mánudagur, 29. nóvember 2010

Sósíalismi andskotans

Það er eins og stjórnmálamenn læri ekkert. Þeir böðlast áfram í eigin veröld blindaðir af kjördæmapoti og atkvæðaveiðum. Við erum allmörg sem höfum bent á að það er ekki til endalaus orka hér á landi, auk þess að verðgildi hennar mun líklega tvöfaldast á næsta áratug. Djúpboranir eru í dag ekki raunsær möguleiki, tæknin er ekki til. Fyrir liggur sú staðreynd að háhitasvæði má ekki nýta í botn, þá hverfur hitinn og svæðin verða orkulaus á 40 – 50 árum og þurfa þá líklega um 200 ár til þess að jafna sig.

Við höfum dæmi fyrir okkur hvernig óbeislaðir stjórnmálamenn eru búnir að leggja gott fyrirtæki í eigu almennings í rúst. Orkuveitan. Þingmenn vilja að Landsvirkjun skuldbinda sig til þess að afhenda orku til álvers við Húsavík. Það liggur fyrir að það er ekki raunsætt miðað við þekkingu á orkuvinnslu að byggja stærra álver en 250 þús. tonn. Hraðasta uppbygging þess getur verið 8 ár. Ef skynsamlega væri haldið á spilum þá á að láta kaupandann taka áhættuna af því hvort næg orka finnist.

En úr því ég er farinn að tala um stjórnsýslu og þingmenn í kjördæmapoti langar mig til þess að velta upp fleiri spurningum. Það vakti því athygli mína þegar það kom fram í fréttum að uppi hafi verið hugmyndir um að ríkið leggi 1000 miljónir í hafnargerð í Helguvík. Þegar höfnin í Straumsvík var byggð sá ISAL um og kostaði alla framkvæmdina, notaði síðan höfnina án hafnargjalda í 25 ár en afhenti þá Hafnarfjarðarhöfn, höfnina til fullrar eignar. Samkvæmt mínum upplýsingum er um svipað að ræða í Reyðarfirði. Er ekki eðlilegt að Norðurál leggi til fjármagn til að breyta höfninni?

Nú standa yfir deilur um SV línu og SV endi þeirrar línu, endar í sjö km. löngum jarðstrengjum. Þessir jarðstrengir koma til vegna staðsetningar verksmiðjunnar á nesi sem er að mestu lokað af, af flugbrautum Keflavíkurflugvallar og útilokað er að fara með svo stórar loftlínur við enda flugbrautanna. Svona jarðstrengir (220 KV) eru mjög dýrir og samkvæmt mínum upplýsingum kostar hver km yfir 300 miljónir.

Það á að leggja tvö sett (þrír einleiðara strengir í settinu), en áður en verksmiðjan verður fullbyggð, þarf að leggja þriðja settið. Kostnaður við þessa jarðstrengi gæti því numið hátt í 7000 milljónum króna. Áætlað er að Norðurál borgi aukakostnaðinn af þessum jarðstrengjum, umfram loftlínur. Rekstraröryggi jarðstrengja er minna og reksturskostnaður mun hærri ef borið er saman við loftlínur. Ljóst er að þessi aukakostnaður fellur til vegna staðsetningar verksmiðjunnar og því mikilvægt að hann verði greiddur af eigendum hennar en falli ekki á almenning.

Nú stendur til að ríkisfyrirtæki endurbyggi herspítala á vellinum, nánast frá grunni. Samkvæmt mínum upplýsingum er búið að rífa nánast allt innan úr húsinu. Ef leigutakanum mistekst að markaðssetja verkefnið, þá á ríkið fjórar ónotaðar skurðstofur á Suðurnesjum. Hverjir eiga að borga þennan kostnað, mun hann lenda á almenning? Hafa þingmenn enn einu sinni gleymt sér á vaktinni blindaðir af kjördæmapotinu?

Þegar ríkið leggur fé í uppbyggingu einkafyrirtækja hefur verið nefnt Sósíalismi andskotans, en núna virðast stjórnmálamenn þess flokks hélt uppi þeim mótmælum vera kominn í framsveit þessarar gerðar Sósíalisma.

Engin ummæli: