þriðjudagur, 17. janúar 2012

Réttlætisvitund samfélagsins ofboðið

Ein af meginniðurstöðum Rannsóknarskýrslunnar var að Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra hafi sýnt alvarlega vanrækslu í starfi og látið hjá líða að grípa til ráðstafana með skelfilegum afleiðingum. Geir er talinn hafa leynt þjóðinni nauðsynlegum upplýsingum í aðdragandi hrunsins, en reyndi í stað þess að blekkja hana fram á síðustu stundu.

Þar ber líklega hæst höfnun hans á boði Mervins Kings, bankastjóra Englandsbanka, um hjálp við að draga úr stærð íslensku bankanna, þetta hefur m.a. komið fram í máli þáverandi seðlabankastjóra Davíðs Oddsonar, sem verður örugglega kallaður fyrir Landsdóm sem vitni og til þess að staðfesta fyrri orð um að hann hafi ítrekað en árangurslaust aðvarað þáverandi forsætisráðherra.

Niðurstaða Landsdóms mun snúast um hvort Geir H. Haarde hafi orðið á alvarleg afglöp sem forsætisráðherra . Hann er ekki fórnarlamb í þessu máli. Hann var gerandi og það er þjóðin sem er fórnarlambið. Hún ber tjónið, tugir þúsunda heimila í rúst og fjölmargir sem glötuðu öllu sínu sparifé.

Þegar mál níumenninga voru fyrir dómstólum komu víða fram áskoranir til þáverandi dómsmálaráðherra að hann skyldi láta málið niður falla.

Ögmundur svaraði þá ; „Ég get ekki, sem dómsmálaráðherra, haft afskipti af málinu meðan það er í þessum farvegi. Það er fyrir dómstólum og það er ekki á mínu valdi að hafa afskipti af málinu meðan það er þar. Við höfum haft okkar skoðanir á því hvort þetta mál ætti að fara inn í þann farveg sem það fór. Það gerði það hins vegar. Það er fyrir dómstólum og við sjáum hvað kemur út úr því."

Það er óbærilegt horfast í augu við að nú hefur sami dómsmálaráðherra skipt um skoðun og telur sjálfsagt að Alþingi grípi inn í dómsmál sem dómstóll hefur tekið til umfjöllunar.

Hvers vegna vill Ögmundur að koma í veg fyrir að okkur takist að lagfæra Ísland. Leiðrétta stöðu okkar gagnvart klíkusamfélaginu sem hefur svo sterk ítök. Hvers vegna? Er Ögmundur að afhjúpa sig sem fulltrúa samtryggingakerfis stjórnmálastéttarinnar?

Nánast á hverjum degi eru fluttar fréttir af því þegar öllum brögðum í bókinni er beitt til þess að komast hjá því að lenda fyrir dómstólum. Þar koma ekki fram nein rök þar sem tekið er á inntaki kæru. Hingað hafa komið margir heimsfrægir einstaklingar í baráttu gegn spillingu. Þeir hafa allir varað okkur við þessu, miklum fjármunum verði varið í að koma í veg fyrir að kafað verði í hvað gerðist og hvað menn höfðust að.

Það varð hér fullkomið kerfishrun á meðan Geir var við völd. Fyrir liggja gögn um að honum hafi verið fulljóst hvert stefndi og hann hefði getað gripið í taumana og komið í veg fyrir að afleiðingar þess yrðu ekki svona alvarlegar yfir fjölskyldur þessa lands. Vitanlega fær Geir tækifæri til þess að skýra sitt mál.

Það er þetta sem virkar svo illa mann, þessi nálgun staðfestir að klíkusamfélagið er sterkt og samtryggingin er að takast að koma í veg fyrir að kallaðir verði fyrir Landsdóm fyrrv. ráðherrar, stjórnarmenn Seðlabanka, Seðlabankastjórar, þingmenn og embættismenn sem komu með einum eða öðrum hætti að stjórn (réttara að segja stjórnleysi og afskiptaleysi) landsins sem leiddi til þess að Hrunið varð mun víðtækara hér en annarsstaðar og bitnaði mun harðar á almennum borgurum.

Eigum við að gefast upp og hætta að taka á málum?

Samþykkja það sem virðist vera orðin viðtekin skoðun á Alþingi. Virða einskis skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?

Láta klíkusamfélagið koma í veg fyrir að skoðað verði hvað fór úrskeiðis, svo hægt sé að læra af mistökunum?

Það er svo margt komið fram, sem segir okkur að það er búið að ljúga mjög miklu að þessari þjóð. Réttlætisvitund okkar krefst þess að þessir menn mæti í réttarsal eiðsvarnir um að segja satt og rétt frá.

Ef það verður ekki gert, þá eru þingmenn að upplýsa okkur um að þeir séu samtvinnaðir klíkusamfélaginu. Krabbameinið mun grafa sig enn dýpra í þjóðarsálinni.

Réttlætisvitund okkar segir að ef menn hafi ekkert að óttast og Geir hafi ekkert gert rangt af sér, þá ættu þessir hinir sömu að berjast fyrir því að réttarhöldin fari fram fyrir opnum tjöldum og séð til þess að fjölmiðlamenn fjalli ítarlega um allt það sem fram komi fyrir Landsdóm.

Þá fyrst getur þjóðin kveðið upp sinn dóm byggðum á eiðsvörnum vitnaleiðslum. Þá kemur loks fram hvort skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis eigi við rök að styðjast.

Við eigum þetta skilið eftir allt það sem á okkur hefur dunið. Við getum ekki sætt okkur við að fáir einstaklingar samtvinnaðir klíkusamfélaginu taki þann rétt frá okkur og geri okkur að búa áfram í hinu eitraða andrúmslofti.

Réttlætisvitund samfélagsins ofbýður ef nú eigi að nema staðar og slíta Landsdómi.

18 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í þessu tilviki er ákæruvaldið hjá Alþingi, ekki hjá sjálfstæðu ákæruvaldi eins og hjá þeim sem réðust inn í Alþingishúsið. Smá munur þar á.

Guðmundur sagði...

Þessi fullyrðing er nú út í hött, hlutirnir gjörsamlega á haus. Alþingi samþykkti að vísa málinu til dómstóls og þar með er málið ekki lengur í höndum Alþingis.

Skorrdal sagði...

Afhverju ættu atvinnulygarar að segja satt, þótt þeir séu "eiðsvarnir"? Þú verður að fyrirgefa mér þessa ofurtrú þína, Guðmundur, að fólk skuli segja satt, bara vegna þess að það lofar því í einhverjum sal. Þetta gæti hinsvegar orðið til þess að menn fari að segja frá, til að klekka á öðrum - en er það tilgangur sannleikans?

Ekki það; þessi endemis vitleysa í Ögmundi er svo sem ekkert óeðlileg, miðað við hans veru í kerfinu síðustu þrjá áratugina eða þar um bil; hann ER kerfið.

Nafnlaus sagði...

Alþingi fer með ákæruvaldið í þessu máli og getur hvenær sem er ákveðið að fella það niður. Alveg eins og ríkissaksóknari getur ákveðið hvenær sem er að fella niður ákæru.

Mál níumenninganna var annars konar. Þar var saksóknari sem á að vera sjálfstæður í störfum að taka ákvörðun um saksókn og ráðherra eða þing hafa ekkert með að skipta sér af því. Í máli Geirs þá er Alþingi ákærandinn og saksóknari Alþingis sem rekur málið er ekki sjálfstæður saksóknari heldur lýtur valdi Alþingis.

Ákæruvald er mikið alvörumál og á ekki að notast í pólitískum tilgangi. Það á bara að ákæra ef það eru meiri líkur en minni á sakfellingu. Í þessu máli þá er sakfelling ólíkleg. Það er búið að vísa frá dómi aðal ákærunum. Eftir standa ákæruatriði sem erfitt er hönd að festa á og eru mjög matskennd, óskýr og illa skilgreind. Svo er líka komið á daginn að neyðarlögin, sem Geir stóð fyrir voru það sem björguðu miklu eins og komið hefur í ljós.

Þegar þetta liggur allt fyrir þá á auðvitað að hætta við málið.

Nafnlaus sagði...

Undanfarin ár hafa verið sambærileg við að renna stjórnlítið niður fjallshlíð í hjarni. Alltaf vonast maður eftir því að fá e-h viðspyrnu og ná að stöðva skriðið svo athuga megi með trausta leið upp hlíðina aftur.
En alltaf fjölgar hamrabeltunum sem maður steypist fram af og óþægilegar nibbur standa víða uppúr snjónum.
Ógilding stjórnlagaþingskostninganna, lausaganga bankstera, skuggabaldrar á Alþingi og endalaust klúður eftirlitsstofnanna andverðleikasamfélagsins gera það að verkum að svo virðist að "ógæfu Íslands verði nú allt að vopni".
Verst af öllu er að ég ber ekkert traust til dómskerfisins til þrautavara.

kv
Sigurður Sunnanvindur

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr. þú kemur nákvæmlega að kjarna málsins.

Ef Alþingi ætlar sér að fara að grípa fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu er verr fyrir Íslandi komið en ég hélt.

Ákveðinn hópur sem hefur alfarið afneitað hruninu, sá hópur horfist nú í augu við að þurfa að axla ábyrgð og það er honum um megn.

Þegar þeir verða leiddir fram í vitnastúku komast þeir ekki upp með að vera með út og suður skýringar.

Nafnlaus sagði...

Um þetta snýst málið. Svo eru þeir sömu sem vilja draga þetta mál til baka og vísa alltaf í ábyrgð, gaman væri ef þeir gætu sagt okkur ábyrgð hverra.
Kv Sigmundur

Nafnlaus sagði...

Beint í mark eins og svo oft áður. Senn líður að því að Sjálfstæðisflokkurinn og hinn réttsýni dómsmálaráðherra okkar krefjist þess að þingið samþykki að banna með öllu að lögsækja flokksbundna sjálfstæðismenn vegna hrunsins.

kv Kristinn

Nafnlaus sagði...

Alþingi er ákærandi í máli Geirs Haarde, skrifstofustjóri Alþingis kærði níumenningana. Kynna sér málin Guðmundur, svo þú látir ekki gata þig einu sinni enn.

Ákærandi getur látið mál niður falla ef honum sýnist. Það gerist oft ef nýjar upplýsingar koma fram í málum, ákveðnum þáttum ákærunnar er vísað frá svo dæmi séu tekin. Það síðara átti sér stað í málarekstrinum gegn Geir, nokkrum af helstu ákæruliðunum var vísað frá.

Það er búið að fá úr því skorið án nokkurs vafa t.d. frá lagadeild HÍ að ákærandi getur hvenær sem er dregið ákæruna til baka. Guðmundur getur svo sem barið höfðinu við steininn, en þetta eru reglurnar.

Líkurnar á sakfellingu eru litlar, það eru flestir sammála um. Þetta mál er pólitískt, í anda samfylkingarinnar sem kaus í anda einhverrar klækjapólitíkur, til þess eins að skera eigin liðsmenn niður úr snörunni, en láta aðra hanga. Stórmannleg sú hugsun?

Sem betur fer er tími þessarar ríkisstjórnar senn á enda. Þetta mál mun hrista stjórnina, síðan verður kjarasamningum sagt upp, enn meiri skjálfti, síðan mun engin sátt nást um þessar snargölnu hugmyndir í sambandi við sjávarútvegskerfið sem á að afgreiða á korteri, og þá erum við laus við þessa ömurlegustu ríkisstjorn íslandssögunnar.

Nafnlaus sagði...

FLokkurinn er orðinn ólæknandi krabbamein í þjóðarsálinni, ekki er hægt að skera burt 50% af henni. Því er Ísland komið á sama punkt og 1262 og það eitt til ráða að fela annarri þjóð stjórn þessa lands.

Guðmundur sagði...

Mikið lifandis ósköp tekst sumum alltaf að víkja sér undan því að horfast í augu við það sem málið snýst um, en saka svo aðra um að berja hausnunm við steininn og fleira í þeim dúr.

Málið snýst um siðferði og réttlætisvitund.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis koma fram alvarlegar aths. við efnahagstjórn Geirs H Haarde, mj0ög alvarlegar.

Þetta hefur verið stutt enn frekar með gögnum sem hafa komið síðar fram.

Almenningur í landinu vill sjá þetta mál krufið og sjá hvort þetta sé rétt.

Viðbrögð Geirs og hans fylgismanna hafa í engu snúsit um ásökunarefnið heldur alfarið að víkja sér undan því að þurfa að svara og að koma í veg fyrir að fram verði leidd vitni í málinu.

Það gerir ekkert annað en að staðfesta enn frekar grun almennings um sekt Geirs og hans félaga og krafan verður enn skýrari um að málið verði tekið fyrir.

Nafnlaus sagði...

Efnislegar ástæður eru fyrir ákærunum, sem eru unnar upp úr ítarlegum gögnum rannsóknarskýrslu Alþingis og þingmannanefndar. Landsdómur hefur þegar hafnað frávísunarkröfu verjanda. Afskipti Alþingis af málinu nú er aðför að réttlætisvitund landsmanna og réttarfari á Íslandi.

Samkvæmt stjórnarskrá Íslands eru allir jafnir fyrir lögum, líka stjórnmálamenn.

Guðmundur sagði...

Þetta er ekki einkaréttarlegt mál sem ákærandi getur dregið til baka hvenær sem er. Ef Alþingi íhlutast í málareksturinn væri það gróflega að brjóta gegn þrískiptingu valdsins, koma í veg fyrir nauðsynlegt uppgjör eftir Hrunið og að ýmislegt vafasamt líti dagsins ljós. Afleiðingar þess verða örugglega mun erfiðari og langvarandi en afleiðingar dómsmálsins fyrir Geir Haarde.

Að íslenskri venju hafa sumir lögmenn tamið sér að túlkað lögin í þröngri merkingu, mannréttindi eru í engum hávegum höfð og ekki heldur hugmyndin um fólkið, þjóðina, sem uppsprettu og réttlætingu laganna.

Guðmundur sagði...

Í huga landsmanna skiptir mestu hvernig er stjórnað en í hugum þingmanna hver stjórnar. Þetta er hin raunverulega gjá á milli þings og þjóðar og tveir kostir í boði: Skipta þinginu út eða þjóðinni.

Nafnlaus sagði...

Væri ekki ráð að spyrja þau sem þora ekki að horfast í augu við vitnaleiðslur fyrir Landsdóm og þær upplýsingar sem þar munu koma fram, hversu háar skaðabætur þau telji eðlilegt að íslenska þjóðin greiði Geir Haarde fyrir þau óþægindi sem hann hefur orðið fyrir af völdum hins "svokallaða hruns"

Guðmundur sagði...

„Eftir að Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um málshöfðun og kosið saksóknara Alþingis, varamann og þingnefnd er málið komið úr höndum þingsins. Alþingi getur ekki eftir það afturkallað málsókn, hvorki hið sama þing né nýskipað.“

Þetta skrifaði Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde, um ráðherraábyrgð og landsdóm í grein í Tímarit Lögfræðingafélagsins haustið 2009.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag og hefur eftir Andra að hann sé enn sömu skoðunar enda sé þetta hin hefðbundna túlkun í lögfræði, komin frá Ólafi Jóhannessyni og fleiri fræðimönnum. Það sé saksóknarans en ekki Alþingis að fella málið niður.

„Menn hafa velt því upp að þingið álykti um að það telji að fella eigi málið niður, en í dagslok er það alltaf saksóknarinn sem þarf að gera það,“ hefur Fréttablaðið eftir Andra sem segir einnig að málið lúti að sjálfstæði saksóknara. „Ef Alþingi ályktar að það telji ekki ástæðu til að hafa uppi ákæru, er erfitt fyrir saksóknara að halda uppi máli,“ segir Andri Árnason.

Nafnlaus sagði...

Þú talar um að réttlætisvitund samfélagsins sé ofboðið. Það er þá réttlætisvitund!!

Minni réttlætisvitund er bara verulega ofboðið við að lesa þennan póst þinn og umsagnir sumra um þetta mál.

Hér er um að ræða sakamál gegn einstaklingi þar sem hann er dreginn fyrir dóm fyrir tiltekin ætluð brot. Þetta mál er illa rannsakað, ýmsar grundvallar mannréttindareglur þverbrotnar, og ákæruatriðin alls ekkert skýr og allt mjög matskennt. Til að refsa einhverjum þarf að vera skýr refsiheimild í lögum og með rökstuddum hætti þarf að vera hægt að tengja orsök og afleiðingu. Það er ekki hægt í þessu máli.

Þessi málarekstur er til skammar og á auðvitað að hætta við hann og biðja manninn afsökunar á ónæðinu.

Þeir sem tala hérna um að þessi réttarhöld séu eitthvað uppgjör eru á villigötum og satt að segja með verulega brenglaða vitund á því hvað er rétt og rangt og hafa rauninni engan skilning á því hvað réttlæti og mannréttindi eru.

Þegar einhver einstaklingur er tekinn fyrir og ákærður þá verður það mál að vera rekið á réttan hátt. Það er ekki hægt að snúa slíku upp í einhverja hefndaraðgerð eða uppgjör.

Menn ættu aðeins að slaka á í heiftinni. Væru þeir sem mest gapa hérna tilbúnir til að vera ákærðir með svipuðum hætti þar sem gefinn er verulegur afsláttur af mannréttindum hins ákærða og tilgangur ákærunnar annar heldur en ákæruatriðin segja fyrir um?

Guðmundur sagði...

Hér talar maður sem virðist vera sannfærður um að Geir H. Haarde verði fundinn sekur um þau atriði sem fram hafa verið sett með ítarlegum hætti í Rannsóknarskýrslu og voru staðfest af þingnefnd og Alþingi sem sendi málið fyrir Landsdóm.

Hann gefur sér að Geir geti ekki svarað fyrir sig og að þau vitni sem fyrir dóminn komi styðji þá niðurstöðu.

Maður er ekki hissa á að menn sem eru svona vissir um sök Geirs séu hræddir við niðurstöðuna og vilji ekki að hún komi fram.

Ég hef aftur á móti verið að benda á að réttlætisvitund fólk væri misboðið ef þingmenn telji sig geta kippt málum út úr dómskerfinu og spyr hvert leiðir það fordæmi okkur.

Það er um það sem þetta mál snýst.

Það á svo eftir að koma í ljós hvort Geir verði fundin sekur af einhverju.

Ég treysti mér ekki til þess að fella um það dóm.