Björk er þessa dagana með tónleika á listahátíð Manchesterborgar og er aðalnúmerið þar. Tónleikarnir eru í stóru og gömlu húsi sem hefur verið grænmetismarkaður um langt árabil, ekki ósvipað og gömul járnbrautarstöð. Svið er miðju hússins og svo upphækkaðir pallar allt um kring. Inn í húsið er hleypt 1.800 manns ásamt gestum.
Tónleikarnir eru með tveggja daga millibili fram til 16. júlí, löngu uppselt á alla og langar biðraðir fyrir hverja tónleika í von um að einhverjir miðar séu ekki sóttir. Þeir eru afhentir sama dag og tónleikarnir við innganginn, svo ekki sé hægt að kópera þá, sem er orðið mikið vandamál í dag þar sem margir tölvunördar eru með græjur til þess gera slíka hluti heima hjá sér.
Gríðarlega góð stemming á tónleikunum. kynnir er Sir Richard Attenborogh og hann flytur erindi í upphafi sem er óður náttúrunnar og tengingu hljóðs við hana og tónleikarnir snúast um það. mikil myndræn sýning fer fram á stórum skjám yfir sviðinu, þar er mikið spilað á grunn alls lífs, einfrumunga. Myndirnar eru úr seríum Attenboroghs og vitanlega stórkostlegar.
Gríðarlegur undirbúningur hefur verið unnin síðust tvö ár við þetta verkefni og Björk nálgast það frá mörgum hliðum. Platan Biophilia kemur svo út í haust. Hlustendur geta unnið með þau áfram í app fyrir iPad tölvu.
Björk lét smíða tvö orgel fyrir tónleikana, annað er pípuorgel og auk þess breyta celestu sem hún á. Einnig fékk hún rafmagnsverkfræðinga í MIT háskólann í Bandaríkjunum til þess að smíða gríðarlega stóra hörpu sem byggist á 4 stórum örmum sem sveiflast fram og tilbaka og verður að keyra upp sveiflur í 30 mín. áður en farið er að spila á hörpuna, til þess að ná að samhæfa sveiflurnar og fá nákvæmlega réttum hraða.
Upphaflega var niðurstaða verkfræðinga að armarnir þyrftu að vera 48 til þess að ná þeim hljóðum og töktum sem Björk setti upp, en með því að smíða gríðarlega flókinn og vandaðan búnað neðst á armana, sem eru hjól með hörpustrengjum og á hverri uppistöðu er gítarnögl. Strengjahjólunum er stýrt með tölvustýrðum rafmótor sem snýr viðeigandi streng að gítarnöglinni þegar armurinn sveiflast framhjá. Þetta er allt tengt saman og úr þessu verður afar sérstakur hljómflutningur.
Allar þessar græjur ásamt hljóðgervlunum og myndvörpunum eru tengdar saman í gegnum Apple tölvubúnað og þar er búið að vera náið samstarf Bjarkar við eiganda Apple og tæknimenn hans um þetta dæmi sem er búið að taka 2 ár.
Svo er þarna 3ja tonna spiladós smíðuð úr rústfríu stáli. Hún er vistvæn með sólarsellum sem skapa rafmagn nægilegt fyrir 24 volta DC mótora sem drífa áfram allt verkið. Stór tromla er undir staðan þar er raðað stálnöglum og tekur um tvær og hálfa klukkustund að raða inn venjulegu Bjarkarlagi, einnig er tónborð á spiladósinni þar sem hægt að spila á strengjaverkið beint. Það verður að gera því tromlan er ekki nægileg stór til þess að ná öllu laginu sem Björk vill að sé spilað.
Undir fyrsta lagið er spilað á háspennukefli sem er kyrfilega lokað frá áhorfendum, þar sem neistarnir hlaupa um tæpa tvo metra á milli pólanna, nokkur þúsund volta skot og á þetta er spilað og næst fín laglína sem er undirleikur undir söng Bjarkar. Umhugsunarefni fyrir rafiðnaðarmenn, alla vega hefði engin sagt mér að það væri hægt að spila tónverk eftir nótum á háspennukeflin í spennustöðvum Landsvirkjunar.
Inn í allan flutning tónleikanna spilar stórt hlutverk 24 manna stúlknakór úr Langholtskirkju sem syngur ákaflega sérstaklega, enda skrifaði Björk laglínu kórsins eins og fyrir fiðlur. Kórinn er búinn að æfa í allan vetur og æfir á hverjum degi um 3 – 4 klst. Þau eru einnig að bæta smá saman fleiri af eldri lögum Bjarkar. Björk hefur í undanförnum heimsreisum sínum tekið með hóp af íslenskum tónlistamönnum, þar má minna á að síðast var Wonderbrass hópurinn, stúlkur sem spiluðu á brasshljóðfæri og þar á undan strengjasveitin sem fór með henni.
Björk beitir að venju röddinni af fullri orku og nær gríðarlega sérstökum raddhæðum, enda er hún á sérstöku fæði nokkra mánuði fyrir tónleika og 2 klst. raddæfingum og jóga á hverjum degi og má svo helst ekki tala mikið á milli tónleika.
Áheyrendur tóku Björk mjög vel, þetta er allt annað en rokktónleikar, allir þegja á meðan flutningur fer fram og hlusta og meðtaka allt bæði hljóðrænt og myndrænt. En svo er fagnað gríðarlega í lok hvers lags. Með Björk eru 52 einstaklingar sem starfa við tónleikana. Björk ætlar eins og áður þegar hún hefur gefið út nýjar plötur að fara í tveggja ára heimsreisu og kynna plötuna og er ætlunin að koma hingað heim í haust.
Þessir tónleikar hafa fengið gríðarlega umfjöllun í heimspressuni öll stóru blöðin í Englandi og New York hafa m.a. fjallið um þá, en lítið sem ekkert á pressunni heima. Umfjöllunin einkennist öll af gríðarlega hástemdu lofi.
4 ummæli:
Til hamingju með dótturina.Hún er klassa listamaður.
Björk búin og enn að gera ótrúlega hluti. Held að við Íslendingar almennt áttum ekki á hve mikið hún hefur gert. Glæsilegur fulltrúi okkar, svo vægt sé til orða tekið.
Þú mátt sannarlega vera stoltur af dóttur þinni, og Íslendingar allir!
Dásamlegt.
"Thanks for sharing".
Skrifa ummæli