miðvikudagur, 3. nóvember 2010

Glundroðinn við völd

Nú eru tímar lýðskrums og yfirboða. Um helgina kom niðurstaða skoðanakönnunar. Engin undrast niðurstöður hennar, allir eru óánægðir með hversu hægt gengur að koma hagkerfinu í gang og fá niðurstöður í skuldamál heimilanna. Virkaði ekki vel þegar Jóhanna kynnti það sem vilja ríkisstjórnarinnar að ná heildarsamkomulagi á vinnumarkaði til þess að koma atvinnulífinu í gang.

Þetta samkomulag er búið að vera í gangi í nokkurn tíma og var kallað Stöðugleikasáttmáli, þar lágu fyrir hvaða aðgerðir aðilar væru sammála um að þyrfti að grípa til hvað varðar atvinnulífið, en endalausar deilur innan ríkisstjórnarinnar urðu til þess að lítið gerðist. Öll fyrirtækin settu þar fram þá skoðun að forsenda þess að eðlilegt viðskiptaástanda kæmist á yrði að leysa Icesave.

Þetta hefur komið rækilega fram og ljóst að afstaða stjórnarandstöðunnar með órólegu deildinni er orðin mjög stór Þrándur í götu gagnvart upprisu íslensks atvinnulífs. Stjórnarandstaðan hefur gert allt sem á hennar valdi stendur til þess spila undir með órólegu deildinni og skapa enn meiri glundroða, þar hafa hagsmunir launamanna og fyrirtækja ekki verið hafðir til hliðsjónar.

Sjálfstæðisflokkurinn skellti fram óraunsæjum gylliboðum og finnst það vera innlegg í stöðuna, segir allt um veruleikatenginguna þar á bæ. Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir skattahækkunum hjá hinum lægst launuðu með því að að láta skerðingarmörk í bótakerfinu ekki fylgja verðlagi og þurrkaði nánast út m.a. vaxtabætur hjá ungu fólki á suðvestur horninu. En hann lækkaði svo skatta hjá þeim sem mest höfðu milli handanna. Um helgina kom fram einn eitt yfirboð Sjálfstæðismanna þar sem þeir vilja viðhalda glundroðanum. Hann sagði skattahækkanir ríkistjórnarinnar vera að sliga heimilin.

Það sem er að sliga heimilin og fyrirtækin er fyrst og síðast gjaldmiðilshrun sem er bein afleiðing efnahagsstefnu undir forystu Davíðs Oddsonar og hans stjórnar í Seðlabankanum. Hækkun skulda, kaupmáttarfall, lífskjaraskerðing, erfiðleikar atvinnulífs, allt þetta má rekja til gjaldmiðilsins og efnahagstjórnar Davíðs og félaga.

Engin þeirra sem stóð að þessari stefnu hefur fengist til þess að horfast í augu við afleiðingargjörða sinna. En það er mun verra að engin þeirra hefur fengist til þess að takast á á við vandan. Frekar hafa þeir valið þann kost að skapa enn meiri glundroða og þyrla upp ryki til þess að fela hin skelfilegu mistök og þá spillingu sem viðgekkst undir þeirra stjórn.

6 ummæli:

Hallur sagði...

Sæll Guðmundur.
Fínn pistill. Ég held samt að eitt atriði vanti inní umfjöllunina. Það er ekki bara við ríkisstjórnina aða sakast með hve hægt gengur, það þarf að semja við marga aðila, um fjármögnun og fleira. Samningaviðræður við lífeyrissjóðina um fjármögnun ýmissa verkefna hefur tekið tíma.
Í allri umfjöllun um ástandið gleymist að það tekur tíma að koma málum í farveg, vissulega má vinna hraðar, en fúsk við undirbúning hefur ekki í för með sér góða niðurstöðu.

Stefán Benediktsson sagði...

Vonandi les Porter þetta ekki.
Það er eins og ríkisstjórnin hafi ekki komið sér saman um að þau verða að halda völdum í fjögur kjörtímabil til að byggja raunverulegt norrænt velferðarríki.

Nafnlaus sagði...

Það er hæpið að kenna stjórnarandstöðunni um getuleysi og vandræðagang ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Þessi ríkisstjórn hefur einfaldlega valdið miklum vonbrigðum og er starfslega í andarslitrunum. En af tveimur slæmum kostum er líklega betra að hafa líkið af ríkisstjórninni uppistandandi áfram en að fá yfir sig stjórnarandstöðuna og Davíð aftur.

Nafnlaus sagði...

Ég held Guðmundur að þér væri hollast að þurrka út orðin sjálfstæðisflokkur og vinstri og hægri út úr pistlunum þínum. Þá væru þær lausnir sem þú kemur fram með sem og athugasemdir mun trúverðugri. Við sem lesum pistlana þína og finnst þú mjög oft sjá kjarna vandans og jafnvel hafa fram að færa skynsamlegar lausnir missum alltaf á þér trúna þegar þú getur ekki leynt hatri þínu á ákveðnum stjórnmálaöflum og því fólki sem þar starfar. Vinstri hugsjónir eru yfirleitt göfugri en hægri hugsjónir á pappír og höfða til góðmennsku og náungakærleika meðan hægri hugsjónir eru tengdar einstaklingshyggju og sjálfmiðun. Því miður er þessu ekki þannig farið í raunveruleikanum. Allir vilja fá umbun fyrir það sem þeir leggja á sig og allir eiga að fá að bera ábyrgð á eigin lífi og njóta jafnra tækifæra á við aðra
Mbk
Ólafur

Guðmundur sagði...

Já það er erfitt að gera öllum til hæfis. Ef ég tala óskýrt er ég skammaður og sakaður jafnvel um dylgjur og ef ég nefni þá sem ég er að tala um og það er reyndar ekki bara ég, heldur það sem maður heyrir í kringum sig, þá er talað um að ég hafi meira hatur til sumra en annarra.
Í múnum huga þá gegnur flokkakerfið ekki upp eins og það er núna, t.d. blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn eru tveir flokkar, hægri miðju flokkur með norræn sjónarmið og Evrópusinnar og svo öfgakenndur hópur sem hefur farið með völdin og ráðið stefnunni og á stærstan þátt í því að dýfan varð svona djúp.

Það er einnig þessi hópur sem stendur hvað harðast í vegi fyrir því að við náum vopnum okkar aftur,þar sem hann er svo upptekinn við að þyrla upp moldvirði til þess að beina sjónum fólks frá veruleikanum. Til þess að komast af stað verðum við að viðurkenna ákveðnar staðreyndir og taka á þeim.

Það er þessi hópur sem ég hef verið að beina spjótum mínum að, og er svo sem ekki einn um það. Ef þú villt flokka það sem hatur, jú það má örugglega kalla það því nafni.

Maður verður einfaldlega svo vondur horfandi á að hagsmunir annarra eru einkis virði í augum þessa fólks, það hugsar einungis um sinn hag og berst um hæl og hnakka og beitir öllum brögðum í bókinni til þess að ná glötuðum völdum tilbaka.

Mb.kv. GG

Nafnlaus sagði...

Fínn pistill að venju.
Er sammála því að efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokks á löngu tímabili var ekki þjóðfélaginu til bóta, og alls ekki þeim hópi þjóðfélagsins sem ég tel mig tilheyra, eða svokallaðri millistétt (þó mér sé í grunninn meinilla við að tala um stéttskipt þjóðfélag, enda var á mínum uppvaxtarárum innprentað að Ísland væri stéttlaust land, land jafnaðar, og við trúðum því öll ansi lengi).

En talandi um efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokks, þá er ég þó líka sammála því að innan þess flokks eru margir hópar og furðu líkast að hann hafi ekki fyrir löngu klofnað, eins og t.d. gerðist þegar Gunnar Thoroddsen klauf sig frá. "Ég á vini í öllum flokkum" og veit að það eru margir Sjálfstæðismenn sem beinlínis finna til þegar ákveðin deild hans og málsvarar hefja upp raust sína, flokksmenn sem hafa með öllum ráðum óskað eftir að spilllingaröflin hverfi og ákveðnir menn innan flokksins taki pokann sinn, en þessir sillingarpésar sitja eftir sem áður sem fastast og gala hátt í fjölmiðlum. Það sem ég skil sem sagt ekki er þögn óánægðra Sjálfstæðismanna, það er ekkert heilbrigt rifrildi í gangi í flokknum sem gæti hreinsað út, heldur er kóað og kóað til að allt sé sem áferðarfallegast út á við, eins og í dæmigerðri óheilbrigðri og disfunctional fjölskyldu. Meira að segja þeir óánægðu Sjálfstæðismenn sem hafa sagt sig úr flokknum vakla um líkt og heimilislausir og geta ekki fellt sig við neinn annan flokk þó öll stefnumál hans hugnist þeim. Það að vera Sjálfstæðismaður er meira eins og yfirlýsing um lífsskoðun eða trú og að tilheyra frekar en verandi niðurstaða eftir gagnrýna umhugsun um umdeild málefni og framkvæmd valds undanfarna áratugi. Bara það að hlusta á Tryggva Þór Herbertsson í fréttum í gær, fyrrum efnahagsráðgjafa ríkistjórnarinnar, tala í frasakenndu orðagjálfri um stóriðju sem einu lausnina í dag, hlýtur að setja hroll að öllu hugsandi fólki........líka hugsandi Sjálfstæðisfólki.