þriðjudagur, 10. janúar 2012

Fréttamat RÚV í lægstu hæðum

ASÍ var með morgunverðarfund fyrr í dag. Þar talaði Gylfi Arnbjörnsson um nauðsyn á stöðugum og traustum gjaldmiðli til að tryggja bætt lífskjör. Hann fór yfir ítarlega útreikninga hagdeildar ASÍ auk gagna frá Seðlabönkum nágrannalanda um kostnað heimilanna og stöðu almenna launamanns í umhverfi krónunnar, sem kallaði á mjög háa vexti. Sé litið yfir þróunina undanfarna áratugi þá færi um þriðjungur tekna heimilana að standa undur kostnaði sem kæmi til vegna óstöðugleika örgjaldmiðilsins.

Síðan fór Arnór Sighvatsson aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands yfir hvaða valkosti við ættum í gjaldmiðilsmálum. Arnór var með mikið ítarefni með sínu erindi. Hann komst að þeirri niðurstöðu við hlytum að skoða vel hvernig við gætum komist út úr þeim vanda sem gjaldmiðillin hefði valdið.

Þá fjallaði Friðrik Már Baldursson um mun á því að taka upp gjaldmiðil einhliða eða taka upp evru með aðild að ESB, hann hafði gert margskonar útreikninga til þess að styðja sitt mál. Friðrik taldi upptöku einhliða gjaldmiðils ekki vera raunhæfur valkostur.

Þessir þrír voru sammála um meginniðurstöður að efnahagsvandi Íslands væri slök og agalaus efnahagstjórn. Ljóst væri að sá agi sem hefði fylgt yfirstjórn AGS hér undanfarin misseri sýndi fram á að hægt væri að ná árangri hér með ögun, en menn yrðu síðan að meta það hvort vænta mætti einhverra breytinga á efnahagsstjórn stjórnmálamanna þegar þeir hefðu ekki þann aga. Benda mætti á margt í umræðum stjórnmálamanna á milli einnig í dag sem gerði menn ekki bjartsýna.

Í lokin flutti Ragnar Árnason prófessor við HÍ erindi um kosti sveigjanlegs gjaldmiðils við hagstjórn. Lítið var um ítarefni í hans erindi og hans helsta niðurstaða var að það væri mikill kostur að stjórnvöld hefðu gjaldmiðil sem hægt væri að gengisfella sem atvinnurekendur í útflutningi ættu í erfiðleikum, það væri skerðing á fullveldi ef þetta væri tekið af sérhagsmunaaðilum með því að taka krónuna burtu.

Ragnar svaraði ekki spurningum hvers vegna launamenn ættu að halda áfram að bera einir kostnað af slakri efnahagstjórn og 25 þús heimili hefðu orðið gjaldþrota fyrir skömmu vegna gengisfellinga krónunnar, það hefði ekki gerst í nágrannalöndunum. Ragnar skautaði síðan fram hjá öllum atriðum sem fram höfðu komið í fyrri erindum.

Athygli vakti að fréttastofa RÚV flutti einungis fréttir af erindi Ragnars í aðalfréttatíma útvarpsins kl. 18:00. Það er ekki fyrsta skipti sem málefni launamanna njóta lítils fylgis hjá fréttastofu Útvarpsins og þar er gætt vandlega sérhagsmuna ákveðinna aðila.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki hárétt hjá Ragnari höldum krónunni hvað sem dynur ekkert ESB kjaftæði.

Nafnlaus sagði...

Gott að þú bendir á þetta. Fyrirfram skildi maður ætla að ríkisfjölmiðilinn okkar sé hlutlaus í einu og öllu. Margt bendir til að svo sé aldeilis ekki og vert að skoða hverjir á fréttastofunni ráða. Það er barið á íslenskum varnarlausum almenningi úr öllum áttum. Ógeðfellt.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 19:18
Þér finnst semsagt ástæðulaust að færa rök fyrir þínu mál, bara segja að hinn sé með ESB kjaftæði, þú getur greinilega ekki komið nein rök.

Og það sem er verra þér finnst fínnt að lítill hluti þjóðarinnar geti haldið áfram að gera reglulega eignarupptöku hjá launamönnum og í heimilum þeirra.

Þig skiptir engu þó 25 þús. heimili hafi orðið gjaldþrota vegna eignaupptöku í gegnum krónuna

Nafnlaus sagði...

Höldum í sjáfstæðið og hættum að ausa milljarða í samningaviðræður nær að nota það í sjúklinga og gamalmenni.þjóðinn vill ekki í ESB.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Alveg sama hver niðurstaðan verður um gjaldmiðilinn þá er ljóst að efnahagsstjórn á Íslandi verður að vera til fyrirmyndar í framtíðinni. Ég sakna þess í greiningu þinni að þú minnist á hina hliðina á því að hafa ekki sveigjanlegan gjaldmiðil sem er atvinnuleysið

mbk
Ólafur

Nafnlaus sagði...

Þetta er algert hneyksli hjá RÚV.

Bláa Ríkisútvarpið er sífellt að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn og LÍU.

Allir vita að Ragnar Árnason er frjálshyggjuróttæklingur sem er helsti hugmyndafræðingur einkavæðingar fiskimiðanna - þ.e. að útgerðarmenn fái einir arðinn af auðlindinni.

Þeir vilja líka geta áfram sent vandamál óstjórnarinnar og græðginnar sem reikning til heimilanna með gengisfellingum!

Guðmundur sagði...

Í fréttum fyrir nokkrum dögum kom glögglega fram að kostnaður Íslands vegna viðræðna væri 100 millj. kr. ekki milljarðar.

Ísland hefur ekki efnahagslegt sjálfstæði og þarf að finna grundvöll til þess að skapa það. Þar eigum við góða samleið með með hinu sjálfstæðu ríkjum og vinaþjóðum Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð sem hefur vegnað ákaflega vel

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.

Í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær var rætt við einhver hagfræðing hjá Háskólanum um möguleikann á einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Hann vitnaði m.a. í BS. ritgerð sem einhver nemandi hafði gert um efnið.

Samkv. þessum hagfræðingi (ég náði ekki nafninu á honum) ætti einhliða upptaka annars gjaldmiðils að vera leikur einn og tiltölulega áhættulaus. Hann benti á að Seðlabanki Evrópu væri alls ekki lánveitandi til þrautavara og að bakland í formi seðlabanka þeirrar þjóðar sem gefur myntina út væri í raun óþarft.

Það kom mér dálítið á óvart því þótt Seðlabanki Evrópu sé ekki beinlínis lánveitandi til þrautavara þá hlýtur það bakland sem Seðlabanki Evrópu er, ásamt nánu samstarfi annarra ESB landa, að vera meiri öryggi í neyð fyrir lönd innan ESB og evrusvæðisins en ef landið væri t.d. með dollar eða yen. Við gætum ímyndað okkur ef Grikkland eða Írland hefði ekki verið með í ESB og verið með t.d. bandaríkjadollar, hvort hin ESB löndin hefðu þá komið til viðlíka hjálpar.

Ennfremur sagði þessi hagfræðingur að þótt við þyrftum að kaupa dollara (ef við mundum vilja taka upp dollar sem mynt), þá væri magnið af seðlum og mynt í umferð aðeins einhverjir tugir milljarða. Ég veit ekki hvort þarna sé gert ráð fyrir möguleika á meiriháttar áhlaupi eða fjármagnsflótta úr landinu.

Að auki sagði hann að það væri alls ekki ókeypis að taka upp evru, það þyrfti að borga fyrir hana eins og alla aðra mynt. Það er nokkuð sem ég skil ekki almennilega því ég hef alla tíð staðið í þeirri trú að Seðlabanki Evrópu mundi skipta krónunum út fyrir evru eftir aðlögunarferli.

Ég kannast amk. ekki við að Þjóðverjar, Frakkar eða Írar hafi þurft að kaupa sínar evrur...

Mér þætti gaman að sjá viðbrögð þín við þessu viðtali í Reykjavík síðdegis í gær.

kv.
vr

Björn sagði...

Hvernig getur evran bætt íslenskan efnahag og efnahagsstjórn? Breytast Össur og Jóhanna í fjármálasnillinga við upptöku evrunnar?

Ég er fullsaddur á svona einföldunum hjá þér. En fyrir mína parta tel ég vanhæfni Samfylkingarinnar til að stjórna landinu ekki lagast með upptöku evru.

Nafnlaus sagði...

Ég tek heilshugar undir þetta Guðmundur. Mér var ofboðið í gær er ég hlustaði á fréttir RÚV kl. 18:00 og viðtal þar við Ragnar Árnason. Þar sem ég bý á Akranesi komst ég ekki á þennan fund í Rvk en vissi hverjir voru með erindi þar. Ragnar Árnason er prófessor LÍÚ við HÍ. Hann hefur unnið mikið fyrir þá aðila og minnir mig að þeir styrki stöðu hans þar. Viðhorf hans eru því vel þekkt. Þau sjónarmið mega vel koma fram. Það er hins vegar ekki boðlegt af féttastofu, sem við erum neydd til að borga fyrir, að segja frá þessum fundi með þessum hætti þar sem ekki er minnst á sjónarmið annara frummælenda. Hvers konar "fréttastofa" er þetta!

Kristján E.Guðmundsson

Guðmundur sagði...

Björn
Þú ert vitanlega að tala um þá efnahagsstjórn sem var hér frá 1992 og leiddi landið í fullkomið kerfishrun.
Það blasir við að efnahagsstjórn hefur ekki verið í lagi hér á landi frá lýðveldisstofnun, en hún stórlagaðist á meðan íslenskir stjórnmálamenn höfðu agastjórn frá AGS yfir sér.
Íslenskur örgjaldmiðill er oghefur reynst launamönnum og almenning mjög hættulegur í höndum tækifærissinnaðra stjórnmálamanna

Guðmundur sagði...

Sæll vr
Þða var fjallað ákaflega ítarlega um einhliða upptöku gjaldmiðils á umræddum fundi og hefur reyndar verið mikið til umræða á undanförnum vikum, m.a. hér á þessari síðu.
Ef við ætlum að taka einhliða upp einhvern gjaldmiðil, þurfum við að byrja á að kaupa mikið magn af þeim gjaldmiðli og kaupa síðan upp allar íslenskar krónur og vera að auki undir það búinn að allir spairfjáreigendur mæti í banka og lífeyrissjóði daginn eftir og vilji skipta sínu sparifé yfir í þann erlenda gjaldmiðil. Þetta er langt umfram það sem við ráðum við.
Að auki þurfum við að eiga mikinn gjladeyrisvarasjóð til þess að verja viðkomandi gjalmiðil. Bara þetta gerir það að verkum að þetta er ekki ráðlegt reyndar óframkvæmanlegt fyrir okkur.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta óþarfa nöldur útí RUV og Ragnar Árnason. Ragnar er glöggur hagfræðingur með lausnirnar á tæru. Aðspurður um hvað þyrfti til krónan virkaði svaraði hann góða hagstjórn. Og þegar hann var svo spurður í hverju góð hagstjórn væri fólgin svaraði hann að bragði að hún væri fólgin í því "... að sigla milli skers og báru".

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 17:17

Þér finnst í lagi að fréttastofa landsmanna kynni einungis eina skoðun.

Þér finnst í lagi að viðhalda gjaldmiðli sem gagnast einungis litlum hluta þjóðarinnar. Þessi gjaldmiðill gerir fáa sífellt ríkari á kostnað hins hlutans sem á sífellt verra með að ná endum saman.

Þér finnst í lagi að Ragnar gangi erinda þessa minni hluta þjóðarinnar og skauti fram hjá augljósum staðreyndum. Staðreyndum sem mynda kollvarpa hans málflutning.

Það þarf ekki að velta því fyrir sér hvaða hluta þjóðarinnar þú tilheyrir

Nafnlaus sagði...

Æ,æ. Skildirðu ekki húmorinn.
Hlustaðu þá á Spegilinn frá í gær. Þar stingur RA upp á margra gjaldmiðla lausn. Mér finnst það "tær snilld."
Gamanlaust þá fannst mér viðtalið við RA vera háflverður skemmtiþáttur. Það var alla vega ekki hægt að taka hann alvarlega.