sunnudagur, 4. júlí 2010

Icesave upprifjun

Fjármálaráðherra segir erfitt að fá Hollendinga og Breta að samningaborðinu til þess að ræða Icesave. Konungar lýðskrumsins með forsetan sem klappstýru, héldu því fram að með stóru feitu Nei myndum við komast í úrvalssamningstöðu. Bretar og Hollendingar óttuðust Neiið. Staðreyndin er önnur. Menn vilja ekki ræða við íslendinga. Það er tilgangslaust því þeir fara ekki eftir samningum nema þeim henti, heyrir maður sagt um okkur á fundum og ráðstefnum á Norðurlöndunum. Það er búið að semja þrisvar við íslensk stjórnvöld, en þau vildu svo ekki standa við þá samninga. Tap íslendinga vegna þessa er gríðarlegt og nálgast eina ársframleiðslu.

En rifjum aðeins upp málavexti. Ef forráðamenn Landsbankans hefðu ákveðið að reka bankastarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í þarlendum dótturfyrirtækjum, en ekki sem útibú frá Landsbankanum, þá lægi reikningur vegna Icesave til íslenskra skattgreiðenda ekki fyrir á Alþingi Íslendinga.

Þeir sem með þessum hætti framvísuðu vísvitandi Icesave á hendur þjóðarinnar eru : Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar; og Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson formaður bankaráðs og fyrrv.framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins.

Það voru þessir menn sem ákváðu að yfirbjóða innlánsvexti keppinauta í samkeppni um innlán sparifjáreigenda í þessum löndum. Bankinn var undir þeirra stjórn sokkinn í skuldir og þeir börðust við að koma í veg fyrir hrun hans og sóttust eftir erlendu fjármagni.

Skv. skýrslu hollenskra lagaprófessora til hollenska þingsins, var því hafnað ítrekað af hálfu Landsbankanum, að færa Icesave-netbankana frá aðalbankanum í útibú í Hollandi og Bretlandi, undir eftirliti og sparifjártryggingu þarlendra yfirvalda.

Það má færa fyrir því rök að meginástæða þessa hafi verið, að forsvarsmönnum Landsbankans hafi verið ljóst að þar fengi bankinn allt aðra og mun harðari og gagnrýnni meðhöndlun, en hjá hinu íslenska Fjármálaeftirliti og Seðlabankanum. T.d. mokaði Seðlabankinn hundruðum milljóna í íslensku bankana fram á Hrundag og Fjármálaeftirlitið gerði í raun ekkert þó svo að alla vega allnokkrir bentu á hvert stefndi.

Með því að hafna tilmælum seðlabanka Hollands og breska fjármálaeftirlitsins komu forráðamenn Landsbankans beinlínis í veg fyrir að lágmarkstrygging innistæðueigenda hjá Icesave yrði borin af tryggingarsjóðum viðkomandi landa, en ekki íslenskum skattgreiðendum.

Með neyðarlögunum haustið 2008 áréttaði ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, að íslenska ríkið ábyrgðist allar innistæður í íslenskum bönkum og þ.m.t. lágmarkstryggingu í útibúum utan Íslands. Alþingi íslendinga samþykkti neyðarlögin og lagði þar með grunn þeirrar stöðu sem við búum við.

Í samningum við Bretana sem Árni M. þáv. fjárm.ráðh. samþykkti, þá ákvarðaði hann ábyrgð Íslands og lánaskilmála, sem voru reyndar mun verri en sú samningsniðurstaða, sem nú liggur fyrir Alþingi. Að baki undirskriftar Árna var ríkisstjórn með meirihluta á Alþingi. Það er í raun þessar athafnir sem binda okkur þá hnúta sem við búum við.

Áður en Hrunið skall á, lá það fyrir að norðurlöndin skilyrtu aðkomu AGS fyrir allri lánafyrirgreiðslu sína við Ísland. Eftir Hrunið var það einnig skilyrt, að Ísland stæði við lágmarkssparifjártrygginguna gagnvart Icesave. Fyrri skuldbindingar voru ítrekaðar með skuldbindingarskjali frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu frá 19.nóv.2008 sem eru undirskriftir Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og Árna Matthiesen, fjármálaráðherra.

Þetta er staðan sem við höfum setið í frá fyrri hluta árs 2008 og það vissu fyrrverandi stjórnarflokkar og núverandi stjórnarandstaða betur en allir aðrir. Ísland kæmist ekki undan því að takast á við þessar skuldbindingar. Ef Ísland gerði það ekki, hefðum við rofið gildandi milliríkjasamninga og féllum niður í ruslflokk og hefðum ekki aðgang að fjármagni til uppbyggingar nema þá á okurvöxtum.

Við stefnum í að verða Argentína Norðurlanda í boði framangreindra aðila. Skuldir ríkisins og stórfyrirtækja á vegum hins opinbera eins og Landsvirkjun, Landsnet, Orkuveitan eru það miklar að hvert prósent í hærri vöxtum skiptir hundruðum milljóna árlega í auknum vaxtakostnaði.

Hann er gríðarlegur skaðinn sem stjórnarandstaðan er búinn að valda með hátterni sínu. Ljótasta lýðskrum og ábyrgðarleysi sem sést hefur hér á landi.

En ef formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vilja takast í alvöru á við þennan vanda ættu þeir að skoða 249. gr.; „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur!

Það var átakanlegt - svo ekki sé meira sagt - að fylgjast með Kjartani Gunnarssyni taka á fullan þátt í umræðum Icesave, þegar kom að umfjöllun um pólitíska ályktun Sjálfstæðisflokksins á nýliðnum landsfundi flokksins.

Þessir menn hafa ekkert lært.

Með góðri kveðju,

Guðbjörn Guðbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Icesave var og er ekki pólitískt úrlausnarmál. Það er glæpamál. Tregða stjórnarflokkanna við að sækja málið af hörku sýnir samsekt þeirra.

Vilhjalmur Jesus Arnason sagði...

Þetta er fínn pistill.

En þýðir það að almenningi sé skylt að bera þessar byrgðar ?

Ég er ekki svo viss um það enda gera lög ráð fyrir því að skuldbyndingar séu háðar samþykki Alþingis og eða almennings.

Ef almenningur vill ekki borga þessar skuldir þá hefur hann það val.

Þú mátt tala um lýðskrum og æsingamenn.

En það er engannveginn sjálfgefið að þó að misvitri stjórnmálamenn skrifi upp á hitt og þetta að almenningur segji já og Amen.

Og í þessi tilfelli er og voru greiðslur miðaðar við hagvöxt lending sem Bretar og Hollendingar hefðu átt að taka.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.
Smáathugasemd við annars góða færslu.
Það sem hefur lítið verið hampað er að með Brussel samkomulaginu 14 nóvember 2008 hafi náðst nýr grundvöllur til lausnar deilunnar sem ýtti hinu illræmda minnisblaði Árna Matt út af borðinu.

Steingrímur, Svavar og Indriði kusu hinsvegar að hunsa algerlega Brussel samkomulagið og þann samningsgrunn sem var kominn og ráðast í samningaviðræður á eigin forsendum, með þeim árangri sem nú er þekktur. Þessi einstefna þeirra fóstbræðra er líklega eitt versta klúðrið í öllu þessu ógæfuferli samninganna.
Jóhann

Nafnlaus sagði...

Allar þessar lagaflækjur í kringum Icesave og bankatryggingar virka þannig á mig að það sé verið að fela eitthvað. Ég er ekki löglærður en getur það staðist að almennir borgarar séu ábyrgir fyrir skuldum banka. Þá á ég ekki bara við okkur íslendinga heldur einnig Breta, Hollendinga og aðra íbúa þessarar jarðar. Ég vildi láta reyna það fyrir Mannréttinda dómstól hvort stjórnvöldum sé stætt á því að skuldsetja þegna sína með þessum hætti.
Ólafur Bjarni

Nafnlaus sagði...

er ekki best að kenna Svavar og Indriða um Icesave.

Nafnlaus sagði...

Þetta er góður og sannur pistill og staðan versnar og versnar fyrir ísland með hverjum mánuðnum sem líður. Indefens og forsetinn eru ekkert annað en landráðafólk.

Nafnlaus sagði...

Vel skrifuð grein Guðmundur og rökvís. Ég skil vel þá sem segja að ekki megi gera almenna borgara ábyrga fyrir skuldum einakabanka. En málið er bara ekki svona einfalt. Engum banka, prívat eða óprívat, getur leyfst að stela sparifé fólks með blessun stjórnvalda.

Haukur Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Af hverju eiga stjórnvöld að tryggja innistæður í bönkum? Önnur verðmæti sem fólk á og vill tryggja er tryggt hjá tryggingafélögum. Það er miklu eðlilegra fyrirkomulag að tryggingafélög sjái um þetta. Ég er nokkuð viss um að tryggingafélög myndu þá vakta bankana betur en Fjármálaeftirlitið enda er þeirra hagur að bankarnir séu vel reknir. Þeir sem eiga enga eða litla peninga í bönkum eru þá ekki að borga með skattpeningum sínum fyrir þá sem eiga peninga á innlánsreikningum.
Ólafur Bjarni