fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Lýðskrumið í aksjón

Í örstuttum pistli í gær minntist ég á að það væri búið að valda gríðarlegum skaða á vinnumarkaði, sérstaklega almennum vinnumarkaði með því hversu óábyrgir þingmenn stjórnarandstöðunnar með aðstoð þeirra innan ríkistjórnarinnar sem ekki þora að taka óvinsælar ákvarðanir, hafa verið í umfjöllun um Icesave. Gengu svo langt að telja hluta þjóðarinnar í trú um að með einu stóru feitu Neii gætum við sagt okkur frá Icesave.

Margir urðu vitanlega til þess að trúa reyksprengjunum sem fleygt var á Alþingi að með stóra feita Neiinu segði þjóðin sig frá stærsta hluta síns skuldavanda. Icesave var og er lítill hluti vanda hins íslenska samfélags.

Vill byrja eins og oft áður þegar komið er að Icesave, enginn íslendingur vill greiða Icesave, en margir viðurkenna þá ömulegu staðreynd að Ísland hafi undirgengist samninga þar af lútandi. Það er ekki bara núverandi ríkisstjórn þetta samkomulag er búið að vera í gildi um langt árabil.

Í hinni trylltu Icesave umræðu fyrir ári síðan stilltu formenn stjórnarandstöðuflokkanna ætíð upp með þeim hætti að málið snérist um að losa okkur við heildarskuldbindingar Icesave reikninga. Skuldatölur sem aldrei höfðu verið inn í þeim samningsdrögum sem fyrir lágu. Heldur lá það fyrir allan tíman að eignir Landsbankans myndu duga langleiðina til þess að standa undir samningsdrögunum, sem einungis fjölluðu um 20 þús. evru markið. En dansinn varð sífellt trylltari og öllum brögðum lýðskrumsins beitt. Orðbragð þingmanna snérist upp í mestu lágkúru sem heyrst hefur í þingsölum.

Óábyrgastir allra voru formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Forseti lýðveldisins stóðst ekki mátið að stíga lýðskrumsölduna í örvæntingarfullri tilraun til þess að víkja sér undan þeirri smán, að hafa farið næstur á eftir Hannesi Hólmstein sem helsta klappstýra blöðruselanna, sem blésu upp kúluna sem kom Íslandi í þrot. Allt í boði afskiptaleysis Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

Allt rættist sem sagt var um Ísland í nágrannalöndum okkar; Það er ekki hægt að ræða við íslensk stjórnvöld og lána þeim fjármuni til bjargar öðruvísi en í gegnum AGS. Mikil smán sem búið var að kalla yfir landið.

Það er takmarkalaus fantaskapur að nýta sér erfiða stöðu almennings til þess að vekja upp innistæðulausar væntingar. Þetta þekkjum við vel sem höfum starfað við gerð kjarasamninga. Það er ekkert auðveldara en að beita lýðskrumsvinnubrögðum með yfirboðum í skjóli þess að þurfa aldrei að standa við loforðin. Það lendir svo á hinum ábyrgu kynna ganga í gegnum vonbrigðaölduna þegar hinn bitri og súri raunveruleiki blasir við.

En lýðskrumarinn hefur aldrei burði til þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og þær óvinsældir sem raunsæismanninum bíður, frekar stillir skrumarinn sér upp og bendir á að ef hans leið hefði verið farinn þá væri allt betra, en aðrir hefðu komið í veg fyrir að sú leið hefði verið farinn.

Nákvæmlega sömu sögu má segja um þá reyksprengju, að hægt sé að láta skuldir gufa upp, án þess að einhver yrði borga brúsann. Sömu fantabrögðum var beitt gagnvart fólki sem á örvæntingarfullan hátt leitaði leiða til þess að bjarga sér og heimilum sínum. En auðmenn sáu sér þá leik á borði og vildu losa sig við milljarða skuldir.

Virkir urðu skuldsettir verktakar í sætum spjallþáttastjórnenda sem vildu einnig fá að njóta niðurfellingar. Allan tíman lá fyrir að ef þessi leið yrði farinn, dygði hún ekki til bjargar þeim sem verst stóðu og áttu mestan rétt á hjálp. Það kom lýðskrumurum ekki við, þeir stilltu sér fremst í röðina eins og áður og vildi hrifsa til sín bestu bitana, eins og frjálshyggjan jafnan gerir. Öllum vopnum var beitt til þess að vega þá, sem bentu á hversu óraunsæjar tillögurnar væru.

Allt þetta hefur valdið óþarfa eins árs kyrrstöðu á lausnum fyrir atvinnulífið í eðlilegum samskiptum við erlendar lánalínur og tafið viðsnúning á almennum vinnumarkaði. Stór hluti hinna 15 þús. manns sem enn eru atvinnulausir eru það að sakir lýðskrumsins. Sama má segja um úrlausnir á stöðu þeirra fjölskyldna verst standa.

Nú liggur þessi heita kartafla í fangi framangreindra manna og fylgisveina. Sigmundur Davíð gengur enn fram fyrir skjöldu og sýnir okkur þá hlið að hann hefur hvorki burði eða drengskap til þess að axla ábyrgð á gjörðum sínum.

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já... þetta allt þeim að kenna...

Þeas þeim sem að ekki stjórna...

Ha?

Ömurlegt svona "minn flokkur er bestur" attitjúd...

(Þetta er allt sama helv. draslið, vinstri, hægri, upp (lífeyrissjóðir) eða niður (banka))

Nafnlaus sagði...

Það er tvennt sem ég vill spyrja þig að.

1) Geturu útskýrt nánar þetta með skuldugu verktakana í spjallþáttum.

2) Hefur þú skipt um skoðun á einhverju þjóðfélagsmáli í kjölfar umræðu um það eða veluru alltaf "rétt" strax í upphafi ?

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Ég verð að taka hanskann upp fyrir lýðskrumið í þetta sinn, því varla heldur því nokkur maður fram lengur að Svavars samkomulagið hafi verið boðlegt hvað þá glæsilegt líkt og sumir töldu það vera. Þú mátt svo ekki gleyma því að samkomulagið sem gert var um greiðslu var alltaf háð samþykki alþingis sem reyndar lá fyrir í annarri tilraun en var stoppað af í þjóðaratkvæðagreiðslunni frægu. Nú hyllir undir enn eitt samkomulagið og þökk sé hinu meinta lýðskrumi virðist það vera það hagstæðasta hingað til svo munar milljörðum sem annars hefðu lent á okkur skattgreiðendum en þig munar kannski ekkert um það.

Það er reyndar með ólíkindum að menn sem eiga að heita talsmenn hinna vinnandi stétta skuli hafa frá upphafi viljað samþykkja þessa hörmung án þess að gera allt sem hægt er til að takmarka það tjón sem þessir reikningar valda þjóðinni.

Það er ekki hægt að yfirfæra getuleysi stjórnvalda yfir á þá sem það gagnrýna. Ríkisstjórnin okkar er því miður vonlaus á flestum sviðum enda ekkert sem sameinar þessa flokka sem að henni standa nema hatrið á Sjálfstæðisflokknum, en þjóðin lifir ekki á því. Við erum t.d. í umsóknarferli að ESB þar sem fyrir liggur að annar stjórnarflokkanna vill ekkert með það hafa að ganga þarna inn og sumir ráðherranna berjast gegn framgangi viðræðnanna. Hvernig er hægt að ætlast til að nokkur árangur náist þegar svona er? Það er rétt hjá Þorsteini Pálssyni að þessi ríkisstjórn getur ekki klárað þetta dæmi. Það er lágmarkskrafa að íslenska samninganefndin hafi traust pólistískt bakland en ekki einhvern sýndarmeirihluta líkt og nú er.

kv
Gunnar Jóhannsson

Arnar sagði...

Sæll Guðmundur.

Ég er ekki að krefjast niðurfærslu lána eða þannig en langar virkilega að fá að vita þína persónulegu skoðun á einum þætti verðtryggingar. Það eru skattarnir.

Er eðlilegt að skuldir lántakenda hækki við skattahækkanir?

Frægt er dæmið þegar hækkun opinberra gjalda á bifreiðar, bensín, olíu, áfengi og tóbak ollu því að skuldir heimilana í landinu hækkuðu um 8 milljarða.

Hvaðan komu þessir 8 milljarðar sem eru bókfærðir sem eign einn daginn, en daginn áður voru þeir ekki til.

Sama gildir í hina áttina. Ef skattar eru lækkaðir verulega munu verðtryggðar eignir væntanlega rýrna að sama skapi.

Spurningin er s.s þessi: Er eðlilegt að skattar hafi svona mikil áhrif á skuldir og eignir?

Þórður Magnússon sagði...

Nú ætla ég að leyfa mér að vera með svolítið skítkast:

Þeir sem eru með 800-1000 þús eða jafnvel meira í mánaðarlaun ættu varla að vera gjaldgengir í umræðunni um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána.

Ef maður væri með sömu laun og þú þá hugsa ég að það skipti ekki miklu máli þótt að mánaðarlegar afborganir hækkuðu um 30-60 þús. Auk þess sem þá væri maður eflaust búin að borga niður lánin að mestu leiti. En fyrir þá sem eru með meðallaun og þar undir þá getur þessi upphæð skilið á milli feigs og ófeigs, sér í lagi fyrir barnafólk.

Málfluttningur þinn er dæmigerður smjörklípuhernaður í aksjón. Þú gefur í skyn að það séu fyrst og fremst skuldsettir verktakar sem séu að biðja um leiðréttingu á lánum.

Staðreyndin er sú að það eru fyrst og fremst fólk með tekjur í lægri kanntinum sem myndu njóta góðs af leiðréttingu (með þaki) upp á 15-18%. Fyrir þannig fólk munar um þessa upphæð.

Fyrir verktaka í rekstri þá eru mun heillavænlegri lausnir nú þegar í boði. Þá myndi ekki muna neitt um 15-18%. Þeir geta nú þegar fengið afskriftir niður að 110% veðsettningarhlutfalli sem oft felur í sér mun meiri afskriftir 15-18%. Þeir geta líka farið á hausinn eða skipt um kennitölu.

Það er lélegt af þér að ætla að koma þér undan alvöru umræðu um skuldamál heimilanna með svona lélegum málfluttningi.

Ég auglýsi hér með eftir að þú farir að sinna starfi þínu sem verkalýðsforingi.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir góða grein. Sagan mun dæma ábyrgðaleysi þessara þriggja manna (Bjarna, Sigmundar, og Ólafs og síðan má bæta Davíð Oddsyni við) sem það alvarlegasta og aumasta í allri íslandssögunni að mínu áliti. Ég vil benda þér á grein sed ég skrifaði í Viðskiptablaðið 4. nóvember um "Icesave í öðru ljósi" en hefur enga umfjöllun fengið enda hvergi komið á netið. Hef reyndar beðið Eyjuna um að birta hana en þeir ekki gert ennþá. Enda eru svona sjónarmið ekki vinsæl í lýðskruminu.
Kveðja Þorbergur Steinn Leifsson

Nafnlaus sagði...

Samkvæmt fréttum munu yfir 100 milljarðar sparast með nýju samkomulagi um Icesave. Hvernig getur þú haldið því fram að 98% þjóðarinnar hafi verið á villigötum, teymd áfram af lýðskrumurum, þegar stefnir í þessa niðurstöðu.
Ertu kannski með gífuryrðum að reyna að slá ryki í augu fólks og breiða yfir eigin mistök sem fólust í því að vilja styðja fráleitar vaxtakröfur og algerlega óásættanlega samninga sem Steingrímur og Jóhanna bera mesta ábyrgð á.
Eins og ég sé það var stjórnarandstaðan ekki að tala fyrir engri niðurstöðu heldur sanngjarnri.
Þessi pistill þinn ætti að fjalla um alla þá sem hvöttu til samninga á fráleitum forsendum en ekki þá sem eru við það að ná fram miklu betri lendingu með gífurlegri baráttu og stuðningi þjóðarinnar.

Guðmundur sagði...

Ég hef í hinum fjölmörgu pistlum sem ég hef skrifað um þetta mál undanfarin 2 ár, rakið það ítarlega hvernig ég komst að þeirri niðurstöðu sem ég komst að, og ég var ekki einn um að komast þeirri niðurstöðu.

Það liggja fyrir og kemur fram í pistlum mínum samkvæmt útreikningum hagfræðinga sem ég trúi og hef ekki reynt annað en standi sem þeir hafa sagt að íslenska hagkerfið sé þegar búið að glata sem svara um það bil einni árframleiðslu á þessum óþarfa drætti.

Ég tala fyrir hönd félagsmanna RSÍ og niðurstaðna funda þeirra. En flestir þeirra starfa hjá tæknifyrirtækjum á almennum markaði. Ég vitna einnig til margítrekaðra ummæla forstjóra CCP, Marels, Össurs og fleiri fyrirtækja.

Ég hef margoft á þessari síðu bent á að þau laun sem birtust í launablöðum voru vel umfram það vera tvöfallt hærri en laun mín eru, nálægt þrefalt hærri.

Það er ekkert sem bendir til þess að sá samningur sem fyrir liggur verði betri en sá síðasti, enda voru einnig í honum ákvæði um endurskoðun áður en greiðslur áttu að hefjast.

Bið kærlega að heilsa og þakka innlitið á síðuna.
GG

Nafnlaus sagði...

Ég var að lesa ummæli hjá formanni framsóknarflokksins þar sem hann bendir réttliega á að útreikningar sérfræðinefndar stjórnvalda eru allt of takmarkaðir þar sem þeir reikna ekki út afleiðingu mismunandi leiða, þ.e. hvað kostar að gera ekkert og síðan hvað það skilar miklu að fara út í ólíkar aðgerðir.

Þar er réttlega bent á að það er fáránlegt að horfa bara á kostnaðarhluta úrreikningsins einan en ekki afleiðingu gerðanna.

Síðan virðist eitthvað allt annað gilda í Icesave, þar á ekki að meta neitt þær afleiðingar á orðsopr, viðskipti og kjör sem því fylgir að halda þessu máli endalaust áfram.

Eins og þú bendir á er líðskrumið víða og skipt er um röksemdafærslu eins og henntar hverju sinni.

Alli verkamaður sagði...

Þetta er allbesta greining á icesave málinu núna, takk guðmundur!

Nafnlaus sagði...

Afar góð grein.
Það er eftirtektarvert að engir þeirra sem hafa verið á móti Icesave samningunum reyna að gera sér eða öðrum grein fyrir kostnaðinum af því að semja ekki eða bíða svona lengi.
Ætla má að kostnaður vegna hærri vaxta í lengri tíma en ella, áhugaleysi erlendra fjárfesta vegna þess að ósamið hefur verið um Icesave sé búið að kosta okkur afar háar upphæðir. Allt í boði stjórnarandstöðunnar (innan stjórnar og utan).

Nafnlaus sagði...

Sæll

Vil benda þér á Guðmundur minn að þú talar ekki fyrir hönd félagsmanna RSÍ í Icesave málinu enda hefur þú ekkert umboð til þess og eins er það ekki í þínum verkahring, nær að þú sendir spurningum um það hvort félagsmenn séu tilbúnir að greiða Icesave í næstu viðhorfskönnun svo þú hafir þó viðhorf félagsmanna þinna sem þú ert að vitna í og vinnur fyrir, einföld já eða nei spurning væri eðlilegust í staðin fyrir einhverja snúna "trikk" spurningu.

Kv
Félagsmaður RSÍ

Guðmundur sagði...

Það hafa komið fram margar ályktanir frá RSÍ þar sem þess er krafist að gengið verði frá Icesave málum og þar með rutt úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi þess að atvinnulífinu verði komið af stað.
Ítreka það hefur engin kraifst þess að fá að borga Icesave, en mann hafa viljað standi við þær skuldbindinbgar sem íslendingar hafa undirritað. Einnig hefur verið á það bent að það sem íslendingar komi til með að þurfa að borga hafi verið mörg hundruð milljörðum minna en þeir þingmenn sem börðust gegn því að Ísland stæði við alþjóðlegar skuldbindingar héldu fram. Allt það er nú að koma fram. Allur þesis tíma hefur skaðað fjölda fyrirtækja og haldið mörgum inni á atvinnuleysislistum að óþörfu. Áberandi er að þeir sem hafa haft sig hvað mest í frammi gegn Icesave hafa verið í öruggri vinnu hjá hinu opinbera. Skömm sé þeim.

Albert Einarsson sagði...

Guðmundur. Ég get ekki verið meira sammmála þér. Ég bý í Noregi og hef gert lengi og er sem sagt ekki kreppuflóttamaður. Ég fylgist samt gjörla með málum heima en er ekki baðaður og gegnvarinn í þeirri daglegu "umræðu" sem þar fer fram. Þó svo að samanburður sé ekki alltaf réttlátur og ekki allt fullkomið hérlendis í pólitískri umræðu þá kæmist enginn stjórnmálamaður í Noregi upp með þvílíkt lýðskrum og gengið hefur yfir íslendinga undanfarin ár. Það sem leiddi til hrunsins var vont en það sem við tók er varla hótinu skárra. Stjórnarandstaða á þingi og utan sem opinskátt vinnur skemmdarverk á störfum þings og þeirra sem eruað reyna að bjarga við málum. Með því er ekki sagt að allt sem ríkisstjórnin gerir og ákveður sé rétt, gott eða til gagns. En það verður ekki betra þegar óábyrg stjónarandstaða og lýðskrumarar halda áfram að vinna gegn ákvörðunum þings eftir að hafa orðið undir. Það bætir heldur ekki úr skák þegar lýðskrumarar innan raða stjórnarliða taka þátt í að eyðileggja fyrir eigin stjórn. Í Noregi virða stjórnmálamenn ákvarðanir þings og leikreglur og láta málin liggja ef þeir verða undir, en taka samt oft undir og vinna með því aldrei eru mál svo vond að ekki sé eitthvað gott. Venjulega leitar stjórnarandstaðan leiða til áhrifa og tekur þátt í launs mála. Það gerist sjálfsagt líka á Íslandi, en upphlaupin eru samt svo áberandi að manni virðist oft sem eitthvað allt annað liggi á bak við en málefnaleg andstaða - nefnilega lýðskrum og óheiðarleg stjórnmál. Það sem ríkisstjórnin, þingið og fólkið þarf er friður til þess að komast á réttan kjöl og þann frið þarf líka stjórnarandstaða innan og utan þings að taka þátt í að skapa. Það gerist aðeins með því að menn virði leikreglur og þar með að stjórnmál eru valdatafl.