mánudagur, 10. september 2012

Launamunur kynjanna


Umræða um jöfnun á launamun kynjanna er ofarlega á baugi. Mig langar aðeins að benda á nokkur atriði í því efni. Svona að fenginni reynslu úr aths. dálkunum ætla ég að byrja á því að taka það fram að ég er ekki á móti jöfnun launa kynjanna og í flestum launakönnunum inna RSÍ hafa rafkonur verið með hærri meðallaun en rafkarlar, það er að segja ef við notum sömu meðaltalsreglur og nýttar eru í launakönnunum og íslenskum samanburðaraðferðum. Það hefur komið nokkrum sinnum áður fram hér á þessari síðu að mér finnst oft lítið að marka það sem menn fá út þess háttar samburði, það er að bera saman launakannanir mismunandi hópa.

Í þessu sambandi er það grundvallaratriði að mjög stórt hlutfall launamanna á íslenskum vinnumarkaði er á launum sem liggur töluvert ofan við umsamin lágmarkslaun en á þeim vinnumörkuðum sem ég þekki til, þ.e.a.s í nágrannalöndum okkar. Hin íslenska sérstaða er reglulegt gengisfall krónunnar. Áratugum saman hefur íslenskum launamönnum verið gert að búa við það ástand að kjarasamningar standast aldrei i út samningstímann, sökum þess að stjórnmálamenn fella reglulega krónuna til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn og leiðrétta hana með aukasköttum á launamenn í gegnum gengisfellingu launa.

Þetta íslenska ástand veldur því að hér landi fara fram reglulega launaleiðréttingar á vinnustöðunum á miðju samningstímabili, vitanlega sérstaklega hjá þeim hópum og einstaklingum sem eru í bestri stöðu hverju sinni. Þessu fyrirkomulagi er síðan reyndar lýst sem ákaflega jákvæðu í skýrslum um íslenskan vinnumarkað; Jú hann sé mun sveigjanlegri en aðrir þar sem að til eru lágir launataxtar sem tiltölulega fáir eru á. Það hefur verið nýtt til þess að flytja inn erlent vinnuafl og skella því á þá taxta. Í nágrannalöndum okkar eru launamenn að langstærstum hluta á umsömdum launatöxtum og þeir standast út samningstímann. Kaupmáttur er stöðugur, lán taka ekki stökkbreytingum og vextir eru þriðjungar af því sem þeir eru hér á landi.

Um síðustu aldamót var 60% munur á umsömdum lágmarkstöxtum rafiðnaðarmanna og meðalraunlaunum. Í dag hefur þessi munur minnkað um helming sakir þess að okkur hefur tekist að ná fram í kjarasamningum undanfarinn áratug um verulegri hækkun á lægstu töxtum okkar umfram umsamdar lágmarkslaunahækkanir. Það hefur verið tiltölulega auðvelt þar sem það hefur haft sáralítil áhrif til hækkunar á launakostnaði í rafgeiranum. Sárafáir hafa verið á lægstu töxtum innan sambandsins. Í dag blasir við okkur sú staðreynd að það er um 30% munur á meðallaunum og umsömdum gólfum í kjarasamningum, ekki 60%.

Kröfu um átak í jöfnun launa kynjanna er eins flestir kannast við, oftast svarað með að það sé ekki hægt nema að allir fari á umsamda taxta. Það segir allt til um þann vanda sem við blasir ef það á að ná fram jöfnun launa kynjanna, þarf að byrja á því að færa umsaminn lágmarkslaun að raunlaunum, þá fyrst verður hægt að taka á þessum vanda með markverðum hætti. Það sem náðst hefur undanfarinn misseri er fyrir tiltölulega litla hópa og mælist vart eins og fram hefur komið í þeim launakönnunum sem umræða dagsins vísar í.

Og síðan í lokinn ef það á að tryggja að kaupmáttur þeirra kjarasamninga haldist, verður það ekki gert nema með því að taka upp gjaldmiðil, sem heldur þokkalega sínu raungildi út samningstímann hverju sinni. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er allt eitthvað og fer einhvernvegin, þótt margur efist um það á tímabili.

Engin ummæli: