Hún var á margan hátt afskaplega þörf sú áminning sem Dr. Michael Porter þrumaði yfir okkur í Háskólabíó í gær. Hann lagði áherslu á að Íslendingar yrðu sjálfir að hafa frumkvæði að því að vinna sig upp úr vandanum, en við værum að eyða öllum tíma okkar í að slá pólitískar keilur og koma höggi hver á annan. Pólitíkin væri alls ráðandi. Við hefðum mikla möguleika til þess að geta unnið okkur út úr vandanum, ættum mikla orku, mannauð og ættum að vera komnir lengra af stað í uppbyggingunni. En til þess þyrfti að taka ákvarðanir - og standa við þær.
Porter sagði hreint út að Íslendingar væru sjálfumglaðir og oft ekki hægt að skilja þá öðruvísi en svo að við teldum okkur vera nánast ein með þekkingu á vinnslu jarðvarma. Svo væri ekki, til væru stór samfélög á nokkrum stöðum á jörðinni þar sem væri umfangsmeiri jarðvarmavirkjanir en hér. Þessi svæði veittu okkur, eða myndu örugglega veita okkur mikla samkeppni. Þau væru á sumum sviðum framar en við og betur búinn tækjum.
Mesta þekkingin og reynslan í jarðborunum væri í gas- og olíubransanum. Framleiðsla á tækjabúnaði vegna borana, pípna, hverfla og annars tæknibúnaðar væri ekki hér og fyrir lægi að hér væri ekki fjárhagslegt fjármagn til þróunar á þannig búnaði. Hér væri til góð þekking og reynsla á rekstri veitna.
Hann velti einnig mikið fyrir sér á hvaða forsendum íslensk stjórnvöld tækju ákvarðanir. Þeir hefðu í vinnuhópnum leitað mikið eftir gögnum sem sýndu fram á vegna íslenskir stjórnmálamenn hefðu kosið frekar að reisa álver, en setja fjármagn og raforku í gagnver, hugtæknibúnað og líftækniframleiðslu.
Við fundum engar kannanir, engar skýrslur, sagði Porter, þar sem sýnt væri fram á að Ísland væri að fá meiri arð af þeim kílówöttum sem færu í álframleiðslu en ef það væri sett í aðra þætti. Hér virðast ráða för ákvarðanir sem eru að taka mið af einhverju öðru en rannsóknum og staðföstum rökum.
Í þessu sambandi verða menn að velta fyrir þjóðhagslegum hagnaði, fjölda starfa, skatttekna og samfélagslega uppbyggingu. T.d. væri ekki með nokkrum hætti hægt að sjá að útflutningur raforku myndi skila miklu í íslenskt samfélag. Kostnaður við uppbyggingu mikilla orkuvera og lagning langs sæstrengs til markaðssvæðis kallaði á orkuverð sem væri hærra en fengist í sölu. Íslendingar myndu niðurgreiða orkuna, alla vega um langa næstu framtíð.
Íslendingar geta lært mikið af Klösum sem hafa verið byggðir upp í kringum vinnslujarðvarma, t.d. í Nevada og Nýja Sjálandi. Þið eigið að senda fólk þangað og koma á samböndum. Þið hafið alla möguleika til þess að geta byggt upp mjög sterka Klasa í kringum þekkingariðnað og jarðvarmavinnslu og sjálfbært grænt hagkerfi . Klasi er samstarf margra aðila og það er það sem þið þurfið að gera. Þið hafið takmarkað fjármagn, en ef þið gætuð komið ykkur saman um stefnu, tekið ákvarðanir þá myndi ykkur ekki skorta fjármagn til þess að framkvæma þessa hluti.
3 ummæli:
Er hægt að nálgast þennan fyrirlestur á netinu?
Góð grein,
Porter kom hingað árið 2006. þá varaði hann við hættum gjaldmiðilsins og að mikilvægt væri að huga að upptöku annars gjaldmiðils.
Sú aðvörun var á rökum reist.
Kringum allt land hafa verið settir á stofn svokallaðir Vaxtarsamningar, sem byggja á klasahugmynd Porters o.fl. þar sem atvinnulíf, háskólar og opinberir aðilar vinna saman í samstarfi, til að efla hagvöxt og atvinnu.
Það vantar meira af slíkum uppbyggilegum erindum, ráðstefnum, aðilum og verkefnum sem vísa til framtíðar.
Var bara nokkur annar kaupandi að þessari orku? Var ekki Blanda ónotuð í uþb 10 ár þangað til Kenneth nokkur Peterson kom og vildi reisa Norðurál? Var ekki búið að reyna að byggja kísiljárnverksmiðju á Reyðarfirði í mörg ár en eiginlega enginn sem vildi eiga hana?
Málið er, að meðan við erum með þennan gjaldmiðil, sem er felldur reglulega þannig að eignir erlendra fjárfesta rýrna um nákvæmlega jafn mikið og kaupið okkar launamanna, er ekki líklegt að neinn vilji fjárfesta hérna nema í einhverju sem getur verið óháð krónu.
Það er t.d. ál þar sem allt er meira og minna bundið í $ og fyrirtækin því nánast áháð þessum gervigjaldmiðli okkar. Þess vegna er þessi fjárfesting svona einhæf og það mun ekki breytast fyrr en við fáum traustari gjaldmiðil sem hægt er að treysta á!
Skrifa ummæli