mánudagur, 17. september 2012

Viltu vera þátttakandi í endurskoðun stjórnarskrárinnar?


Undanfarið ár hef ég lent í mörgum viðtölum við erlenda fjölmiðlamenn. Aðferð íslendinga við að endursemja stjórnarskránna vakti gríðarlega athygli og íslendingar öfundaðir af því hvernig þeir hafi staðið að semja nýja stjórnarskrá. Þegar fólk kemur saman og við leyfum hverjum og einum að njóta sín verður til eitthvað nýtt og jafnvel eitthvað óvænt. Vald fólksins verður til og fæðir af sér nýja möguleika, eins og endurspeglaðist ákaflega vel í störfum Stjórnlagaráðs sem var allan tíman í beinu sambandi við þjóðina.

Stjórnmál hafa aftur á móti verið vettvangur átaka þar sem afli er beitt fremur en skipulegri umræðu og samstarfi og hafa þar af leiðandi ekki fært okkur neitt nýtt. Stjórnarskrá setur stjórnmála- og ráðamönnum leikreglur. Þess vega þarf að tryggja aðkomu fólksins í landinu að því að setja þær leikreglur og það hefur íslendingum tekist með eftirminnilegum hætti hafa hinir erlendu gestir haft á orði.

Í aðfaraorðum í frumvarpi Stjórnlagaráðs stendur m.a.: "Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu. Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum."

Stjórnarskrá er kjölfesta í þjóðfélaginu þar sem hún mælir fyrir um skipulag ríkisins, meðferð ríkisvalds og verkaskiptingu handhafa þess, löggjafans, framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins. Það hefur verið gagnrýnt að orðalag í núgildandi stjórnarskrá kveði ekki nægilega skýrt á um hlutverk forseta, ráðherra, alþingis og dómstóla. Einnig má benda á að á Íslandi er þingræði en slíkt kemur ekki fram í núgildandi stjórnarskránni, auk þess að þar kemur ekki fram að Ísland sé lýðræðisríki.

Núgildandi stjórnarskrá er sú þriðja sem Ísland hefur haft hún var samþykkt árið 1944 þegar ákveðið var að rjúfa sambandið við Danmörk. Fyrstu stjórnarskránna færði Kristján IX. Danakonungur Íslandi árið 1874. Aðra stjórnarskrá sína samþykktu Íslendingar árið 1920 í kjölfar þess, að íslenska ríkið var orðið fullvalda og sjálfstætt ríki í konungssambandi við Dani árið 1918.

Aðdragandi að samþykktar stjórnarskrárinnar 1944 var ekki langur, og í raun var gengið út frá því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar skyldi gerð fljótlega. Uppbygging núgildandi stjórnarskrár ber keim af þessu og er að hún er að stofni til frá 19. öld. Þannig er kaflinn um mannréttindi aftastur, en hann er víða fremstur í nýlegri stjórnarskrám. Einstakar breytingar hafa þó náð fram að ganga, oftast hafa þær snúist um tilhögun kosninga og kjördæmaskipan, en einnig umfangsmeiri, svo sem endurskoðun á mannréttindakaflanum árið 1995 og á starfsháttum Alþingis 1991.

Fyrsta spurning á kjörseðlinum 20. okt. er um hvort tillögur Stjórnlagaráðs verði til grundvallar að nýrri stjórnarskrá, mitt svar er já. Þjóðin hlýtur öll vilja vera virkur þátttakandi í þessu starfi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mitt svar við dyrstu spurningu verður NEI! og síðan svara ég ekki meiru í þessari skoðanakönnun.

Einn "þjóðfundur" og í framhaldinu kosningar, sem í þokkabót voru dæmdar ólöglegar af Hæstarétti, gaf ekkert af sér nema nefnd sem ríkisstjórnarflokkarnir gátu sætt sig við og látið ríkissjóð borga fyrir allt of hátt verð. Þið voruð aldrei og munuð aldrei verða mínir fulltrúar til eins eða neins!

Halldór Halldórsson
Hafnarfirði

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skýra og vel skrifaða pistlar Guðmundur um spurningar þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Allt vinnuferlið við gerð gerð nýrrar stjórnarskrár hefur verið gott og til fyrirmyndar. Þið öll með glæsilega kosningu hvert og eitt ykkar með margfallt atkvæðamagn alþingismanns, varst þú ekki með um 15 þús. atkvæði? En sérhagsmunadeildin þoldi þetta ekki vildi reyna að eyðileggja þetta og tókst að benda á atriði sem breyttu engu um niðurstöðu kosninganna.

Nafnlaus sagði...

Ég held að þetta stjórnarskrámál sé hraustlea ofmetið af þeim sem skipuðu þessa nefnd, og eins af ríkisstjórn.

Ég ætla að spá ca 20% kosningaþáttöku, var hún ekki einhver 30% síðast?

Þetta er ekki það sem landsmenn telja brýnasta málið í dag, á meðan yfirdrátturinn hleðst upp eftir að séreignasparnaðurinn kláraðist og um helmingur heimilanna í landinu er annað hvort gjaldþrota eða á leið í gjaldþrot.