mánudagur, 17. september 2012

Stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkjuna


Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur Stjórnlagráðs 20. okt. n.k. er spurt um hvort það eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í nýrri stjórnarskrá. Það er ekki verið að spyrja um hvort aðskilja eigi kirkju og ríki og heldur ekki hvort það eigi að vera þjóðkirkja eða ekki, heldur um það hvort það sé ástæða að tilnefna í nýrri stjórnarskrá ákveðna trúarskoðun umfram aðra.

Mál þjóðkirkjunnar hafa verið ofarlega í þjóðmálaumræðunni undanfarinn misseri og var áberandi á Þjóðfundinum 2010, þar voru skiptar skoðanir, sama á við um Stjórnlaganefnd og svo Stjórnlagaráð. Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að fara svipaða leið að og nágrannaþjóðir okkar hafa farið og gera ekki einni trúarskoðun hærra undir höfði en öðrum í stjórnarskrá. Það er áberandi vilji meðal þjóðarinnar að gera öllum trúarskoðunum jafnt undir höfði og þjóðin ætti að geta breytt þessu í samræmi við tíðarandann hverju sinni án þess að þurfa að fara í gegnum umfangsmikið ferli við að breyta stjórnarskránni.

Í núgildandi stjórnarskrá stendur:
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.

79. gr. Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. er spurt um hvort ástæða sé til þess að hafa ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá.

Í tillögu Stjórnlagaráðs er þetta ákvæði svona :
19. gr. Kirkjuskipan. Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Ef svarað er vill kjósandinn að hin evangelisk lúterska kirkja verði áfram stjórnarskrárvarin þjóðkirkja á Íslandi.

Ef svarað er nei vill kjósandinn að ein tiltekin trúarstefna sé ekki lengur nefnd sérstaklega í stjórnarskrá. En þau lög sem gilda um þjóðkirkjuna vera eftir sem áður óbreytt, en ef það á breyta þeim lögum verður að bera það undir þjóðina.

Sjálfur mun ég svara spurningunni með nei, enda tel ég það vera í samræmi þá umræðu sem hefur verið um þessi mál undanfarinn misseri, að það gangi ekki lengur að einungis ein trúarstefna njóti stjórnarskrárverndar. Ef ekki er mætt á kjörstað er verið að stuðla að óbreyttri stöðu þessara mála.

Engin ummæli: