll tækifæri sem henni hafa boðist til þess að koma landinu og náttúru þess á framfæri.

Hún var ótrúleg lágkúran sem birtis í mynd Halldórs í Fréttablaðinu í gær. Þeir sem eru ósammála Björk í Magma-málinu hafi sumir hverjir gripið til ráðs sem alþekkt er í rökræðulist, eða öllu heldur til að koma sér undan rökræðu. Það elsta í bókinni og sem svo margir komast upp með hér á landi, gengur út á að sverta sendiboðann og reyna þannig að beina umræðunni að einstaklingnum og framhjá málinu sjálfu.

Hvað er hún Björk að vilja uppá dekk, hún sem borgar ekki alla sína skatta á Íslandi? „Hvers vegna er Björk að fara fram á að Magma borgi skatta á Íslandi ef hún gerir það ekki sjálf?“ Eins og skrifað uppúr Morfísbókinni.

Krafan um að Magma greiði skatta af hagnaði á HS Orku er sjálfsögð og rökrétt. En það er margt annað er aðfinnsluvert við kaupin. Magma á að fá einkaafnot af takmarkaðri náttúruauðlind og því frumskilyrði að skattar og gjöld af þeirri starfsemi verði greidd á Íslandi.

En að líkja því saman við það hvar Björk borgar skatta af erlendri starfsemi sinni er fullkomlega út í hött. Starfsemi Bjarkar fer fram að mestu leiti erlendis og hún hefur nær allar tekjur sínar erlendis. Hún er ekki að nýta takmarkaða náttúruauðlind í eigu almennings og er ekki á sama stað hvað það varðar og Magma eða kvótagreifar og landeigendur.

Björk þarf vitanlega að greiða skatta á þeim stað sem við á hverju sinni og borgar skatta hér. Hún leggur í talsverðan aukakostnað við að flytja hingað tæknifólk sér til aðstoðar til þess að vera með sem mest af sinni starfsemi hér heima.

Við krefjumst réttilega af erlendum fyrirtækjum sem hér starfa að þau greiði skatta af sinni starfsemi hér og höfum einnig krafist þess að starfsmenn þeirra geri það líka og reyndar fengið á baukinn fyrir að ganga of langt í þeim efnum .

En þessi málflutningur nær inn í fjölmiðla og í spjallþættina. Ég ætla ekki að ræða aths.runur bloggheima, þær eru margar hverjar svo víðáttu vitlausar og ómerkilegar. En þessi umræðulist virkar hér á landi þó svo annarsstaðar t.d. á hinum norðurlandanna væri tekið á þessu af spjallþáttstjórnendum og vönduðum fjölmiðlamönnum.

Hér á landi er þessu tekið athugasemdalaust upp, enda svínvirkar þetta hér í landi hinnar löskuðu umræðulistar og okkur miðar ekkert. Svo langt er gengið að þessi umræðulist hefur verið tekinn upp í heimum stjórnmálamanna og er einkennandi á Alþingi íslendinga.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Björk er glæsilegur fulltrúi Íslendinga og mikill snillingur.

En ágæti Guðmundur, þykir þér sæma að veitast að MORFÍS, keppni sem ungt fólk heldur til að þjálfa sig í ræðumennsku og framsögn?

Mér þykir það til marks um þjóðfélagsumræðuna hér að menn skuli hafa það helst fram að færa að veitast að menntaskólanemum og skemmtunum þeirra!

Þetta er furðulegur málflutningur og ekki sæmandi. Rétt er að gagnrýna þá stjórnmálamenn sem eiga gagnrýni skilið fyrir ómerkilegan málflutning, lygar og hentistefnu.

En skítkast í garð MORFÍS og menntaskólanema er ekki sæmandi.

MORFÍS er á mun hærra plani en pólitísk umræða á Íslandi.

Beinum nú athyglinni þangað sem hennar er þörf og hættum að dissa ungt fólk á Islandi, skemmtanir þess og uppbyggilegar keppnir.

Nafnlaus sagði...

Þetta er allt rétt hjá þér, Guðmundur.
Vitræn þjóðfélagsleg umræða - byggð á rökum, yfirvegun og samhengi - hefur vikið fyrir upphrópunum og ósmekklegum árásum á þá sem setja fram skoðanir í stað þess að byggja andstöðu við skoðanir viðkomandi á rökum.
Of margir bloggarar eru eins og "naut í flagi" og kalla "háa sem lága" fasista í öðru hverju orði en forðast að byggja mál sitt á rökum og yfirvegun.
Þetta þarf að breytast og mættu margir t.d. taka þá Þorvald Gylfason og Styrmi Gunnarsson til fyrirmyndar um framsetningu á skoðunum.
Ég nefni þá tvo vegna þess að þótt þeir séu ósammála um nánast allt þá setja þeir fram skoðanir sínar og rök á yfirvegaðan og málefnalegan hátt.

Nafnlaus sagði...

Heyr Heyr
Halla

Nafnlaus sagði...

Í þessu sambandi má einnig benda á hvernig ráðist er að þeim sem bendir á atriði til umhugsunar, þá er veist er að honum fyrir að það séu skoðanir hans. Þetta sér maður oft hér í aths.dálkum þar sem menn ráðast að Guðmundi fyrir það eitt að draga fram atriði í umræðuna
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Hárréttar ábendingar - það er okkur til háborinnar skammar og háðungar hvernig landar okkar koma fram við Björk
Kristinn

Nafnlaus sagði...

Þetta samfélag hryggir mig og er í engum takt við það náttúrulega umhverfi sem við erum sprottin úr .... sorglegt

Xxxxx
Tóta

Nafnlaus sagði...

Ég skildi aldrei þessa umræðu. Ef Björk greiðir ekki skatta á Íslandi þá hefur hún ekki rétt á ð hafa skoðun á umhverfismálum á hér á landi. Fáránlegt
Sigurður

Nafnlaus sagði...

Þú tókst af mér ómakið Sigurður því ég ætlaði að fara að brydda upp á þessu.Samkvæmt þessu þá er ekki sama hvar maður vinnur.
Þórir

Nafnlaus sagði...

Þetta er svo víðáttuvitlaust að það hálfa væri nóg. Það væri alveg eins hægt að segja „Hvern djöfulinn vill Eva Joly upp á dekk þegar hún borgar ekki skatta hér.“

Maður fær á tilfinninguna að það fólk sem heldur svona fram sé ekki beittasti hnífurinn í skúffunni.

Mér hefur nú virst í gegnum tíðina að Björk hafi gert meira fyrir þessa þjóð en þjóðin fyrir hana.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Það nýjasta í þessum efnum er framlag Eyglóar Þ. Harðardóttur, þingkonu Framsóknarflokksins þ.e. hvernig hún "ræðst að" Arnfríði, dómara í Héraðsdómi eftir að sú síðarnefnda kvað upp úrskurð sinn í dag í "Lýsingarmálinu."
Það er auðvitað til háborinnar skammar að alþingismaður skuli láta slíkt á prent sem hún gerir á bloggi sínu um dómarann. Ömurlegt að lesa.