miðvikudagur, 13. júlí 2011

ESB að hrynja?

Nokkrir halda því fram glaðhlakkalegir að nú sé ESB að hrynja, og vísa máli sínu til stuðnings á ástandið í Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Írlandi. Því er haldið fram að efnahagsstaða þessara landa sé afleiðing þess að þau gengu inn í ESB. Hér er heldur betur verið að snúa hlutunum á haus.

Efnahagsleg staða allra landa er bein afleiðing efnahagsstjórnunar viðkomandi lands. Ef land býr við pólitíska spillingu og óráðssíu reistri á lýðskrumi, með öðrum orðum stjórnmálamenn sem lofa meiru en þjóðin hefur efni á, þá fer efnahagsstaða landsins í vanda, sama hvort það hefur Evru eða einhvern annan gjaldmiðil. Þessu hefur oft verið bjargað með efnahagsaðstoð frá öðrum löndum, en nú er svo komið að skattborgarar þeirra landa segja hingað og ekki lengra. Framangreind lönd væru í enn verri stöðu en þau eru nú ef þau væru utan ESB.

ESB hefur fylgt þessum kröfum og gert stjórnmálamönnum þessara landa að taka ábyrga afstöðu. Skera niður útgjöld ríkisins eða hækka skatta. Viðkomandi stjórnmálamenn hafa hingað til vikið sér undan þessari ákvarðanatöku, sem hefur orðið til þess að staðan nú svo alvarleg að snarminnka verður útgjöld, minnka lífeyrisskuldbindingar og hækka auk þess skatta svo hægt sé að greiða upp þær skuldir og skuldbindingar sem óábyrg vinnubrögð fyrrverandi stjórnmálamanna hafa leitt yfir viðkomandi þjóð. Sú mikla breyting á aldurssamsetningu þjóðanna sem blasir við á næstu árum gerir það að verkum að ekki verður vikist undan því að taka á vandanum. Hér á ég við að skattgreiðendum fækkar sífellt hlutfallslega.

Hér á landi telja nokkrir að við séum lánsöm og laus við þennan vanda, sakir þess að við höfum sjálfstæðan gjaldmiðil sem hægt sé gengisfella. Þar með hverfi efnahagsvandi þjóðarinnar. En í raun erum við í nákvæmlega sömu stöðu og framangreindar þjóðir.

Ísland hefur búið við spillta stjórnmálastétt og sérhagsmunahópa sem vilja tryggja áframhaldandi aðkomu sína í sameiginlega sjóði landsins og gengistryggða afkomu með tollamúrum. Það má skilja á nálgun nokkurra að það sé ESB sem sækist eftir því að við göngum inn, hið rétta er að við fáum ekki inngöngu nema að við uppfyllum kröfur um stöðugleika í efnahagsstjórn.

Nú er svo komið að íslenskir launamenn hafna í vaxandi mæli þessari leið, ef ekki með atkvæðum þá með fótunum og brottflutning. Hvers vegna? Jú á nákvæmlega sömu forsendum sem raktar eru hér framar. Íslenskir stjórnmálamenn hafa hingað til komist upp með að vísa í gegnum gengisfellingar halla hagkerfisins til heimilanna og í vasa launamanna. Með gengisfellingu er hluti launa almennings gerður upptækur og flutt fjármagn til fárra. Auk þess taka skuldir heimilanna stökkbreytingum.

Þegar Þjóðhagsstofnum benti hvert stefndi var hún lögð niður með manni og mús af þáverandi forsætisráðherra. Þetta leiddi til þess að Hagstofa Íslands horfði í aðra átt á meðan ójöfnuður óx og Fjármálaeftirlitið horfði aðgerðalaust á hvert stefndi og höfundar efnahagsstefnunnar höfðu komið sér fyrir í Seðlabankanum og settu hann kyrfilega á hausinn. Þetta stendur á mörgum stöðum í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Ástæða þess er ótti við að lenda í sömu ruslatunnu og Þjóðhagsstofnun.

Þetta setur Ísland auk þess í þá stöðu að við verðum að þola ofurvexti og verðtryggingu. Verðtrygging er afleiðing þess að engin treystir krónunni fyrir næsta horn. Það gildir einu hvort við héldum áfram í okkar krónu eða skiptum um gjaldmiðil, ástandið mun ekkert batna fyrr en tekið verður á efnahagsvanda þjóðarinnar af alvöru. Tekið á verðbólgu, viðvarandi halla, miklum skuldum þjóðarinnar og ríkistryggðum lífeyrisskuldbindingum. Opnun hagkerfisins fyrir erlendri fjárfestingu, aukinni verðmætasköpun og vaxandi útflutning.

Menn strika ekki út háa verðbólgu, sveiflur í efnahagslífi, okurvexti, verðtryggingu, hátt vöruverð, slakan kaupmátt og segjast ætla að taka upp laun eins og þau eru best í nágrannalöndum okkar, henda verðtryggingu og lækka vexti. Það hefst ekki nema með stórbættri efnahagsstjórn landsins, þar skiptir gjaldmiðillinn eða aðild að ESB ekki meginmáli. Þar ráða stjórnvöld landsins og ákvarðanataka Alþingis á hverjum tíma. Von manna hefur staðið til þess að innganga í ESB myndi þvinga fram þessar aðgerðir. Spilling og völd sérhagsmunahópanna er orðin svo víðtæk.

Minna má á hvað Norðurlöndin sögðu við þáverandi ríkisstjórn og stjórn Seðlabanka fyrri hluta árs 2008; Hingað og ekki lengra íslendingar. Þið fáið ekki frekari aðstoð frá nema þið takið á vandamálum ykkar. Auk þess má minna á aðvaranir frá hagdeildum aðila íslensks vinnumarkaðsins á þessum tíma.

Þáverandi ráðherrar okkar hlustuðu ekki þær aðvaranir og síðan var lagst í þær umræður að saka ráðamenn í nágrannalöndum okkar um að þeir væru að valda efnahagslegum vanda hér á landi með því að hafna því að láta okkur hafa meiri peninga, Norðurlöndin væru okkur óvinveitt!!??

Ef farið hefði verið að þessum ráðum strax árið 2007 þá værum við í allt annarri stöðu. Heimilin skulduðu mun minna og við hefðum verið í stöðugum hagavexti eins og hin norðurlöndin hafa verið frá því að botni hagsveiflunnar var náð haustið 2008.

24 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.

Um þetta málefni er það einna helst að segja, að þjóðir voru mis vel undir það búnar, að ganga inn í ESB, jafnvel EES. Svisslendingar, ein hátæknivæddasta ríki veraldar, með hátækniiðnað sem styttu annara starfsemi þar, hætti við inngöngu í EES og stöðvaði samningaferlið um inngöngu í ESB, heldur breytti því í ,,Tvíhliða viðræður um viðskipti" þar sem Fjórfrelsið kemur hvergi við sögu. Þetta gerðu þeir svo þeir mættu áfram halda um stjórnvölin á útstreymi fjármagns, innstreymi fólks og fyrirtækja og til að stjórna því, hverjir gætu sett merkið ,,Made in Swiss" á framleiðsluvörur sínar.

Ég þekki nokkuð vel til í Portugal og vvar reynsla þeirra góð til að byrja með en þegar undanþágurnar runnu sitt skeið, tók alvaran við og útlendingar fengu að kaupa lendur sem áður voru skilgreindar sér Portúgölsk vegna legu þeirra, Strandhéruðin við mynni Miðjarðarhafsins og aðarar ,,hernaðarlega mikilvægar" lendur. Útlendingarnir settu þarna upp hótel og tóku nánast yfir ferðamannabransann en áður höfðu allmargar verksmiðjur verið keyptar og sumar fluttar til landa með lægri laun. Þetta hefur einnig gerst á Spáni og Ítlaíu. Ergo tekjur ríkjana fallið en kostnaður hækkað.

Ef menn skoða okkar stöðu, með tilliti til EES hefði Hrunið ekki geta orðið ef ekki hefði verið Fjórfrelsi, svo mikið er klárt.

Nafnlaus sagði...

Enn einn lofgerðarpistillinn um ESB þar sem að gefið er í skyn að ESB sé hreinlega fyrirheitnalandið og það n.b. ÁN nokkurra galla.

Skv. þessum pistlum þýðir ESB aðild og upptaka Evru bókstaflega eilífa efnahagslega alsælu þar sem fátækt er ekki til, og þar sem að efnahagskreppur verða eitthvað sem bara er til í sögubókum.

Guðmundur sagði...

Greinilegt að nafnlaus 13:04 hefur ekki lesið pistilinn. Það stendur nefnilega ekki stafkrókur um að ESB leysi okkar vanda, og það er rakið hver hann sé.

Er vonlaust að fá málefnaleg viðbrögð frá Heimsýnarfólkinu. Það eina sem það getur er hrópa rakalausar og innistæðulausar klisjur.

Jónas Bjarnason sagði...

Þetta er prýðileg grein, Guðmundur. Ég er henni alveg hjartanlega sammála.

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega sammála þér Guðmundur

Kv Þorgrímur

Nafnlaus sagði...

Guðmundur góður að vanda, kemur beint og millilalaust að kjarna málsins
Grímur

Nafnlaus sagði...

Sammála. Góð greining.
Kv. Kristinn

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, á milli línanna hjá þér fer ekki á milli mála að þú trúir því í einlægni að ESB-aðild og Evru-upptaka muni leysa hér allan efnahagslegan vanda til frambúðar, þar með talið vanda launafólks.

Hitt er svo að annað mál að ESB er að hrynja og það í beinni.

Ólíkt hruni bankakerfisins á Íslandi haustið 2008, er hrun ESB er bara eins og mynd sem er sýnd hægt, við sjáum hrun ESB lið fyrir lið í slow motion.

Guðmundur sagði...

Ef ESB hrynur sem ég hef ekki nokkra trú á, þá mun það skapa aftur þá stöðu að ójafnræði milli ríkjanna mun vaxa aftur og það gríðarlega mikið. Og þá fara menn líklega að velta fyrir sér hinni raunverulegu ástæðu fyrir upphaflegri ástæðu ESB á sínum tíma og undanfara þess.

Hvað varðar það að ekki sé hægt að setja fram stafkrók þar sem efnahagsstjórn undanfarinna áratuga er gagnrýnd án þess að fá tilbaka innihaldslausar klisjur þar mönnum eru gerðar upp einhverjar meiningar þá er viðkomandi að dæama sjálfan sig úr umræðunni.
Í þessum pistli ásamt mörgum öðrum eru raktar helstu ástæður fyrir því hvers vegna launamenn á almennum vinnumarkaði vilja breytta stjórn í efnahagsmálum.

En því er ætíð jafnharðan svarað með allskonar útúrsnúningi og dylgjum af fólki sem vill búa áfram að því að geta makað sinn krók á kostnaða fátækra launamanna.

Alltaf fæ ég jafnmikið óbragð í munninn þegar ég les réttlætingu þessa fólks.

Nafnlaus sagði...

Tek undir fyrri umsagnir, þessi pistill er virkilega góður og tekur vel á stöðunni.

Fullyrðingar nafnlaus 15:10 er ótrúlega aumt innlegg og greinilega skrifað af einhverjum sem vill viðhalda sem mestri eignatilfærlsu frá launamönnum til sérhagsmunahópsins.

Hann er meiri maður en svo að skrifa í skjóli nafnleysis.

Félagsmaður RSÍ

Nafnlaus sagði...

Mjög góð grein, Guðmundur. Algjörlega sammála innihaldi hennar. Ég tek undir áhyggjur þínar þess efnis að ekki sé hægt að ræða málefnalega um ESB-mál við einangrunarsinnana í Heimssýn.
Kv, Sverrir H

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur og aðrir lesendur.

Ég er eins og eflaust mjög margir aðrir, fylgist með skrifum á netinu og athugasemdum við þeim.
Þetta er í fyrsta skipti sem ég ákveð að gera athugasemd.
Vil þakka fyrir skrifin að undanförnu. Tel þau mjög mikilvæg innlegg. Yfirleitt eru athugasemdir málefnalegar, en mjög sorglegt þegar aðilar kunna ekki og/eða vilja ekki gera efnislegar athugasemdir heldur gera í brók sína.
Ég er að jafnaði mjög sammála þeim skrifum sem koma frá þér og hvet þig til að skrifa áfram. Þó ég sé ósammála einhverju sem þú skrifar, þá er það ekki síður mikilvægt (Man eftir tveim atriðum :-)). Málefnaleg umræða skiptir mjög miklu. Ég vil ekki gefa upp vonina að til verði nýtt Ísland.

Nafnlaus sagði...

Sá dæmir sig sjálfan úr leik sem ekki getur fjallað um það sem stendur í pistlinum, en vill frekar lesa eitthvað annað á milli línanna.

Sá sem þannig vinnur getur greinilega ekki svarað þeim rökum sem fram eru sett. Semsagt staðfestir allt það sem er í pistilinum.

Þessi pistill er með þeim rökfastari sem maður hefur séð um þessi mál.
Rúnar

Hrafn Arnarson sagði...

Vandamál Grikkja eru grísk vandamál. Hið sama gildir um Íra, Spánverja, Ítali og portúgali. Hagstjórn ríkjanna var ekki eins og átti að vera. Þetta er ein hlið málsins. Hitt er að ESB getur gekki látið Grikkland falla.Það hefði keðjuverkandi áhrif og myndi leiða til falls evrunnar. Þar eru miklir hagsmunir í húfi einkum og sérílagi þýskir. Þjóðverjar hafa hagnast gífurlega á evrunni. Útflutningur blómstrar sem aldrei fyrr. Þjóðverjar myndu tapa mestu. Á evrusvæðunu er ójafnvægi. Viðskiptajöfnuður þjóðverja er hagstæður og þeir lána öðrum löndum mikið fjármagn. Rétt eins og Kína, Sádi Arabía og Noregur. Önnur lönd lifa langt um efni fram og slá lán. Óþarfi að nefna nöfn. Á Spáni og á írlandi varð gífurleg þensla og verðbóla í byggingarbransa sem fjármögnuð var með þýskum lánum. Helmut Schmidt skrifaði í blaðagrein að lán þýskra banka hefðu á stundum verið gáleysisleg. Þetta ætti að hljóma kunnuglega.

Nafnlaus sagði...

marktækir hagfræðingar þýskir t. a. m. Hans-Werner Sinn leggja til að Grikkland yfirgefi Evrusvæðið í nokkur ár, taki upp fyrri gjaldmiðil sinn, drökmuna, nái nokkurri samkeppnishæfni & snúi ef til vill seinna til evrunnar. Allt tal um hrun Evrusvæðisins vegna erfiðleika Grikkja & Portúgala er innantómt bull. þýski idnaðurinn & útflutningurinn hefur haft gríðarlegan hag af evrópskum gjaldmiðli. Þýskir iðnjöfrar myndu aldrei taka í mál ad taka aftur upp DM, mynt sem frá fyrsta degi yrði sterkasti gjaldmiðill í Evrópu & myndi gera allan þýskan útflutning - BMW , Mercedes, Siemens & Co - óviðráðanlega dýran. Líklegasta úrlausn úr vandanum: "Kjarna-Evrópa" med DE, FR, NL, LUX & fáein sterk smáríki norðan Alpafjalla innan borðs. Nú þegar er verið að leggja drögin ad þessu framtíðar-skipulagi // Orri Ólafur Magnússon

Nafnlaus sagði...

Þakka góða og málefnalega umræðu og vona að þú haldir áfram að blogga svo lengi sem þú hefur vit og rænu til Guðmundur.

Mikilvægt er að halda í vonina að hér verði bygt upp betra land og heilbrigðari þjóðarsál.

Sérhagsmunahópar landsins safna liði sínu, fábjánaskríl og netheimatröllum, og hafa sagt skynsömu og heiðarlegu fólki stríð á hendur. Ekki gefa þeim neitt eftir.

Baráttukveðjur,
Freyr Björnsson

Nafnlaus sagði...

Sérlega hnitmiðuð og góð grein, Guðmundur, hafðu þakkir fyrir.

Hrun ESB eða Evrunnar er vissulega afar langsótt og býr fyrst og fremst í hugarheimi pólitískra óvildarmanna Evrópusamstarfsins. En efnahagsleg óstjórn sumra aðildarríkjanna hefur vissulega dregið fram alvarlega kerfisgalla í uppbyggingu sambandsins og Evrunnar þar sem "óreiðumenn" hafa óáreittir getað valdið heildinni meiri skaða en gert var ráð fyrir. En samhliða neyðaraðgerðum til stuðnings þeirra þjóða sem eru í vanda er ESB og aðildarþjóðirnar nú þegar að vinna að lagfæringu á þessum kerfisgöllum sem væntanlega verða komnar til framkvæmda áður en Íslendingar ganga til atkvæða um aðild.

Það er svo annað mál hvort Íslendingar telji hag sínum betur borgið með áframhaldandi frelsi stjórnmálamanna til að sukka í efnahagsmálum þjóðarinnar, eða hvort sá agi og stöðugleiki sem fylgir aðild að ESB og Evrunni sé fremur til heilla. Vonandi fáum við a.m.k. að greiða um það atkvæði.

J

Guðmundur sagði...

Til aths.ritara. Það er nauðsynlegt að menn haldi sér við það sem fjallað er í hverjum pistli.

Skítkast í garð starfsmanna stéttarfélaga og fleira í þeim dúr kemur þessum pistli ekkert við.

Nokkri virðast ekki átta sig á um hvað er fjallað í þessum pistli.

Til þess að skýra málið betur þá er í þessum pistli verið að benda á að það er efnahagstjórn, en ekki gjladmiðill sem skiptir öllu.

Sé litið til þeirrar efnahagstjórnunar sem íslenskir stjórnmálamenn hafa beitt þá er hún ansi slöpp og mikill skortur á aga og staðfestu, og þeir leiðrétta reglulega mistök sín með því að sækja fjármuni í vasa launamanna með gengisfellingum.

Nafnlaus sagði...

Hvað þarf til að náungar eins og Guðmundur átti sig á að ESB er engin lausn á vandamálum? ESB hefur sýnt fram á að sambandið er ekki sá stuðpúði sem allir héldu hann vera.

Danir eru hættir að treysta á sambandið, farnir að sinna eigin landamæravörslu.

Sænskir bankar eru farnir að gera það eina rétta, safna lausafé, þeir eru að búa sig undir kreppu, hrun.

Bretar vita ekki hvað þeir eiga að gera, þeir vita hváð er í aðsigi.

Írar, Grikkir, Spánverjar, Ítalir, Portúgalar og fleiri þjóðir eru að uppgötva að betur stæðu þjóðirnar innan sambandsins haf engan áhuga á að verja þetta tollabandalag lengur, betur stæðu þjóðirnar líta á Kína sem sinn helsta markað, en ekki evrópu. ESB er hnignandi markaður. Þetta tollabandalag er ekki að gera neinum gott lengur.

Ótrúlegt að samtök eins og t.d. Samtök Atvinnulífsins skuli ekki uppfræða þá sem eiga aðilda að samtökunum um hvað "Græna bók" ESB sé? Fólk ætti að lesa sér aðeins betur til.

Margir ESB sinnar töluðu alltaf um að það væri allt svo ódýrt innan ESB. Nú kostar t.d. kílóið af nautakjötinu 5000 kall í köben, en 4000 í melabúðinni, þorskurinn 2500 kall í stokkhólmi en 1800 kall í melabúðinni. Þessi áróður ESB sinna dugar ekki lengur.

Vextir eru víðast hvar í ESB löndum þar sem efnahagur er þungur að verða jafn háir og á íslandi, þar með er því hnekkt að með þvi að flagga bláa stjörnufánanum á Auturvelli muni vextir lækka sjálfkrafa, heldur eru vextir og gjaldmiðlar ekki það sem skiptir máli, heldur það sem á bakvið þessi hugtök standa.

Vonandi fer fram opin upplýst umræða, svo fólk geti séð fyrir sig sjálft hversu lítið varið er í ESB. Sif Friðleifs, og Össur Skarphéðins verða bara að sætta sig við að verða venjulegir sendiherrar þegar pólitísku lífi þeirra líkur, en kommissar staða í brussel er ekki raunhæfur möguleiki

Guðmundur sagði...

Mikið ofboðslega finnst mér gaman af því þegar menn geta ekkert fært fram málefnanlegt, annað en útúrsnúninga og svo leit af stafsetningarvillum.

Ef ég væri sá eini sem skrifar pistla á netið, sem lendi í innláttarvillum, mætti reisa af mér styttu upp í Hádegismóum.

Svona málflutningur staðfestir fyrir mér að þeir sem þannig skrifa eru fullkomlega rakalausir.

Nafnlaus sagði...

Í leit AÐ stafsetningarvillum en ekki í leit ,,af" þeim.

En þér finnst semsagt gaman ,,af" hinu og þessu, Guðmundur.

Þú um það.

Hitt er leiðinlegra að þú skrifir sjálfan þig fyrir pistli sem annar maður, bersýnilega margfalt ritfærari en þú, er höfundurinn að.

Þú eignar þér verk annars manns.

Það er fölsun.

Í eftirhljómi hennar verða allar þínar vandlætingar falskar.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 12:16 kemst í lægstu hæðir sem hér hefur verið skrifað í aths.dálkinn. Enda hefur sá sem það skrifar ekki meiri mann að geyma en að skrifa í skjóli nafnleysis.

Hver einasti pistill sem hefur verið birtur þessari síðu er skrifaður af mér, ég nýt engrar hjálpar við þau skrif, þetta er gert venjulega við eldhúsborðið hér heima á morgnana. Engin íslensku maður les yfir, ég les oft pistlana nokkur eftir að ég hef sett þá inn og hef leiðrétt innsláttarvillur og stundum gert orðalag skýrara.

Ég hef nú reyndar aldrei heyrt svona gagnrýni fyrr, en oft fengið hrós fyrir að geta komið umfjöllun um hagkerfið og kjaramál fram á vel skiljanlegu mannamáli og efti verið fenginn til þess að skrifa pistla í blöð og tímarit.

Nokkrum sinnum hef ég vísað í aðra einstaklinga og þá er þess getið.

En nafnlaus er á því lága stigi að geta ekki mótmælt með rökum umfjöllunarefni pistilsins og bregður þá á þennan þekkkta leik, sem reyndar er stundaður ákaft í skjóli nafnleysis, á tilteknum síðum, þá er farið að venju í manninn ekki boltann.

Frómt frá sagt er ég mjög ánægður að hafa komið viðkomandi í þessa stöðu, ég tel mig vita hver hann er. Hann er þekktur af pistlahöfundum fyrir svona framsetningu.

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þér Guðmundur þetta er óerkileg lágkúra sem hér kemur fram og vísa þá í fjölmargar aths. þar sem fram hefur komið, bæði hér og annarsstaðar, að pistlar þínir bera þess merki að þar er skrifað af þekkingu og sett fram rök. Ég svo sem ekki alltaf sammála, en það er annað mál. Þakka þér fyrir góða pistla og haltu áfram ekki láta svona ritdólga trufla þig.
Ásgrímur J.

Nafnlaus sagði...

Það eru nú velþekkt vinnubrögð Guðmundur hjá þeim hóp sem keyrði Ísland í þrot, að beita fyrir sig þeim vinnubrögðum að gera menn tortryggilega, þar sem þeir hafa engin rök.

Vinnubrögðum sem þú hefur lýst oft mjög vel og gerir það ágætlega í pistlinum um Murdoch og vinnubrögðum sem nú er beitt í fréttamennsku Moggans. Nú átt þú að vera komin með með einhvern leigupenna sem skrifar fyrir þig. Þvílíkt bull, þvílík lágkúra.
Kristinn