fimmtudagur, 26. janúar 2012

Ísland vettvangur pólitískra ofsókna

Undanfarið hefur farið hratt vaxandi umfang málflutnings þar sem lögð er áhersla á að grafa undan trúverðugleika skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, Landsdómi og störfum sérstaks saksóknara.

Þetta er í samræmi spádóma þekkts rannsóknarfólks sem hingað kom um að ekki yrði langt að bíða þess að fram kæmi hópur manna, sem ekki vildi láta grafast fyrir um hvað hefði gerst og hvers vegna hrunið á Íslandi hefði orðið mun umfangsmeira heldur en gerðist í nágrannalöndum okkar. Þessi birtingarmynd blasir við okkur í dag í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum. Þar fer reyndar einnig fram óbein en ítarleg kynning á því hvaða menn er um að ræða, en reyndar undir því yfirskyni fréttamanns og almannatengla að þar fari ákaflega saklausir einstaklingar sem sé gert að búa við pólitískar ofsóknir á Íslandi.

Þessir einstaklingar hafa efni á því að ráða til sín þekkta lögmenn og almannatengla, sem hafa greiða leið að fréttamönnum. Áberandi er hvaða fréttamenn flytja þessar fréttir og hvar þessum fréttum er stillt upp í fréttatímanum. Flestar enda á því að við eigum öll að snúa bökum saman og takast á við vandann, ekki láta pólitískar ofsóknir ráða för.

Tillaga um að draga málið tilbaka hefur í raun sett Geir H. Haarde í mun verri stöðu en hann var þó í. Hann hafði áður í hugum margra stöðu sem fórnarlamb óábyrgra stjórnmálamanna og hann fengi gott tækifæri til þess að sýna fram á það fyrir Landsdómi.

Í dag er staða málsins aftur á móti sú sama hvar maður kemur, snýst umræðan um andúð fólks á því hvernig tilteknir aðilar berjist gegn því að fram fari málsmeðferð fyrir dómnum. Verði málið dregið tilbaka samsvari það sönnun sektar Geirs og þess hóps sem berst gegn því að Landsdómur fái að ljúka störfum. Með þessum málatilbúnaði sé Geir gert að bera hér eftir þá sök og fái aldrei tækifæri til þess að losa sig undan þeim áburði. Geir er með öðrum orðum gerður bjarnargreiði með þessum málatilbúnaði.

Okkur var bent á það strax eftir Hrun að hvítflibbaglæpamenn gerðu ætíð allt til þess að komast hjá því að þurfa að svara óþægilegum spurningum. Oftast væri haldið að okkur viðbrögðum byggðum á hugtakinu að um pólitískar ofsóknir sé að ræða en hvergi komið að þeim álitaefnum sem til umfjöllunar eru.

Hvað sagði t.d. sá maður sem mótaði þá efnahagstefnu og afreglun eftirlitskerfisins sem leiddi yfir okkur ógöngurnar. Já kæri lesandi þessi sem setti síðan Seðlabankann í 800 milljarða gjaldþrot. Hann stóð síðan hrópandi í fjölmiðlum þegar búsáhaldabyltingin fór fram og hann borinn út úr bankanum, um að íslenskur almenningur væri skríll sem hefði í frammi pottaglamur og beitti pólískum ofsóknum.

Sama segir fyrrv. forsætisráðherra í viðtölum við erlenda fjölmiðla þessa dagana.

Birgir Ármannsson þáverandi nefndarformaður stjórnsýslunefndar stakk á sínum tíma undir stól tillögu Valgerðar um afnám Eftirlaunaósómans þar sem tilteknir valdamenn ætluðu sér margfaldan eftirlaunarétt umfram aðra (höfðu reyndar fyrir aldeilis dágóðan rétt, en græðgin hafði blindað þá) með þessum orðum : "Eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni höfum við fylgt þeirri vinnureglu í allsherjarnefnd að taka mál til afgreiðslu ekki í þeirri röð sem þau berast nefndinni heldur höfum við sett í forgang þau mál sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið saman að. Það er ekkert óeðlilegt í ljósi þess að stjórnarfrumvörp sem slík eru flutt með atbeina og atfylgi meiri hluta þingsins. Fyrirfram má því ætla að þau njóti víðtækari stuðnings í þinginu en önnur mál.“

Nú stendur þessi sami þingmaður fremstur í flokki þeirra þingmanna sem vilja koma í veg fyrir að þeir þurfi að koma fyrir Landsdóm og svara fyrir sín ummæli og athafnir í aðdraganda hins svokallaða Hruns og krefst þess að nýtilkominn tillaga sín og nokkurra manna sem virðast vilja taka frá Geir þann rétt að fá að svara fyrir sig, og tillagan tekin fram fyrir öll mál sem fyrir nefndinni liggja, þ.á.m. mál sem snerta afkomu íslensks almennings. Flutningsmenn hafa margir hverjir ítrekað verið bendlaðir við vafasamt fjármálavafstur, vafninga og skýrslugerð.

Er nema von að íslenskir stjórnmálamenn og Alþingi sé fullkomlega rúið trausti hins íslenska skríls, sem hefur í frammi óviðeigandi pottaglamur og truflar athafnir hinna saklausu þegar krafist er uppgjörs hins svokallaða Hruns?

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður Guðmundur!

Haukur Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Framúrskarandi grein.

Framúrskarandi.

Nafnlaus sagði...

Getur verið að það eigi að ákæra skipstjórann á Concordia?!

Nafnlaus sagði...

Afturköllun ákærunnar er liður í því að eyðileggja starf rannsóknarnefndar Alþingis. Ef meiri hluti þingsins greiðir atkvæði með tillögu Bjarna Ben þá er það einnig yfirlýsing um að þeir telja sig hafna yfir lög og rétt.

Haraldur sagði...

Samála öllu saman í þessari samantekt ,frábær grein.

Nafnlaus sagði...

Flott grein hjá þér!

Þetta á þó ekki aðeins við um ákæruna gagnvart Geir H. Haarde, því nú bendir Baldur Guðlaugsson á að ákæran gegn honum sé mannréttindabrot. Þetta er merkilegt, því sannanir gegn honum eru skýrar og standast fullkomlega skoðun.

Kv. Guðbjörn Guðbjörnsson