laugardagur, 14. janúar 2012

Meira um prívat lífeyrisréttindi þingmanna

Þingmenn hafa sett lög um að skattleggja sérstaklega það sparifé sem launamenn eiga í lífeyrissjóðum. Þessi skattur kemur þannig út þegar upp er staðið að það verður að skerða réttindi örorkubótaþega og lífeyrisþega í almennu sjóðunum um 2 – 3%, bótaþegar í sjóðum þingmanna og útvalinna opinberra starfsmanna verða ekki fyrir þessari skerðingu. Þingmenn hafa nefnilega komið því þannig fyrir að það skiptir engu hvort þeirra eigin lífeyrissjóður eigi fyrir skuldbindingum, það sem upp á vantar er einfaldlega sótt í ríkissjóð. Þeir hafa hins vegar sett lög um að ef aðrir sjóðir eigi ekki fyrir skuldbindingum verði þeir að skerða réttindi.

Það hefði verið einfaldara fyrir þingmenn að varpa af sér huliðshjúpnum og leggja þennan nýja skatt beint á örorkubótaþega og lífeyrisþega sem ekki eru í sama lífeyrissjóð og þingmenn og ráðherrar. Nú er að renna eindagi á þessa skattgreiðslu, ef ekki er greitt þá verða þessir bótaþegar að greiða dráttarvexti.

Þetta kom mjög glæsilega fram, eða hitt þá heldur, við hið svokallaða Hrun sem var bein afleiðing af hversu slaklega þingmenn höfðu staðið að efnahagsstjórn þessa lands. Hið svokallað hrun leiddi til þess að verðbréf og hlutabréf féllu í verði. Það skipti þingmenn engu þeir þurftu ekkert bera ábyrgð á gjörðum sínum og skerða réttindi í sínum prívatlífeyrissjóð, á meðan almennu lífeyrissjóðirnir urðu lögum samkvæmt að skerða réttindi sinna örorkubótaþega og lífeyrisþega. Þetta er einungis gert á Íslandi og er kallað á því landi pólitískt réttlæti

Sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðunum hafa margsinnis en árangurlaust bent á að það sé verulegur vafi á réttmæti og lögmæti þessarar skattheimtu ekki eingöngu vegna sjónarmiða um vernd eignarréttarins og jafnræðisreglunnar. Meginreglan er sú að framlög launþega til lífeyrissjóðs eru frádráttarbær frá tekjuskattsstofni launþegans en útborgaður lífeyrir sætir hins vegar fullri skattlagningu eins og hver önnur laun.

Það er einnig mikilvægt að líta til þess að iðgjöld þau sem sjóðsfélagar hafa innt af hendi hafa allt þar til í desember 2011 miðast við þá grundvallarforsendu að starfsemi lífeyrissjóðanna og hagnaður þeirra væri skattlaus en að útgreiddur lífeyrir yrði h.v. skattlagður að fullu eins og hver önnur laun. Má þá velta því upp hvort skattlagning þessarar eignar nú sé hugsanlega andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar sem banna afturvirkni skattalaga.

Staðfest er í dómaframkvæmd að lífeyrisréttindi teljast vera eign og njóta því verndar sem slík í skilningi eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Lífeyrissjóðir eru undanþegnir tekjuskatti og hefur svo verið um áratugaskeið enda fæli önnur tilhögun í sér að fjármagnstekjur lífeyrisþeganna af sjóðsinneign sinni væru í raun tvískattlagðar, þ.e. bæði hjá sjóðnum sjálfum en einnig við útborgun lífeyrisins. Hinn nýi eignarskattur er afturvirkur og hlýtur að vera ólögmætur.

Við gerð síðustu kjarasamninga viðurkenndi ríkisstjórnin hugsanlegt ójafnræði og gaf vilyrði fyrir því að það ójafnræði verði bætt af fjármunum ríkisins til lengri tíma litið.

Sjóðfélagar á almennum vinnumarkaði hafa ítrekað bent á að fyrirhuguð skattlagning felur í sér ólögmæta mismunun sem brýtur gegn jafnræðisreglu og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem hún mismunaði gróflega milli launþega á almennum markaði annars vegar og hjá hinu opinbera hins vegar.

Mismunun milli almenna og opinbera markaðarins kemur til vegna þess að opinberir lífeyrissjóðir njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum við lífeyrisþegana og því mun ekki koma til skerðingar greiðslna til þeirra. Almennu lífeyrissjóðirnir þurfa hins vegar að aðlaga réttindi sjóðsfélaga sinna og greiðslur til þeirra raunverulegri fjárhagsstöðu sjóðsins og heildarvirði eigna hans.

Í kjölfar efnahagshrunsins hér á landi er staða þessara sjóða í mörgum tilvikum þannig að þeir geta vart tekið við frekari virðisrýrnun eða kostnaði án þess að skerða réttindi sjóðsfélaga sinna að sama skapi. Launamenn á almennum markaði þurfa því að sæta skerðingu sinna réttinda og til viðbótar bera í gegnum almenna skattkerfið þann aukna kostnað sem ríkið þarf að leggja opinberu lífeyrissjóðunum til vegna ríkisábyrgðarinnar. Þetta er óásættanleg mismunum þar sem hún kemur þannig út að verið er að leggja um 3% skatt á þröngan hóp fólks og þann hóp sem síst skildi, því hann verður einvörðungu innheimtur hjá núverandi örorkubóta- og lífeyrisþega í almenna lífeyriskerfinu í formi skerðingar réttinda.

Einnig hefur verið gagnrýnt að með þessu sé verið að hleypa stjórnmálamönnum í sparifé launamanna, undir því yfirskyni að verið sé að skattleggja hreina eign lífeyrissjóða. Hún er ekki til, þar í lögum er kveðið á um skuldbindingar lífeyrissjóða um að skerðinga séu ekki fyrirliggjandi innistæður fyrir skuldbindingum, og svo á hinn bóginn að auka réttindi séu inneignir umfram skuldbindingar.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég sem hélt að lífeyrissparnaður væri eign fólksins en ekki ríkisins. Þetta væri þvingaður sparnaður og launþeginn þyggði lægra laun í samræmi við mótframlag vinnuveitandans.

Viðkomandi launþegi greiddi síðan sína launaskatta þegar útgreiðsla hæfist.

Þessi nýji skattur er því ekkert annað en tvísköttun á sömu eign.

"Rikið það er ég"

Var ég að missa af hverju ?

Kveðja,
Björn Kristinsson

Nafnlaus sagði...

65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Úr Stjórnarskránni. Og mér sýnist að með þessari skattheimtu sé verið að mismuna fólki.

ÞÚB

Haraldur sagði...

Algjörlega samála.
Að lokum heiti ég því að kjósa fjórflokkinn aldrei aftur.
Og hvet aðra til þess líka.