laugardagur, 15. september 2012

Atkvæðavægi - Persónukjör


Í umræðum um stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu á SV-horninu stillir dreifbýlisfólk málum gjarnan upp með þeim hætti, að það búi við einhverskonar samsæri af hálfu þéttbýlinga. Til þess að vinna gegn þessu samsæri verði að viðhalda mismunandi vægi atkvæða og þar með sé stuðlaða að öflugri atvinnutækifærum í dreifbýlinu og launakjör bætt, samfara því að minnka atvinnuleysi og slaka félagslega stöðu í dreifbýlinu.

Þessu er haldið fram þrátt fyrir að um áratugaskeið hafi verið mikið misvægi atkvæða. Þrátt fyrir það er atvinnuleysi hér á landi mest í úthverfum höfuðborgarinnar, sama á við slaka félagslega stöðu, hún er langmest í þéttbýlinu.

Í nýlegri könnun kom fram að 85% ungs fólks sætti sig ekki við þau kjör sem því er búið á Íslandi í dag. Ísland er að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar. Fólk er ekki einungis að flýja dreifbýlið, það er á leið úr landi og reyndar koma flestir þeirra sem flytja til útlanda frá þéttbýlissvæðum.

Vægi atkvæða hefur ekkert með atvinnu- eða kjaramál að gera. Það eru allt önnur atriði sem ráða því hvar fólk velur sér búsetu og hvert fyrirtækin leita þegar þau eru að koma sér fyrir og byggja upp starfsemi sína.

Það er þingræðið sem þarf að efla. Hér hefur ríkt of mikið ráðherra- og flokksræði og þingmenn verið valdalitlir. Yfirgnæfandi vilji er í landinu fyrir því að landið verði eitt kjördæmi. Í tillögum Stjórnlagaráðs er jafnframt tryggt að núverandi kjördæmi fái öll eitthvert lágmark þingmanna, eðlilegt væri að lágmarkið væru 5 þingmenn í hverju hinna núverandi kjördæma.

Í tillögum Stjórnlagaráðs vega atkvæði jafnt sama hvaða af landinu þau koma. Frambjóðendur geta boðið sig fram á kjördæmis og landslista sömu samtaka. Kjósandi velur lista í sinu kjördæmi en hann getur einnig með persónukjöri valið frambjóðendur á lista í sínu kjördæmi og líka valið frambjóðendur úr öðrum kjördæmum.

Ef hver kjósandi fær 5 atkvæði, getur hann valið þingmenn þvert á lista í landskjöri. Það eru umtalsverðar líkur á því að kjósendur nýti einhvern hluta atkvæða sinna til þess að kjósa þingmenn sem teljast vera dreifbýlismenn. Hvers vegna? Jú helmingur íbúa þéttbýlisins eru aðfluttir með mikil tengsl við dreifbýlið.

Með því kosningafyrirkomulagi sem Stjórnlagaráð leggur til er persónukjör tryggt, hin umdeildu prófkjör myndu missa vægi sitt og flokksræðið minnkar.

Á kjörseðlinum 20. okt. er spurt um hvort heimila eigi persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú er. Svar mitt er eindregið já. 

Engin ummæli: