sunnudagur, 4. júlí 2010

Um vinnumarkað

Sæll Guðmundur, langaði til þess að ónáða þig aðeins með fyrirspurn. Ég tók eftir í morgunkorni Greiningardeildar Glitnis á föstudag að vitnað var í könnun frá Hagstofu Íslands um samanburð á vinnumarkaðnum hér á landi og í ESB.

Þar kemur meðal annars fram að vinnutíminn sé enn lengri hér á landi en víðast annars staðar í ESB og eins og mikið hefur verið rætt um að atvinnuleysi sé lægra hér en víða annarsstaðar.

Er lengri vinnudagur hér til marks um verri lífsskilyrði ? eða er hann af hinu góða fyrir samfélagið í heild ? Svo er það atvinnuleysið, telur þú að atvinnuleysi hér á landi myndi aukast með inngöngu í ESB ?

Þú hefur verið óþreytandi við að fjalla um krónuna og ESB og langaði mig því þess að heyra frá þér.


Sæll
Ég hef oft í pistlum mínum vitnað í ummæli forsvarsmanna þeirra fyrirtækja sem hafa verið að taka til sín stærsta hluta þeirrar fjölgunar sem hefur verið á íslenskum vinnumarkaði. Þeim ber öllum saman um að rekstarskilyrði hér séu óviðunandi meðan krónan er notuð hér, vonlaust að gera áætlanir, vaxtakostnaður óviðunandi og erfitt að fá erlenda fjárfesta. Hér er ég að tala um forsvarsmenn Össur, CCP, Marel og fleiri hátæknifyrirtækja. Einnig má benda fyrirtækisem hafa alfarið flutt héðan.

Þeir hafa verið að flytja starfsemi úr landinu og eru með um 2.000 manns í vinnu annarsstaðar. Þeir segjast ekki sjá stækkunarmöguleika hér heima. Þeir hafa margoft sagt að það væri hægt að flytja heim öll þessi störf ef krónan væri ekki og við innan ESB. Mér finnst með ólíkindum hversu fréttamenn hafa í litlu sinnt þessum ummælum.

Ég hef einnig bent á þróunina í félagatali Rafiðnaðarsambandsins. Sambandið er 40 ára á þessu ári með tæplega rúmlega 5000 félagsmenn. Þeir voru liðlega 6.000 árið 2008.

Árið 1970 við stofnun RSÍ voru félagsmenn 480. Mjög fáir unnu í tæknifyrirtækjum eða um 50, nær allir í byggingariðnaði og orkugeiranum

Árið 1980 voru félagsmenn 900. Um helmingur vann í tæknifyrirtækjum

Árið 1990 voru félagsmenn 1.800. 800 unnu í tæknifyrirtækjum

Aldamótin 2000 voru félagsmenn 3.600. 2.000 unnu í tæknifyrirtækjum

Fyrri hluta ársins 2008 voru félagsmenn liðlega 6.000 1.000 unnu í störfum tengdum landbúnaði, fiskvinnslu og byggingariðnaði. Um 300 í orkugeiranum. Aðrir unnu í tækni- og þjónustugeiranum. Semsagt öll fjölgun starfa hefur verið hjá tæknifyrirtækjum. Ekki þeim starfsgreinum sem eiga að ráða för hér á landi.

Núna eru félagsmenn 5.000. 1.000 hafa flutt úr landi til starfa eða farið til frekara náms. Skipting starfa er svipuð, mest er þó fækkun í byggingariðnaði.

Í könnun sem gerð var fyrri hluta árs 2008 voru meðalheildarlaun íslenskra rafiðnaðarmanna svipuð og í Noregi og þá um leið þau hæstu sem voru á norðurlöndum, en meðalvinnutími okkar manna var 45 klst. á viku meðan hann var 40 klst. annarsstaðar á norðurlöndum. Föst laun okkar voru svipuð og í Danmörku nokkuð lægri en í Noregi hærri en í Svíþjóð og nokkuð hærri en í Finnlandi.

Í dag eru laun íslenskra rafiðnaðarmanna um það bil helmingi lægri en laun rafiðnaðarmanna í Noregi og eru kominn niður fyrir laun finnskra rafiðnaðarmanna, þrátt fyrir að þeir vinni lengri vinnuviku. Skuldir okkar manna hafa snaraukist og kaupmáttur fallið.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem við erum að ganga í gegnum svona sveiflu þó hún sé vitanlega mikið stærri núna en áður. Þar má minna á stóru niðursveifluna 1968 - 1972 og svo mikla fallið fyrir 1990, og svo um aldamótin. Alltaf hefur það verið leiðrétt af stjórnmálamönnum með því að fella krónuna og um leið eyðilagt kjarabaráttu launamanna og mikil eignatilfærsla frá almenning.

Ég hef starfað mikið í stjórnum norrænu og evrópskum samtökum byggingarmanna og eins í stjórnum norræna rafiðnaðarsambandsins og verið þar formaður í 6 ár. Ég tel að ef við ætlum ekki að missa fleiri störf úr landi þá sé einungis ein leið og það er að ganga í ESB.

Einnig er ég sannfærður um að ungt og menntað fólk mun ekki una því samfélagi sem hér verður boðið upp á, með lakari þjónustu hins opinbera og takmörkuðum störfum þar sem þjóðfélagið mun verða stýrt af mönnum sem setja fiskvinnslu og landbúnað fremstan og vilja getað ástundað stórkostlegar eignatilfærslur til fárra með aðstoð krónunnar.

Sama mun eiga sér stað í tæknifyrirtækjunum, þau munu ekki fá nægilega vel menntað fólk og þau vilja ekki starfa í umhverfi krónunnar og munu í enn frekari mæli flytja starsemi sína erlendis.

Ef ekki verður gengið í ESB og tekin upp alvöru gjaldmiðill þá munum við búa áfram við svipað ástand og er núna, með um 10 - 14% atvinnuleysi og Ísland verður áfram láglaunasvæði. Atvinnuleysi mun ekki aukast vegna þess að okkar stærsta útflutningsgrein verður ungt og vel menntað fólk sem flýr landið. Einnig mun fullorðið fólk flytja á eftir börnum sínum, þar sem þjónusta við fullorðið fólk er mun betri annarsstaðar á norðurlöndum og lífeyrir nýtist betur.

Engin ummæli: