föstudagur, 14. september 2012

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?


Á Þjóðfundi árið 2010 og síðar í Stjórnlagaráði kom fram áberandi vilji til þess að jafna atkvæðavegi í landinu og eins að tryggja kjósendum jafna möguleika til þess að ráða sem mestu um hverjir veljist til þingsetu. Núgildandi kosningafyrirkomulag skerðir umtalsvert þetta frelsi kjósenda. Auk þess tryggir það fyrirfram að um helmingur þingmanna er í öruggum þingsætum þegar stóru flokkarnir eru búnir að stilla upp sínum listum, sakir þess að kjósendur fá í dag einungis að velja á milli flokkslista, sem settir eru fram í hverju kjördæmi í heilu lagi.
 
Kosningakerfið í frumvarpi Stjórnlagaráðs felur í sér kjördæmavarið landskjör. Það er ekki verið að afnema kjördæmin, þvert á móti er verið að rýmka heimild Alþingis til sveigjanleika. Í núgildandi stjórnarskrá segir að kjördæmiskuli vera 6 til 7, en í tillögum Stjórnlagaráðs geta þau verið eitt til átta talsins.
 
Gert er ráð fyrir að kjósandi geti kosið frambjóðendur af öllu landinu en landssvæðum er jafnframt tryggður lágmarksfjöldi þingsæta. Kjósendum er í sjálfsvald sett hvort þeir vilja gera upp á milli frambjóðenda eða ekki. Kjósandi getur farið núverandi leið og merkt einungis við einn lista í því kjördæmi sem hann býr, eða merkt við þá frambjóðendur sem hann treystir best. Velji kjósandi sér þrjá frambjóðendur, t.d. tvo úr flokki A en einn úr flokki B. skiptist atkvæði hans þá í sama hlutfalli milli þessara tveggja flokka.
 
Ákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs um þingkosningar eru hvorki umfangsmeiri né ítarlegri en gengur og gerist í stjórnarskrám. Ákvæði í norsku stjórnarskránni eru liðlega helmingi lengri en er í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Undan því verður ekki vikist að hafa ákvæði stjórnarskrá sem að lágmarki eru nægilega ítarleg til þess að meginmarkmiðin sem kosningalög eiga að byggja á, séu tryggð og varin fyrir skyndiákvörðunum og hagsmunagæslu sérhagsmuna. Til þess að tryggja þetta enn frekar verða breytingar á kosningalögum einungis gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi og slíkar breytingar má ekki gera ef minna en sex mánuðir eru til kosninga.

Hægt er að bjóða fram lista í einstökum kjördæmum eða á landsvísu. Frambjóðendur skipa sér á lista og hafa val um að bjóða sig fram á kjördæmis- og landslista. Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Þingsætum skal úthluta til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra. Fjöldi þingsæta er bundinn einstökum kjördæmum.
 
Ég ætla að mæta á kjörstað og merkja við já við þessa spurningu og hvet alla til þess sama. Með því erum við að auka lýðræðið í landinu og tryggja að vald kjósenda, sem er með tillögum Stjórnlagaráðs aukið umtalsvert á kostnað flokkseigendafélaganna.

Engin ummæli: