Niðurstaða Alþingis í gær á má greina á tvö vegu. Einhverjir þingmenn hafi tekið afstöðu á þeim forsendum að vilja taka tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins til umræðu og fá fram hvort og hvers vegna rétt sé að draga tilbaka ákæruna. Það sé ekki endilega gefið að tillaga Bjarna verði samþykkt.
Og svo á hinn bóginn reikna margir með að tillaga Bjarna fái sömu niðurstöðu og frávísunartillagan. A.m.k. eru nokkrir þingmenn þegar búnir að taka þá afstöðu.
Víða hefur komið fram að það sé mjög hættulegt fordæmi ef Alþingi telji sig geta gripið inn í mál sem komið er fyrir dóm. Með því væri verið að taka frá Geir H. Haarde þau mannréttindi að geta komið fram með rök og andsvör gegn þeim ásökunum sem á hann eru bornar.
En það vegur þyngra í hugum magra að landsmenn eigi ekki síður rétt á að fá fram öll gögn málsins. Það sé forsenda þess að hægt sé að setja þetta mál aftur fyrir okkur, ljúka því.
Verði þessi réttur tekinn frá Geir, og um leið öllum landsmönnum, sé verið að staðfesta það í hugum landsmanna að ákærurnar standist. Reiði almennings og vantrú á stjórnmálamönnum og Alþingi sé þar með viðhaldið. Geir verði þá að bera þennan þunga kross.
Margir hafa bent á að þeir sem þarna fara fremstir í flokki vilji koma í veg fyrir þær vitnaleiðslur sem Landsdómur er búinn að tilkynn. Sá málatilbúnaður staðfesti samtryggingarkerfi þeirra sem telja sig vera handhafa allra hlutabréfanna í Íslensku samfélagi.
Sé úrskurður Landsdóms um frávísunarkröfu verjanda Geirs skoðaður þá liggur fyrir hvað það er sem ákært er fyrir og hvernig taka eigi á þeim sakargiftum. Þess vegna getur maður ekki annað en velt fyrir sér að hvaða blekkingum sé verið að beita með þessum málatilbúnaði formanns Sjálfstæðisflokksins. Allt bendir til þess að tilgangur sé sá einn að koma í veg fyrir að Landsdómur upplýsi okkur.
Þessir hinir sömu standa í vegi fyrir breytingum á Stjórnarskránni. Þetta sé ástæða þess að spilling á Íslandi sé víðtækari en annarsstaðar. Þetta sé ástæða þess hvers vegna Íslandi gengur mun verr en nágrannalöndum, velferðarkerfi okkar á niðurleið og kaupmáttur mun lakari.
Það kosningakerfi sem þingmenn hafa búið til er sérsniðið til þess að tryggja eigin stöðu. Núverandi kosningakerfi tryggir nefnilega að liðlega helmingur þingmanna situr alltaf í öruggum sætum, þessum sætum er úthlutað af flokkseigendafélaginu. Þeir sem hafa komist inn um dyr flokksmaskínunnar þurfa ekki að óttast kjósendur.
Það voru margendurkjörnir þingmenn sem sátu í valdastólunum þegar landið flaug fram af hengifluginu án sjáanlegs bremsufars. Og nú liggja fyrir gögn um að ráðamönnum var vel ljóst hvert stefndi, og sök þeirra er að hafa ekki gripið til nokkurra varna og lágmarka fyrirsjáanlegan skaða.
Þessir margendurkjörnu þingmenn vilja engu breyta og halda í þann möguleika að geta nýtt reglubundið gengisfellingar til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn. Það er þetta stjórnkerfi sem brást. Það voru þeir sem áttu að sinna eftirlitshlutverkinu en gerðu það ekki og standa í vegi fyrir breytingum.
Málflutningur þessa sjálfhverfa valdakjarna verður sífellt skýrari landsmönnum, enda er svo komið að einungis tæplega helmingur landsmanna vill styðja þetta fólk. Einungis 7% landsmanna styðja stjórnarandstöðuna, þrátt fyrir að staðan sé sú að ríkistjórnin njóti ekki mikilla vinsælda sakir þess að hún hefur orðið að grípa til margra mjög óvinsælla ákvarðana.
20 ummæli:
Góð niðurstaða í gær. Vonandi verður þessu máli gegn Geir hætt og heiðri Alþingis bjargað fyrir horn.
Nokkrar staðreyndavillur hjá þér sem rétt er að leiðrétta:
Þetta er ekki inngrip í dómsmál þar sem Alþingi fer með ákæruvaldið.
Það gegnur gegn öllum réttarfarsreglum og mannréttindum að draga mann fyrir dóm "til að geta svarað fyrir sig".
Málarekstur gegn manni bara "til að fá fram öll gögn málsins" er brot á mannréttindum hans. Ef þú vilt setja af stað eitthvað leikhús þá verður það ekki í dómsal.
Annars skora ég á þig að hlusta á ræður Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur í gær.
Hér: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20120120T202157&end=2012-01-20T20:31:44
og hér: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20120120T204242&end=2012-01-20T20:46:13
Þar er öllum þessum atriðum svara á einstaklega greinargóðan hátt.
Ég held að það verði samþykkt að falla frá ákæru. Það er til of mikið af sómakæru fólki í VG og Samfylkingu sem vill ekki standa að svona ódæði sem pólitísk réttarhöld eru.
Tek undir þetta. Málinu má ekki stinga undir stól. Ákæran á fyrrverandi forsætisráðherra, ábyrgðarmann efnahagsmála á Íslandi, var eðlilegt framhald eftir niðurstöðu rannsóknanefndar Alþingis. Alþingi hefði þurft að greina fleiri þætti í framhaldinu, og setja af stað rannsóknir á fleiri atriðum (t.d. augljóslega þætti Seðlabankans og yfirstjórn fjármala og bankamála). Þeir sem óttast slíka rannsókn biðjast undan henni, ljóst og leynt. En ég held að hlutverk Landsdóms hljóti að vera að rannsaka málið og taka síðan ákvörðun um sekt eða sakleysi. Þessum rannsóknaþætti verður ekki sinnt ef tillaga Bjarna Benediktssonar nær fram að ganga. Og ef allt koðnar niður í allsherjar fyrirgefningu og meðvirkni er lítil von um framfarir í stjórnkerfinu okkar.
Þá liggur skírt fyrir hvaða kost kjósendur hafa til breytinga á Alþingi. Ekki kjósa nein flokk sem hefur þetta lið innanborðs.
Svo er að koma saman nýju kerfi með aðilum sem eru ekki innmúraðir.
tek undir með nafnlausum 12:34 að niðurstaðan eins og komið var góð.
Ef Geir er saklaus af þeim áburði sem á hann er borin hljóta llir sem hann styðja keppa að því að hann fái að hreinsa sig.
Reyndar virðist ekki vera hægt annað en túlka afstöðu nafnlaus 12:34 örðuirvísi en svo að hann óttist þær vitnaleiðslur sem komi fram og vilja fela þær
Nafnlaus 12:34 sakar Guðmund um að vilja setja á leikhús, hann ætti nú frekar að snúa þessum orðum að formanni Sjálfstæðisflokksins. Alþingi setti mikið niður í gær og var reyndar ekki úr háum stalli að falla.
Kristinn Þór
"margendurkjörnir þingmenn sem sátu í valdastólunum þegar landið flaug fram af hengifluginu án sjáanlegs bremsufars. " kusu í gær um frávísunartillögu, þar sem eðlilegra hefði verið að þeir sætu hjá.........
http://www.youtube.com/watch?v=IeQJkvVRwWU
Já þeir eru djöfulsins snillingar eins og var farið svo snilldarlega yfir í áramótaskaupinu, og tóku enn einn snúning á þjóðinni xD hópurinn. Tilgangurinn var augljóslega sá einn að koma höggi á ríkisstjórnina, þeim er slétt sama hvaða afleiðingar það hefur fyrir álit Alþingis
Þingsályktunartillagan fjallaði um afskipti af dómsmáli sem dómstóll hefur úrskurðað að taka til meðferðar og fjallar því um inngrip löggjafarvaldsins í dómsvaldið. Það eru hrein embættisafglöp hjá forseta Alþingis að taka tillöguna á dagskrá og eru réttarspjöll sem ein og sér gætu ónýtt málið
Það er hreint út sagt óbærilegt að horfa upp á Guðlaug Þór Þórðarson, Össur Skarphéðinsson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, Einar Kristinn Guðfinsson, Kristján Möller og Tryggva Þór Herbertsson fyrir að víkja ekki af þingi meðan atkvæðagreiðsla stóð fyrir líkt og Björgvin G. Sigurðsson sem sýndi sómakennd, vegna stöðu þeirra sem vitnis í sakamálinu sem þau tóku beinan þátt í að stöðva.
Einnig er aðkoma Ögmundar Jónassonar ráðherra dómsmála ámælisverð, fyrir að grípa framfyrir hendurnar á dómstól ólíkt því sem hann taldi áður rangt að gera sem yfirmaður dómsmála þegar um níu mótmælendur var að ræða.
Úr úrskurði Landsdóms um frávísunarkröfu verjanda Geirs H. Haarde : „Sakargiftum á hendur ákærða í liðum 1.3, 1.4 og 1.5 er lýst með þeim hætti að ekki leikur vafi á hvaða háttsemi það er, sem ákært er fyrir, og hvernig hún er talin refsinæm að lögum. Hið sama á við um sakargiftir í 2. lið ákæru. Samkvæmt því verður hafnað kröfu ákærða um frávísun á þessum sakargiftum."
Úr því Landsdómur tekur svona á málinu þá er næsti leikur í taflinu að freista þess að láta Alþingi stöðva það.
Atkvæðagreiðslan á Alþingi í gær sýnir okkur hvaða þingmenn vilja koma í veg fyrir vitnaleiðslur verði og því komi þáttur einstakra ráðamanna ekki í ljós. Ekki verði heldur birt gögn þingmannanefndarinnar um aðild þeirra að hruninu. Mesta ábyrgð bera fimm þingmenn Vinstri grænna. Þar opinberaðist gömul og gróin stjórnmálahreyfing sem snýst um samtryggingu þeirra sem fara með völdin í íslensku samfélagi.
Mér sýnist að gungurnar á alþingi hafi í gær, svo gott sem, afhent FLokknum völdin aftur. Eða dettur einhverjum í hug að það skundi einhverjir aðrir á kjörstað í næstu kosningum en bókstafstrúarmenn FLokksins?
Ég held að sómakært fólk fari ekki að saurga sig á að taka þátt í sýndarkosningum.
ÞÚB
Sælir.
Ég skil bara ekki að Geir H. vilji ekki verja sig. Ef hann er staðfastur á því að hafa ekkert rangt gert.
Ef ég væri hann myndi ég aldrei láta skera mig úr þessari snöru á þennan hátt.
mbk
Benedikt.
Sjálfstæðisflokkurinn metur stöðuna svo að það sé mun betra að eiga við almenningsálitið eftir að málið hefur verið dregið til baka af Alþingi heldur en eftir að óhreint mjöl hefur verið opinberað í vitnaleiðslum fyrir landsdómi.
100% ljóst að Sjálfsstæðisflokkurinn mun gera allt til að koma í veg fyrir að gögn málsins verði gerð opinber.
Miklar vonir voru bundnar við þann árangur sem almenningur náði fram með búsáhaldabyltingunni, nýtt fólk á Alþingi, ný vinnubrögð, nýtt Ísland. Í dag talar enginn um nýtt Ísland lengur. Aldrei hefur Alþingi verið á lægra plani
Það hefur alla tíð legið fyrir hvernig valdastéttin myndi bregðast við ef fram kæmi krafa um að hún yrði látin sæta lagalegri ábyrgð. Öllum brögðum er beitt svo koma megi Geir H. Haarde, undan réttvísinni. Þar helst blekkingum um að verið sé að saka forsætisráðherranum einn um hrunið. Slíkt er hvergi að finna í þeim gögnum sem fram hafa komið. Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, er aftur á móti ákærður fyrir lögbrot í tengslum við hrunið. Þegar upp verður staðið munu þeir sem ákærðir verða fyrir lögbrot í tengslum við hrunið skipta mörgum tugum ef ekki hundruðum.
Sé ræða Guðríðar Lilju skoðuð er hún einmitt sjálf að niðurægja þingið. Hún er sjálf að hindra endurreisn þjóðar. Hún er sjálf að byggja uppgjörið á pólitískum hráskinnaleik. Hún er sjálf að vanvirða grundvallargildi ákæruvaldsins. Hún er sjálf að vonast eftir að skapa falska tilfinningu við uppgjörið og hún hefur sjálf ekkert lært af hruninu. Guðríður er á leiðinni niður frasafossinn og mér er til efs að hún komist upp úr sjálfsréttlætingarhylnum þegar salíbununni er lokið
Það er ekkert nákvæmlega ekkert sem þrýstir á að taka eigi þetta mál fram fyrir önnur, þá væri Alþingi að svívirða skoðun almennings ennfrekar í þessu máli.
Ef allt væri eðlilegt myndi það taka að minnsta kosti 4-6 vikur og líklega jafnvel 2-3 mánuði, jafnvel fjóra. Það væri eðlilegt.
En það er ekkert eðlilegt í þessu máli og útlit fyrir þrýsting á þing um að vinna hraðar að þessu máli en öllum öðrum.
Ráðherrar starfa í umboði þingsins, þingmönnum ber að fylgjast með störfum þeirra og gæta þess að þeir vinni verk sín lögum samkvæmt. Þeim ber ávallt að hafa hefja sig ofar kunningsskap, vináttu og öðrum slíkum tengslum í samskiptum sínum við framkvæmdavaldið. Að fara fram á að þeir gerðu það einnig í sambandi við ákærur á hendur ráðherrunum fjórum var eðlileg krafa og sjálfsögð, og ekkert ofurmannleg. Margir þingmenn uppfylltu hana en öðrum rann blóðið því miður ekki til skyldunnar. - Hér kom danskur maður fyrir ekki löngu og ræddi við Spegilinn, minnir mig, um rigsretten, danska landsdóminn, og sagði það stæði alls ekki til að breyta honum, því hann hefði reynst prýðilega. Það er eðlilegt verkefni þjóðþinga að álykta um hvort ráðherrar skuli ákærðir fyrir lögbrot.
Skrifa ummæli