föstudagur, 19. nóvember 2010

Göngustígar og sjálfboðastarf

Mér var boðið í vikunni að koma sem fyrirlesari á ráðstefnu SEEDS, sem eru samtök sjálfboðaliða sem vinna að náttúruvernd. Þau hafa unnið mikið hér á landi við hreinsun strandlengjunnar og lagningu göngustíga. Þarna eru á ferð fólk á öllum aldri nánast frá öllum löndum heimsins. T.d. hef ég á gönguferðum mínum um Hornstrandir hitt erlenda háskólaprófessora sem voru að störfum við lagningu göngustíga, þeir sögðu mér að þeir eyddu alltaf hluta af sumarfríum sínum í þessi störf. Það gæfi þeim svo mikið að geta unnið að því að berjast gegn spillingu náttúrunnar.

Ég er af þeirri kynslóð íslendinga sem var send í sveit norður í Húnaþing á hverju sumri. Þá lauk skólanum í lok apríl og byrjaði aftur í byrjun október. Maður var í sauðburðinum allan sólarhringinn, stundum var mjög kalt og við tókum nýfædd lömbin sem virtust lágu milli þúfnanna og virtust dauð og fórum með þau heim á bæ og settum þau inn í bakarofninn, þar sem þau stóðu upp eftir skamma stund.

Á sumrin var ég sendur reglulega frá bóndabýlinu upp á hálendið á hestum í hin fjölmörgu vötn sem þar eru og þar veiddum við silung í net. Maður óð út í vötnin alveg upp að öxlum með netin og síðan var beðið og vitjað í þau um miðnætti og svo eldsnemma morguns. Þegar búið var að veiða eins mikið og komst fyrir í töskunum á hestunum fórum við heim aftur.

Það var ólýsanleg upplifun að vera aleinn 30 km. frá næsta sveitabæ, út í miðju heiðarvatni upp á hálendinu. Oft kom þoka á kvöldin þannig að maður sá einungis nokkra metra frá sér. Kyrrðin var algjör utan þess að himbriminn vall með sínu undurfagra hljóm. Oft var það þannig að hann festist í netunum og ég þurfti að eyða löngum tíma til þess að losa hann án þess að skaðast. Minkurinn skaust um í bakkanum og reyndi að stela sér nokkrum fiskum af aflanum og endurnar héldu sér í hæfilegri fjarlægð. Þarna á björtum sumarnóttum lærði maður að meta íslenskt hálendi.

Síðan þá hef ég notað nánast hverja lausa stund á sumrin til þess að komast burt úr frá asanum hér í borginni. Oftast verið milli 30 – 40 nætur í tjaldi á hverju sumri. Við íslendingar höfum á undanförnum árum verið að upplifa breytingar. Göngufólki fer fjölgandi og það kallar á margskonar aðstöðu. Það vill t.d. enginn tjalda á svæði sem er þakið af hvítum pappírssnifsum. Það er sorglegt að þegar göngustígarnir verða sífellt breiðari og oft taka þeir tilgangslausa stefnu út um hlíðarnar og gegnum mosabreiðurnar og skófirnar og það tekur náttúruna áratugi að jafna sig.


Við íslendingar erum að uppgötva að við erum tilneydd til þess að taka upp umferðarreglur á göngugötunum okkar, marka leiðir og smíða palla á þeim stöðum sem flestir stoppa. Girða af þær leiðir sem má fara, til þess að halda þessum mikla fjölda á ákveðnum leiðum og síðast en ekki síst setja upp snyrtingar til þess að losna við hvítu pappírssnifsin af þeim flötum sem maður vill setja upp tjaldið og geta sest niður fyrir framan tjaldið og farið að elda áhyggjulaus um að lenda í uppákomu sem eyðileggur stemminguna og matarlistina.

Hér er risavaxið verkefni, Ísland er stórt land með löngum gönguleiðum og mörgum svæðum sem fólk vill skoða. Í sjálfu sér er fólk endilega að leita sérstökum náttúrufyrirbrigðum, heldur að geta ráfað um náttúruna, án þess að vera að þræða milli húsveggja og vera laus við öskrandi bílana.

Þetta verkefni er svo stórt að við ráðum ekki við það, þess vegna fagnar maður ávalt hópum sjálfboðaliða sem koma hingað og taka til hendinni. Þetta fólk er einnig að kenna okkur handbrögðin, hvernig gera á stígana þannig að þeir séu ekki orðnir að djúpum skurðum eftir leysingarnar næsta vor. Hvernig hægt að beina vatninu út af stígunum.

Á ferðum mínum síðustu sumur hef ég hitt erlent fólk sem hingað er komið í sjálfboðavinnu við að innleiða þessa þekkingu. Ég hef séð það leggja stíga vestur á fjörðum, hér í Esjunni í Skaptafelli og inn í Þórsmörk. Ég er ásamt öðrum íslenskum göngumönnum þessum sjálfboðaliðum afskaplega þakklátur þessu fórnfúsa starfi og horfi með aðdáun á handbragðið. Þar eru margar lausnir, sem eru svo augljósar þegar maður sér þær.

Engin ummæli: