Því er haldið fram að engin efnisleg umræða hafi farið
fram um tillögur Stjórnlagaráðs, þrátt fyrir að þær voru unnar upp úr ítarlegum
tillögum Stjórnlaganefndar, sem höfðu verið unnar úr niðurstöðum þúsund manna Þjóðfundar,
þar sem sat þverskurður af þjóðinni valinn með slembiúrtaki.
Á meðan vinnu Stjórnlagaráðs stóð var leitað til
fjölmargra sérfræðinga, auk þess að þjóðin var í beinu sambandi við ráðið í
gegnum fundi og yfir netið. Tillögur Stjórnlagaráðs hafa verið til umfjöllunar
á allmörgum nefndarfundum og að lokinni þeirri vinnu var ákveðið að bera nokkur
atriði undir þjóðina áður en Alþingi afgreiddi málið fyrir lok kjörtímabilsins.
Nú í aðdraganda kosninganna sjáum við varðmenn sérhagsmunasamtaka
hamast við að sannfæra fólk um að allar breytingar á Stjórnarskrá séu vondar. Reynt
er með öllum ráðum að þyrla upp moldviðri óttans og hræða sem flesta frá því að
mæta á kjörstað. Þar standa fremstir þeir sem telja sig eiga öll hlutabréfin í
samfélaginu Ísland og hafa náð þeim til sín í gegnum helmingaskipti á eigum
þjóðarinnar.
Þegar spurt er eftir rökum koma svör á borð við að til
standi að leggja niður þjóðkirkjuna og þá um leið jólin ásamt löggiltum frídögum
og taka krossinn úr íslenska fánanum. Hvar ætla menn að draga mörkin í þessu
tilræði að þjóðinni!! Svo vitnað sé til ummæla formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta
séu óljósar spurningar, illa unnar tillögur og annað í þeim dúr án þess að fara
nánar út í hvað það sé.
Hvað
er svona slæmt við það að Íslendingar fái að kjósa um nýja stjórnarskrá? Hvers
vegna er kvartað svona mikið yfir því að almenningur hafi kosið fulltrúa til
þessa verks án aðkomu stjórnmálaflokkanna? Hvað er svona sjálfsagt við það að
stjórnmálamennirnir skrifi stjórnarskrá fyrir okkur hin. ÆÆÆÆ Hvers vegna er
ekki hægt að treysta almenning til þess að taka ákvörðun um eigin hagsmuni? Er
það eitthvað sérstakt?
Í
þessi ferli öllu opinberast óttinn við að hagsmunir allra verði settir ofan
sérhagsmuna. Það má ekki bera það undir þjóðina hvort náttúruauðlindir séu
þjóðareign. Hingað til hefur atkvæðavægi verið misjafnt og kosningareglur með
hætti að uppröðun flokksskrifstofanna ræður því að mestu hverjir komast inn á
þing, liðlega helmingur þingmanna þarf ekki að óttast alþingiskosningar.
Enn
einu sinni skilur maður ekki rök forseta landsins. Nú segir hann að ekki sé
hægt að kjósa um stjórnarskrána nema það ríki friður meðal þjóðarinnar. Allir
muna hvaða rökum hann beitti þegar hann ákvað að láta kjósa um fjölmiðlalögin,
eða bera milliríkjadeilu undir þjóðina. Þar ríkti mikil deila um bæði meðal
þjóðarinnar og ekki síður meðal stjórnmálamanna. Öll munum við lætin í kringum
kjördæmabreytingarnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli