sunnudagur, 16. september 2012

Náttúran og auðlindaákvæðið



Neikvæðu á að mæta með jákvæðu. Niðurrifi á að mæta með uppbyggingu. Einræði og kúgun á að mæta með auknu lýðræði. Sérhagsmunahópar hafa gengið öndverða leið og náð um of að einoka íslenskt samfélag og beitt aðstöðu sinni til þess að verja sjálftekna stöðu. Krafa almennings hefur verið sú að ná tilbaka sem af honum hefur verið tekið.
Umræða um náttúruna og auðlindir landsins hefur verið áberandi undanfarin misseri og var eitt af aðalmálum Þjóðfundar með ákalli um sérstakt auðlindaákvæði í stjórnarskránna. Þjóðin hefur ekki verið sátt við hvernig þessi mál hafa þróast. Þar blasa við geigvænlegar skuldir sjávarútvegsins, yfirveðsetningu, afskriftir og byggðaröskun.

Í vinnu Stjórnlagaráðs var þessi umræða umfangsmikil. Náttúra Íslands, sem á að vernda,  er undirstaða lífs í landinu og tryggja rétt á heilnæmu umhverfi, samfara því að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Við eigum að haga nýtingu náttúruverðmæta þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. 

 Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Tillögur Stjórnlagaráðs í auðlindamálum eru skýrar og miða að því að þjóðin endurheimti aftur yfirráðaréttinn yfir fiskimiðunum. Tillögurnar tiltaka ekki nákvæmlega hvernig auðlindastjórn skuli háttað yrði henni breytt og er það vísvitandi gert. Tillaga Stjórnlagaráðs miðast við leiðréttingu og framtíðarskipan þessara mála með heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Í kosningum 20. okt. næstk. er spurt um hvort náttúrulindir sem ekki eru í einkaeigu verði lýst sem þjóðareign. Mitt svar er já. Sá sem ekki mætir á kjörstað er í raun að lýsa því yfir að hann styðji óbreytt fyrirkomulag í auðlindamálum.

Engin ummæli: