Þeir stjórnmálamenn sem voru við völd þegar gengi krónunnar hrundi og Seðlabankinn varð gjaldþrota, fara nú mikinn og telja lægstu laun til skammar fyrir verkalýðshreyfinguna og bera sig við að koma sökum á hana. Í raun eru þessi menn að upplýsa okkur um hversu slök þekking þeirra er á hagsstjórn. Kaupmáttur hefur ekki hrapað vegna lakra kjarasamninga, heldur vegna rangrar efnahagsstjórnar stjórnmálamanna. Þeir hafa ítrekað nýtt krónuna til þess að leiðrétta eigin efnahagsmistök með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning og stórkostlegum eignatilfærslum til hinna efnameiri.
Samtök launamanna hafa á undanförnum áratugum ítrekað þurft að grípa til varna vegna skerðingar stjórnvalda á bótum almannatrygginga, þrátt fyrir það halda stjórnmálamenn því fram að þessar bætur séu allt of lágar og bera sakir á aðra. Sömu stjórnmálamenn og sviku umsamda hækkun persónuafsláttar um síðustu áramót, telja nú að verkalýðshreyfingin hafi ekki staðið sig í að verja kjör hinna lægst launuðu.
Þjóðmálaumræða einkennist þannig af lýðskrumi, upphrópunum, sleggjudómum og falsi. Umræðan á Alþingi einkennist af aulabröndurum, útúrsnúningum og átakastjórnmálum og ekkert miðar. Samtök launamanna gengu fram fyrir skjöldu við Hrun og lýstu yfir vilja til þess að ganga með stjórnvöldum og öllum aðilum vinnumarkaðsins til lausnar á þeim vanda sem við blasti. Alltaf og alls staðar í öllum málum fela stjórnmálamenn getuleysi sitt bakvið skrumið. Yfirlýsingar stjórnvalda um endurreisn atvinnulífsins í Stöðugleikasáttmála voru sýndarmennska og virðist aldrei hafa staðið til að standa við þann samning. Það skortir samráð innan ríkisstjórnarinnar, milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar og milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.
Kröfur um launahækkanir eru háværar ásamt því að tekið verði með festu á efnahagstjórn og gjaldmiðilsmálum til framtíðar. Verði það ekki gert mun það taka Ísland langan tíma að vinna sig tilbaka upp úr aðsteðjandi vanda og Ísland stefnir í að verða láglaunasvæði til óþarflega langs tíma. Félagsmenn stéttarfélaganna gera kröfur um að grípið verði til harkalegra aðgerða til þess að reka stjórnmálamenn upp úr hjólförum doðans til raunsærra aðgerða. Þjóðarsátt verður ekki gerð nema með aðkomu launafólks, ekki með innistæðulausum yfirlýsingum og skrumskældum veruleika.
Það er óhjákvæmilegt að endurskoða lögum um vinnustöðvanir og fá þar inn sambærileg ákvæði og tíðkast í nágrannalöndum okkar um pólitíska mótstöðu launamanna, ef stjórnvöld sýna andvaraleysi í veigamiklum málum. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum einbeitt sér að fagpólitík án stjórnmálatengsla, en hefur ekki náð ásættanlegum árangri í deilum í mikilvægum málaflokkum, það kallar á breytta vinnuhætti.
9 ummæli:
Þetta er athyglisverð hugmynd um breytingu á lögum um verkfallsheildir og með því róttækara sem hefur komið frá verkalýðshreyfingunni lengi - verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðunum við þessari hugmynd
Gylfi
Sammála Gylfa
Kv Ingi
Þetta er hárrétt greining. Niðurstaðan athyglisverð og full þörf á því að breyta lögum um verkföll
Halla
Hafðu heill mælt, Guðmundur. Sá einmitt í dag vælið í Vilhjálmi Egilssyni um að bætur væru orðnar OF HÁAR! Gæti nú ekki verið að lágmarkslaunin væru ALLTOF LÁG? Og skattleysismörkin áttu ekki satt að hækka? Svikið eins og allt annað. Já, launþegasamtökin verða að taka á, að öðrum kosti verður ekkert gert af viti.
Ætla enn einu sinni að benda fólki á að það er tilgangslaust að senda hingað svívirðingar um fólk. Þá er það ekki birt.
Sannleikurinn svíður stundum?
frá mínum sjónarhóli séð bygist þetta allt á því að tala minna og gera meira og helst fá menn sem hafa vit á þessu ekki eitthverja líffræðinga (svo dæmi sé nefnt) og annaðskonar fólk
Öndvegis pistill!
Eiríkur
Já það er rétt sannleikurinn svíður stundum og sá sannleikur sem Guðmundur dregur hér upp er aldeilis frábær greining.
Skrifa ummæli