þriðjudagur, 19. júlí 2011

Murdoch-fréttamennska

Hún er ofarlega þessa dagana umræðan um fjölmiðlaveldi Ruperts Murdochs. Í gærkvöld var mjög góður þáttur í norska sjónvarpinu um þetta risavaxna fjölmiðalveldi. Þar var m.a. bent á að helstu fjölmiðlaveldi hingað til í raun verið áhrifavaldur í einni heimsálfu, en Murdoch væri kominn mun lengra með áhrifa mátt yfir nánast alla heimsbyggðina.

Sýnt var fram á að Murdoch hefði í raun einungis hagnaðarsjónarmið að markmiði, ekki hlutlausa fréttamennsku eins og hann léti óspart í veðri vaka. Hagsmunir almennings og mannréttindi skiptu hann engu. Þar var m.a. bent á hvernig hann hefði bakkað fyrir kröfum kínverskra stjórnvalda og lokað fyrir BBC þar sem fjallað var ítarlega um þá miskunnarlausu stjórnarhætti sem tíðkuðust í Kína.

Hleranamálið hefur ekki aðeins grafið undan trausti fólks á fjölmiðlaveldi Ruperts Murdoch, sem var takmarkað fyrir. Nú er víða fjallað um hvernig unnið er í fjölmiðlaveldi Murdochs. Í þættinum í gær var ítarleg umfjöllun um þau vinnubrögð sem ástunduð væru í BNA í fréttamiðstöð FOX. Viðtöl voru við fjölmargir einstaklinga sem fylgjast með fréttamiðlum og eins komu fram margir sem áður höfðu unnið hjá FOX.

Á hverjum morgni koma til fréttamanna FOX miðstýrðar tilskipanir um hvað eigi að leggja áherslu, hvað eigi að sniðganga og hverja eigi að gera ótrúverðuga. Í þættinum var farið ítarlega yfir hvaða brögðum sé beitt til þess að klæða purkunarlausan áróður FOX fyrir últra-hægri stefnu í hlutlausan búning. Stalínísk vinnubrögð var orðið sem ítrekað var notað af mörgum þessi „úlfurísauðagæru“ vinnubrögð.

Sýnt var fram á hversu áberandi væri að margar FOX fréttir byrja á orðunum „Margir segja“ – „Sagt er“ – „Kannanir sýna“ og síðan fabúlerað út frá því. Um 75% þeirra sem síðan var leitað til eftir áliti í fréttaímum og spjall á FOX voru yfirlýstir harðsnúnir hægri menn, hinir 25% voru undantekningalítið þekktir miðjumoðsmenn sem ekki vildu taka sjéns á að missa fylgi.

Ég hef oft notað orðið Sovétið í pistlum mínum þegar ég hef fjallað um svona vinnubrögð og lýst því að ekki sé hægt á sjá neinn mun á því hvert Sovétið leiddi sín þjóðfélög og hvert Nýfrjálshyggjan hefir leitt okkur.

Horfandi á þáttinn kom einhverra hluta vegna oft upp í huga minn hversu mikil samsömun var með því sem dregið var upp í þættinum um vinnubrögð Murdochs og hans undirsáta og svo umtalaðri núverandi ritstjórnarstefnu Moggans og hvernig umfjöllun fer þar fram. Reyndar víðar þá sérstaklega á einum tilteknum netmiðli, sem gefur sig út fyrir að vera einstaklega vandvirkur í fréttaumfjöllun, eins og reyndar FOX gerir líka í hverjum einasta fréttatíma.

Skelfing væri gott ef RÚV sjónvarp allra landsmanna keypti nú sýningarétt á þessum þætti, en margir segja, svo ég noti áðurnefnt, gagnrýnt og umtalað orðalag FOX, segja að stjórn RÚV sé svo hægri sinnuð að það myndi aldrei gerast að RÚV sýndi svona umfjöllun um FOX og Murdoch.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Reyndar minnir fjölmiðlasamsteypa Murdochs mikið á fjölmiðlasamsteypu Jóns Ásgeirs hér á landi, sem aftur á móti minnir á fjölmiðlasamsteypu Berlusconis.

Allir þessir þrír aðilar eru mjög svo geðþekkir menn sem við berum fyllsta traust til, enda færa þeir okkur vandaðan og hlutlausan fréttaflutning.

Hinvegar vitum við ekki hvað fer á bak við tjöldin í fjölmiðlasamsteypu Jóns Ásgeirs, því enginn hefur ljóstrað neinu upp þar, því hefur ekkert verið rannsakað í þeim efnum.

Nafnlaus sagði...

Mogginn og Murdoch?

Mogginn er því miður ónýtur.

En Murdoch veldið minnir auðvitað fyrst og fremst á fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs sem hefur verið misnotað frá fyrstu tíð.

Mér finnst alveg magnað að geta skrifað grein um þetta án þess að minnast á fjölmiðlaveldi JÁJ.

Bara alveg óskiljanlegt!

Guðmundur Ingi Þorsteinsson sagði...

Alltaf kemur upp í hugann á manni Elliot Carver úr Tomorrow never dies þegar talað er um Murdoch, eins málefnalegt og tilvísun í James Bond mynd er...
En því miður er leitun að almennilegri, gagnrýnni fjölmiðlaumræðu hér á
landi, meirihlutinn af "fréttum" sem maður heyrir flokkast undir það sem Jónas Kristjánsson kallaði kranablaðamennsku.

Nafnlausum nr. 1 vil ég benda á http://www.dv.is/folk/2011/7/17/mikael-torfason-standard-business-ad-selja-frettir-og-vidtol/