sunnudagur, 16. september 2012

Beint lýðræði tryggt



Á kjörseðlinum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. er spurt um hvort að í nýrri stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lagafrumvörp frá grasrótinni og að frumkvæði kjósenda er tvímælalaust djarfasta nýmælið í tillögum Stjórnlagaráðs um beint lýðræði. Þar er um að ræða tvær tillögur.

Önnur gerir ráð fyrir að 10% kjósenda fái rétt til þess að vísa lögum í þjóðaratkvæði. Þar fær þjóðin sama rétt og forsetinn hefur, að undanskildum lögum um skatta, fjárlög, þjóðréttarskuldbindingar og ríkisborgararétt. Alþingi getur leitað eftir málamiðlun við forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar fallist þingheimur ekki á frumvarpið óbreytt. Náist hún ekki fer frumvarp kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, en einnig gagntillaga sem Alþingi kann að leggja fram.
 
Í tillögum Stjórnlagaráðs er vægi forseta áþekkt núverandi skipulagi, en staða hans og hlutverk er gert skýrara. Hingað til hefur helsta vald forseta þótt felast í málskotsréttinum, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Með því að færa það vald til ákveðins hlutfalls kjósenda, er dregið úr valdavægi forsetans í stjórnskipan landsins.
 
Hinn hluti tillögu Stjórnlagaráðs um beint lýðræði er tillaga um að 2% kjósenda geti lagt mál fyrir Alþingi, sem fer á dagskrá þingsins og er þar jafnrétthátt öðrum málum sem fyrir þinginu liggja. Í þessu tilfelli getur Alþingi fellt tillöguna, en þá ekki fyrr en eftir eðlilega málsmeðferð.
 
Í greinargerð Stjórnlagaráðs kemur fram að mikilvægt sé að Alþingi setji lög um framkvæmdina og hvernig undirskriftasöfnun geti farið fram. Hér er stigið mikilvægt skref í valddreifingu með hæfilegri blöndu af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði fólksins. Stuðningsmenn beins lýðræðis mæta á kjörstað og segja já.

Engin ummæli: