fimmtudagur, 25. nóvember 2010

Nauðhyggjan við völd

Nú á að reyna ná öllum aðilum saman að einu borði og gera nýjan sáttmála. Á fundum sem ég hef verið undanfarnar vikur með launamönnum er það greinilegt að menn hafa ekki skipt um skoðun á þeim forsendum sem voru fyrir því að víðtæk samstaða náðist um Stöðugleikasáttmála. En meðal launamanna er mikil reiði gagnvart stjórnmálamönnum hvernig þeim tókst að klúðra þeirri niðurstöðu.

Purkunarlaust lítilsvirtu alþingismenn samstöðu launamanna og gerðu gys að henni með aulabröndurum. Opinberuðu getuleysi til nauðsynlegrar ákvarðanatöku, og eyddu verðmætum tíma í lýðskrum og það eitt að koma sökum á aðra, þá helst samtök launamanna á almennum markaði. Þetta hefur vitanlega leitt til þess að í dag er svo komið að ekkert traust ríki milli aðila og það þarf margt að gerast af hálfu stjórnvalda ef takast á að koma á sameiginlegum kjarasamningum.

Afleiðingar getuleysis þingmanna blasir við, vaxandi fjöldi fólks er að fara úr landi. Það vildi taka þátt í endurreisn landsins, en ætlar ekki að búa lengur við ríkjandi ástand átakastjórnmála hér á landi. Taktu eftir lesandi góður, það er ekki atvinnulaust fólk sem er að fara, það er fólk sem er velmenntað og er eftirsótt á vinnumarkaði.

Hér er fylgt leið nauðhyggjunnar að venju íslenskra stjórnmálamanna og stefnt að því að hækka skatta og skera niður. Ekkert er að gerast á þeim vettvangi að skapa störf og auka við kaupgetu almennings og hjálpa hagkerfinu í gang. Alþingi kom í veg fyrir að leysa Icesave, og nú þykjast alþingismenn vera að uppgötva hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir atvinnulífið.

Fyrir lá samningur sem var með endurskoðunarákvæðum sem tók tillit til hvar uppgjör Landsbankans myndi á endanum lenda, þannig að það er ekkert nýtt sem er nú upp á því samningsborði. Þetta mun leiða til þess að Ísland mun tapa út úr hagkerfinu á næstu árum sem svarar einni landsframleiðslu.

Hér má benda á marga pistla á þessari síðu síðasta ár, þar sem vitnað var til ummæla allra forvarsmanna helstu tæknifyrirtækjanna. En lélegir fréttamenn telja þetta eitthvað nýtt sem er að koma upp yfirborðið núna.

Sveitarfélögin sjá einungis hina billegu og óábyrgu Orkuveituleið, það er að auka tekjur með 25% hækkun gjaldskrár, ekki er tekið tillit til þess að heimilin þurfa líka 25% hækkun til þess að geta varið kaupmátt sinn. Nei - heimilunum er gert að taka á sig þau vandamál sem misvitrir og getulausir stjórnmálamenn hafa skapað.

Það eru tæknifyrirtækin sem hafa verið að bæta við sig mannskap og segja að það sé vöntun á starfsfólki með tækniþekkingu. En á sama tíma leggja nauðhyggjustjórnmálamenn fram tillögur um að skera niður kvöldskóla og leggja niður starfsmenntadeildir. Með öðrum orðum að skera á þær leiðir sem fólk á vinnumarkaði hefur getað nýtt til þess að mæta þörfum fyrirtækjanna. Þetta er að leiða til þess að hafinn er innflutningur á erlendum tæknimönnum.

Sé litið til heildarhagsmuna er langtímasamningur bestur, en þá þurfa allir að starfa af heilindum og traust að ríkja milli aðila. Tryggja verður meiri stöðugleika og kaupmátt. Launahækkanir verða að ná til allra. Bæta má stöðu þeirra lægst launuðu sérstaklega í gegnum skerðingarmörk bótakerfisins og frekari tekjutengingar.

Jafna verður lífeyrisrétt landsmanna, endurskoða skattahækkunaráform. Frídögum fyrir veikindi barna verði breytt í réttindi fjölskyldunnar. Stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum flutt aðhlynningu sjúkra inn á heimilin og þau sitja með það óbætt. Stöðva verður kennitöluflakk og um leið vaxandi svart hagkerfi. Færa staka frídaga í miðri viku að helgum eins og gert hefur verið í nágrannalöndum, um leið að tryggt verði að þessi frí glatist ekki lendi frídagar á löghelgum dögum og það verði til lengingar á orlofi. Aðfangadagur verði frídagur launamanna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afskaplega góð og skorinorð grein hjá síðuhaldara, eins og raunar oft áður. Hef í raun engu við þetta að bæta. Takk fyrir.