miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Framboð til stjórnlagaþings - 7825

Við höfum tamið okkur slæma stjórnarhætti. Samfélag okkar er ekki byggt upp af skynsemi. Við verðum að tileinka okkar gjörbreytta stjórnarhætti og hefta möguleika ríkisvaldsins til þess að hygla sérhagsmunum og ganga gegn mannréttindum. Við þurfum að byrja með hreint borð eftir Hrunið og eigum að hefja þá ferð með nýrri stjórnarskrá. Hún nauðsynleg til að skýra stjórnkerfi landsins. Stjórnarskráin er ekki ástæða þess hvernig við Íslendingar höfum haldið á málum okkar, en hún hefur reynst stjórnmálamönnum hentug til að tryggja sér völd.

Við eigum einkalíf með fjölskyldu, vinum og starfsfélögum, en verðum að gera margt saman í samfélaginu. Á nokkrum áratugum höfum við byggt upp samfélagskerfi af svo miklum hraða og krafti að ekki stendur steinn yfir steini. Siðferðið hefur setið á hakanum á meðan yfirborðsmennskan hefur orðið hið ráðandi afl. Ef við viljum ná betri þroska verðum við að taka umræðusiði okkar til rækilegrar endurskoðunar og setja okkur reglur sem miða að því að yfirvega lífshætti okkar og breyta þeim svo að börnum okkar finnist eftirsóknarvert að lifa í þessu landi. Leggja grunn að mannsæmandi lífi og koma í veg fyrir hinar endalausu deilur.

Fyrsti áfanginn gæti verið að yfirvega í alvöru, og ekki einungis lögfræðilega, hina dönsku stjórnarskrá frá 1944. Markmiðið á að vera að ný stjórnarskrá endurspegli þær reglur sem við viljum hafa við að leiða sameiginleg mál farsællega til lykta. Valdið sé hjá fólkinu og það geti leitt mál sín til lykta eftir reglum og leiðum sem það sjálft virðir. Tryggja þarf rétt fólksins til þess að grípa inn þróun mála og geti vísað málum til þjóðaratkvæðis. Skerða þarf veldi stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka og setja ýtarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum.


Mannréttindakaflann þarf endurskoða og setja fremstan í nýja stjórnarskrá.

Vald forsetans þarf að skýra og tryggja. Setja þarf ákvæði í stjórnarskrána um rétt forseta til að mynda utanþingsstjórn, takist Alþingi ekki að mynda starfhæfa stjórn.

Tilskilinn hluti kjósenda þarf að geta vísað lagafrumvörpum til þjóðaratkvæðis. Girða þarf fyrir getu Alþingis til að ganga gegn vilja fólksins í landinu, jafnframt þarf að setja ákvæði sem skerða veldi stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka.

Aðskilja þarf löggjafa- og framkvæmdavald og hindra að of mikið vald safnist á fáar hendur. Fækka á þingmönnum í 33 og ráðherrar ekki fleiri en sjö eða átta og sitji ekki á þingi.

Setja á ýtarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum, og lögvernd hans. Endurskoða þarf ákvæði um náttúruna og vernd hennar.

Kjördæmaskipaninni þarf að breyta, svo að landið verði eitt kjördæmi.


Núverandi hafði ekkert með Hrunið að gera. En ný stjórnarskrá getur verið gott skref til þess að byrja með hreint borð. Stjórnmálin eru löskuð og þurfa að ná til þjóðarinnar á ný, það er gert með því að gera gagngerar breytingar á stjórnskipaninni í stjórnarskrá og senda með því skýr skilaboð um nýtt upphaf og nýja siði.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til Stjórnlagaþings og er með auðkennisnúmerið 7825.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott er!

styð þig. Sakna þó skoðana þinna á þjóðkirkjunni, og þá sérstaklega veru hennar í Stjórnarskrá.

kv,
Gunnar G