laugardagur, 30. apríl 2011

Staða kjarasamninga

Nú er kominn upp algjörlega ný staða í kjarasamningum. Miðvikudaginn 13. apríl hafnaði SA enn einu sinni að draga tilbaka þá fyrirvara sem samtökin höfðu sett um að forsenda kjarasamninga væri ásættanlega niðurstöðu í kvótamálum að mati LÍÚ. En á þessum forsendum höfðu þeir dregið fæturna við gerð kjarasamninga mánuðum saman.

Þar var um var að ræða tilboð um 3ja ára kjarasamning með 11,7% kostnaðarauka, ekki var búið að ganga frá breytingum á launakerfum og kostnaðarauka vegna þess, en fyrir lá að sá kostnaðarauki yrði um 1 – 2%. Föstudaginn 15. apríl höfnuðu þeir að standa áður gefið loforð um að gera 6 mánaða skammtímasamning nema að í honum væru ákvæði um fyrirvara LÍÚ.

Þremur dögum síðar gengur SA til samninga við 4 stéttarfélög, þar á meðal RSÍ, með 15,7% launahækkun, og þar af eru 13,8% það sem kalla má almenna launahækkun og 2% vegna bónuskerfa sem byggja á ábataskiptakerfum. Jafnframt var samið um afturvirkni til 1. janúar 2011 í stað 1. mars, eða fimm mánuði í stað 3ja mánaða. Í þeim samning voru engir fyrirvarar frá LÍÚ. Þessi samningur var alfarið í samræmi við kröfur iðnaðarmannafélaganna og Verkalýðsfélagið á Akranesi féll frá öllum sínum sérkröfum.

Í gær fór fram einhliða gengdarlaus áróður m.a. í fréttastofu allra landsmanna af hálfu SA um þessi mál. Þar var farið með rangt mál, m.a. ekki minnst á að enn væri inn í þeim samningum sem SA væri að bjóða sömu fyrirvarar af hálfu LÍÚ. Gert var lítið úr Elkem samningnum, en þar eru launahækkanir sem skiptast þannig að á þessu ári koma 8,5%, árið 2012 koma 3,3% og árið 2013 koma 3%, samtals eru þetta 15,7%.

SA bauð í gær upp áframhaldandi þref næstu vikurnar um breytingar á launkerfum og um fyrirvara LÍÚ. Á þetta fallast launamenn ekki. Samtök launamanna á almennum vinnumarkaði hafa sýnt mikil heilindi og mikla þolinmæði gagnvart vandræðagang SA og LÍÚ.

Þess vegna hafa samtök launamanna sett fram kröfu um eins árs samning með sömu afturvirkni og var í Elkem samningnum og 4,5% launahækkun. SA og LÍÚ geti þá athugasemdalaust af hálfu launamanna haft svigrúm til þess að ljúka sínum málum og síðan megi í haust hefja vinnu við gerð 3ja ára samnings sem taki við í janúar á næsta ári. Ef SA fellst ekki á þessa leið hefst allsherjarverkfall 25 maí næstkomandi.

2 ummæli:

Soffía Sigurðardóttir sagði...

Ef SA heimtar áfram "útspil" frá ríkisstjórninni, þá geta þeir kannski fengið kjarasamninga setta með lögum. Forsetinn þarf bara að neita að skrifa undir þau og þá verða þau borin undir þjóðaratkvæði!

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála þér.
Það hvefur verið skelfilegt að horfa upp á og hlusta á hvernig fulltrúar SA telja sig ráða öllu ferlinu og hafa öll vopn í hendi.
Nú er bara komið nóg.
Ef ekki verður stigið fast niður núna mun það skemma fyrir verkalýðsbaraáttunni í mörg ár.