laugardagur, 3. júlí 2010

Krónan umgjörð efnahagslegra þrælabúða

Samanburður á verði matvæla eða annarri vöru í hinum ýmsu löndum og hjá okkur segir í raun ekkert. Hann er álíka marklaus ef rætt er um kauphækkanir einar út af fyrir sig. Það er kaupmáttur sem segir okkur til um árangur kjarabaráttu. Hversu langan tíma við þurfum að verja til þess að kaupa nauðþurftir, þak yfir fjölskylduna með rafmagni og hita, sem segir okkur til um raunverð matvæla.

Til að fá marktækan samanburð á verði milli landa er nauðsynlegt að hafa í huga kaupmátt íbúa þeirra landa sem verið er að bera saman. Samkvæmt evrópskri könnun, sem gerð var vorið 2009, á verði matvæla í ýmsum löndum Evrópu var verðlag matvæla fjórum prósentum hærra hér á landi en að meðaltali í ríkjum ESB. Um er að ræða mikla breytingu frá sambærilegri könnun sem gerð var árið 2006 en þá var verðlag hæst á Íslandi eða 61 prósenti hærra en að meðaltali í ESB. Skýringarnar á þessari breytingu er aðallega að finna í gengisfalli krónunnar en frá 1. apríl 2006 til 1. apríl 2010 hækkaði gengisvísitala krónunnar um 91 prósent sem þýðir að virði hverrar krónu fór nærri því að helmingast, sem segir okkur að hér er einungis um verðlækkun að ræða frá sjónarhóli útlendinga. Um leið hafa laun Íslendinga lækkað jafn mikið.

Á sama tímabili hefur kaupmáttur launa, dregist saman um 9,1 prósent. Auk þess hafa skattahækkanir valdið því að fólk hefur minna umleikis. Við verðum að verja meiri tíma til þess að geta keypt daglegar nauðsynjar og matvælaverðið á Íslandi verður hátt til lengdar. Ef við göngum í ESB mun matarverð á Íslandi lækka svo um munar, í það minnsta í þeim vöruflokkum þar sem höftin og tollarnir eru mestir. Ellegar væru sérhagsmunahópar á borð við Bændasamtök Íslands ekki á móti því að leyfa tollfrjálsan innflutning matvæla.

Algengt viðkvæði þeirra stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótaeigenda og bænda er að verja krónuna með því að halda því fram að lönd innan ESB eigi við efnahagsvandamál að etja. Staðreyndin er sú að okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins. Í þeim löndum sem þeir benda á er almenningur ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem Alþingi þarf að glíma við. Ísland er rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar.

Ef þjóð býr við stöðuglan gjaldmiðil verður rekstur fyrirtækja og hins opinbera reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Þetta blasir við okkur ef við lítum t.d. til Danmerkur, og það er vegna þessa að þjóðir leita inn í ESB og til að tryggja fullveldi sitt. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar. Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Hvergi á norðurlöndunum eða í vestan-verðri Evrópu hefur kaupmáttur fallið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar.

Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum. Við viljum losna undan þeim viðjum sem þessi valdaklíka heldur okkur í og fá efnahagslegt frelsi takk fyrir.

4 ummæli:

Sjálfstæðismaður sagði...

Velkominn í flokkinn.

Jónína Óskarsdóttir sagði...

Sammála! Ég vil gjarnan losna úr þessum efnahagslegu þrælabúðum þar sem líf okkar láglaunaþega gengur út á að reyna á vonlausan hátt að ná endum saman. Við sem erum fædd upp úr miðri síðustu öld þekkjum ekkert annað en sífellda óstjórn í fjármálum þjóðarinnar.

Nafnlaus sagði...

er þetta svona gott marg sýnist sínum.Krónann er vont en hvað er að gerast í kringum okkur Guðmundur Þjóðverja vilja taka upp Mark og flest ríkinn inna ESB vilja taka upp sínn eldri gjaldmiðil.
Væri ekki nær að þú og þínir menn innan ASÍ tækið ykkur til færið að vinna fyrir félaga ykkar.
Ég mann eftir fundi með ykkur ASÍ þar þurfti að skifta um ríkisstjórn seðlabankastjóra og sækja um aðild að ESB allt komið í framkvæmt og sumt búið og ekkert gerst fyrir okkur í heimilin.

Guðmundur Hörður sagði...

Hafðu þökk fyrir að halda uppi umræðu um kosti ESB aðildar. Það mættu fleiri gera, ekki síst þeir stjórnmálamenn sem vilja ganga þangað inn. Þeir eru furðu latir við að halda þessu sjónarmiði á lofti. Og á meðan minnkar stuðningurinn við aðild.