fimmtudagur, 19. janúar 2012

Sjálfbærni lífeyrissjóða

Undanfarið hefur verið mikið rætt um sjálfbærni lífeyrissjóða og þær mismundandi kröfur sem þingmenn og stjórnvöld setja lífeyrissjóðum. Þeir hafa sett lög um að allir aðrir lífeyrissjóðir en þeirra eigin verði að vera sjálfbærir, það er að iðgjöld og ávöxtun standa undir útborgun lífeyris. Ef iðgjöld og ávöxtun standi ekki undir skuldbindingum verði að skerða lífeyri. Ef iðgjöld og ávöxtun er umfram útborgun lífeyris verði að hækka lífeyri.

Benedikt Jóhannsson stærðfræðingur hefur farið nokkrum sinnum ítarlega yfir þetta í vikuriti sínu Vísbendingu í vetur og bent á hversu alvarleg staða sé að skapast í lífeyriskerfi þingmanna og ráðherra og nokkurs hóp opinberra starfsmanna. Lífeyriskerfi þessa hóps sé allnokkuð fjarri því að vera sjálfbært og hefur Benedikt sýnt fram að skuldir þessa kerfis skipti hundruðum milljarða og fari hratt vaxandi.

Benedikt hefur margsinnis tekið undir með ASÍ og SA að þetta sé t.d. orðin óbærilegur þáttur í uppgjöri nokkurra sveitarfélaga. Þar vanti allt að 90% að þeirra sjóðir eigi fyrir skuldbindingum. Það liggi fyrir að skerða verði enn frekar í opinberri þjónustu ef standa eigi skil á þessu, en það alvarlega sé að verið sé að vísa lífeyrisskuldbindingum til barna okkar með fyrir liggjandi skattahækkunum. Fjármálaeftirlitið hefur tekið undir útreikninga Benedikts og sett fram þá kröfu að þingmenn og stjórnvöld verði að hækka iðgjöld um 4% eða upp í 19%.

Þingmenn og ráðherrar vilja halda í sín forréttindi og víkja sér undan því að taka á þessum vanda. Að venju er gripið til útúrsnúninga og bent á að þetta sé ekkert vandamál, þeir ætli að láta Tryggingarstofnun redda þessu. Getuleysi samfara ábyrgðarleysi og sérhlífni ræður að venju alfarið för, og tillitleysi til skattborgara og ekki síðir til barna og barnabarna.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mjög athyglisvert.

Kærar þakkir fyrir upplýsandi skrif.

Enn sannast að óhæf og siðlaus stjórnmálastétt er bölvun þessa samfélags,

Nafnlaus sagði...

Eru lífeyrissjóðirnir með jafn hreinan skjöld sjálfir, eins og þeir vilja vera láta? Hvað með rekstrarkostnaðinn, sem sagður er afar hár? Hvað með gríðarleg töp í hruninu vegna allskonar áhættubrasks, sem varla telst lífeyrissjóðum sæmandi? Hvað með framvirku gjaldeyrissamningana(gjaldeyrisbrask)sem ollu gríðar miklu tapi sjóðana? Útgjöldin eru nefnilega fleiri en greiðslur lífeyrisþega, miklu fleiri. Það hljómar aldrei vel þegar syndaselir tala eins og væru þeir heilagir menn.

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þér.
Ólafur Sveinsson

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 16:34
Hvaða lífeyrissjóði ertu að tala um?
Voru allir með framvirka samninga?
Er reksturskostnaður þeirra allra hár?
Voru allir lífeyrissjóðirnir í áhættubraski?
Hvaða syndaselir tala eins og heilangir menn?
Svona alhæfingar eru fullkomlega merkingarlaust hjal.

Nafnlaus sagði...

Stilltu þig, Guðmunur. Kom ég við einhverja kviku? Sjálfur skrifaðir þú um lífeyrissjóðina almennt, eins og ég. Ef ég var að alhæfa þá gerðir þú það ekki síður - og á undan mér. Ég held að greining á hverjum og einum lífeyrissjóði sérstaklega yrði alltof langt mál og flókið fyrir svona athugasemdadálk.

Guðmundur sagði...

Ég er gasalega rólegur yfir þessu. Bara að benda á endurteknar alhæfingar skila okkur engu, sérstaklega þessar innistæðulausu.
Rekstrarkostnaður flestra íslenskra lífeyrissjóða er sá lægsti sem þekkist. Fullyrðingar um áhættubrask þarf að rökstyðja.