sunnudagur, 1. maí 2011

1. maí

Eftir Hrunið hefur það opinberast berlega hversu harkaleg baráttan um völdin er hér landi og hvernig hún hefur heltekur nánast allt samfélagið. Þjóðin hefur látið í ljósi þá ósk að Hrunið muni leiða til nýs upphafs og hún vill siðbót og fá til baka þau völd sem safnast hafa á hendur fárra.

Það er bæði fólgin gleði og sorg í því að fylgjast með þessari þróun. Gleði yfir tilraun fólks til þess að stuðla vitrænni umræðu og þvinga fram viðsnúning. En samfara því hefur verið flett ofan af ormagryfjunni og hversu langt sérhagsmunahóparnir eru tilbúnir að ganga í að tryggja óbreytt ástand. Þetta birtist t.d. í átökum um auðlindir og sjávarútveg og er í raun helsta bitbein í yfirstandandi kjarasamninga án þess að almenningur hafi áttað sig á því.

Einræðisríki einkennast af því að þar hafa valdhafarnir og fjölskyldur þeirra gefið sjálfum sér allir auðlindir þjóðarinnar og lifa í vellystingum og praktulegheitum, á meðan lýðurinn dregur fram lífið á lágum launum. Ísland er eina landið í hinum vestræna heimi þar sem fáir fengu auðlindir þjóðarinnar gefins og hafa hagnast gríðarlega.

Nú fer lýðræðisbylgja um einræðisríkin sunnan Miðjarðarhafs og hefur óvænt borist hingað norður og með þeim afleiðingum að almenningur þvælist fyrir við afgreiðslu kjarasamninga.

Þessi skyndilega og óvænta lýðræðisást íslensks almúga kemur valdhöfunum fullkomlega í opna skjöldu. Hverslags andskotans frekja er þetta, að sætta sig ekki við hafa í öllum kjarasamningum ákvæði um að þeir falli úr gildi, gerist stjórnvöld svo kræf að hrifsa frá LÍÚ þeirra eigin prívatauðlindir og vilji að samfélagið fái af þeim arð, svo ekki þurfi að hækka skatta, loka leikskólum og elliheimilum. Svo maður tali nú ekki um þá heimtufrekju lýðsins að heimta að hér verði skrifuð ný stjórnarskrá, sem taki af öll tvímæli um að það sé þjóðin sem eigi auðlindirnar. Úrskurður var pantaður frá Hæstarétti, en það dugði ekki.

Íslenska ríkið stendur á brauðfótum og við verðum að fara að hugsa saman, heildstætt. Við þurfum ekki fleiri sérfræðinga til þess að úthugsa fleiri bellibrögð og undanskot frá skyldum alþjóðasamfélagsins. Nú þarf að rækta jöfnuð og hugsa skýrt. Víkja öllu moldvirðinu frá sem villir okkur sýn. Standa vörð um samfélagsleg gildi og rækta þau. Greina það hvert við viljum stefna og hver markmið okkar séu.

Í framtíðinni mun skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis og vinna við endurnýjun stjórnarskrárinnar standa uppi sem eftirminnilegasti atburður Hrunsins. Viðbrögð aðalleikenda og valdahópanna voru fyrirsjáanleg, svo einkennandi fyrir íslensk stjórnmál. Skýrsluhöfundar tóku fram að það sárasta við samantekt skýrslunnar hafi verið hin fullkomna afneitun allra sem þeir kölluðu til sín í yfirheyrslur. Það kallar á vangaveltur um hverskonar kennsla fari fram í Háskólum landsins. Þaðan komu allir aðalleikendur í þeim leik sem leiddi samfélagið fram af hengifluginu með skelfilegum afleiðingum.

Krónan hefur afgerandi áhrif á kjör launamanna og hvernig hún nýtt reglulega af stjórnvöldum til þess að ónýta kjarasamninga. Það virðist ekki skipta suma neinu þó valdahóparnir flytji rekstrartap yfir á launamenn með miklu kaupmáttarhruni og stökkbreytingum skulda. Þá birtast menn sem Bjartur í Sumarhúsum með mannfyrirlitningu, sjálfbirgingshætti og þjóðrembu.

Upp á himinn fjölmiðla og spjallþátta hafa skotist einstaklingar, sem hafa borið þungar sakir á aðra og kennt þeim um ófarir sínar. Oftast hefur komið í ljós að viðkomandi einstaklingar eru þekktir óreiðumenn og með langa slóð kennitöluflakks. Við starfsmenn stéttarfélaganna þekkjum allvel til nokkurra af þessum einstaklingum vegna vandræða sem félagsmenn okkar hafa lent í vegna óuppgerðra launa eða kjaratengdra atriða. Áberandi er að þeir sem eru hvað harðastir í dómum um verkalýðshreyfinguna eru undantekningalítið einstaklingar sem ekki eru félagsmenn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Græðgi hefur markað för og krafan hefur verið endalaus velgengni. Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar vantrú leiðir för. Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi.

Við megum ekki missa þennan styrkleika niður og verðum að láta þá réttlætiskennd sem kristilegt hugarfar einkennist af varða leið okkar. Og nú er baráttudagur launamanna og þjáður lýðurinn fer fram í þúsund löndum og boðar ragnarök. Fúnar stoðir verði burtu brotnar og liði fylkt. Fjötrar brotnir og byggt upp réttlátt þjóðfélag. Því Internationallinn muni tengja íslenskar strendur við aðrar strandir lýðræðisbylgjunnar.

4 ummæli:

Viðar Ingvason sagði...

Góður pistill hjá Guðmundi.
Nú er komið að lokaorrustunni um Ísland, dugar ekkert annað en verkföll og alvöru mótmæli ef á að takast að hindra valdaráni mafíunnar. Ríkisstjórnin má sín lítils gegn sameinuðum mafíuhópum fjármálabraskara og auðlindaræningja, kemst ekkert áleiðis án stuðnings almennings. Nú er ögurstund, almenningur verður að rísa upp og ráðast gegn mafíunni. Ef mafían hefur sigur nú er skynsamlegast fyrir venjulegt fólk að yfirgefa landið.

Vilhjálmur sagði...

Þetta er ræða dagsins og ég segi þetta frá hjartanu.

Jónína Óskarsdóttir sagði...

Takk!

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir þessa grein Guðmundur. Já og þakka þér fyrir gott starf á undanförnum árum í þágu launafólks. Þín verður saknað úr framvarðasveitinni.