laugardagur, 27. október 2012

Rafiðnaðarmenn hafna óraunsæjum töfralausnum


Ég sat trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambandsins á Selfoss nú seinni hluta vikunnar. Ráðstefnuna sátu um 100 trúnaðarmenn á vinnustöðum rafiðnaðarmanna víðsvegar af landinu. Vitanlega var staðan í efnahagsmálum áberandi í umræðunni. Lögð var áherslu á að stjórnvöld yrðu að skapa þær aðstæður að á Íslandi gæti ríkt efnahagslegur stöðugleiki með meiri festu í gengi krónunnar og lágri verðbólgu. Þolinmæði launamanna gagnvart óöguðum vinnubrögðum stjórnmálamanna er löngu þrotin, það birtist m.a. í flótta launamanna frá landinu.
Í ályktun sem var samþykkt einróma kom m.a. fram það væri óþolandi að árangur í kjarabaráttu launamanna væri jafnharðan eyðilagður með gengisfellingum. Afleiðing óagaðrar efnahagsstjórnunar valdi óstöðuleika krónunnar og mikilli verðbólgu, sem veldur því að vextir hér á landi eru að jafnaði tvöfalt hærri, en í nágrannalöndum okkar. Því er verðtryggingarkerfið hér á landi virkt, á meðan það er nánast óvirkt í öðrum löndum.

Rafiðnaðarmenn krefjast þess að tekið verði á skuldavanda heimilanna, en draga það í efa að afnám verðtryggingar sé hin eina sanna lausn vandans. Rafiðnaðarmenn gera sér grein fyrir því að vaxtastig hér landi er alltof hátt og með greiðsludreifingarþætti verðtryggingar er heimilum gert kleift að dreifa afborgunum yfir lengri tíma, en þetta býður jafnframt heim þeirri hættu að heimilin skuldsetji sig um of. Sveiflur í greiðslubyrði óverðtryggðra lána geta sveiflast með svo öfgakenndum hætti að flest heimili lenda í greiðsluerfiðleikum við hvert verðbólguskot.

Ef jafngreiðslukerfi verðtryggingakerfisins hefði ekki verið við lýði við Hrunið hefðu t.d. afborganir af 20 millj. kr. láni farið yfir 400 þús. kr. á mánuði, í stað þess að vera um 120 þús. kr. á mán. Það var tekinn mikil áhætta með því að hækka lánamöguleika upp 100%, það varð til þess að margir settu sig í þá stöðu að vera við ystu þolmörk í uppsveiflunni og lentu strax í vandræðum þegar niðursveiflan brast á.

Trúnaðarmenn rafiðnaðarmanna kalla eftir raunverulegum lausnum á skuldavanda heimilanna, í stað þess að endurtekið sé verið að drepa málum á dreif með óraunsæjum töfralausnum.  Hugmyndum um að hverfa 30 ár aftur í tímann jafngiltu því að senda reikninginn fyrir umframeyðslu í dag til barna okkar. Þess er krafist að ráðist verði strax með skipulögðum hætti að rótum vandans með því festa gengi krónunnar á ásættanlegu gengi fyrir almenning og að tryggja síðan að sá gjaldmiðill sem hér er notaður til framtíðar verði stöðugur og svo hægt verði afnema gjaldeyrishöft innan skamms tíma.

Trúnaðarmannaráðstefna rafiðnaðarmanna telur að á skömmum tíma sé mögulegt í samvinnu við lífeyriskerfið að bjóða upp á hagstæð lán fyrir fjölskyldur sem eru að kaupa sínu fyrstu íbúð. Þetta mun hvetja ungt fólk til sparnaðar í samtengingu uppbyggingu réttinda í samtryggingar- og séreignakerfi lífeyrissjóðanna. Í tengingu við þetta kerfi væri hægt að byggja upp leigumarkað sem stæði tilboða sambærileg kjör til langs tíma. Þarna gætu verið ásættanleg fjárfestingartækifæri fyrir lífeyrissjóði og þurfa stjórnvöld í samvinnu við aðila vinnumarkaðsins að huga að gera þetta kleift m.a. með lagabreytingum.

13 ummæli:

Erlingur sagði...

Þetta er einkennilegt viðhorf rafioðnaðarmanna. Viðurkennt er að greiðsludreifingarþáttur verðtryggingar gerir heimilum kleift að dreifa afborgunum yfir lengri tíma, sem býður jafnframt heim þeirri hættu að heimilin skuldsetji sig um of. Samt á ekki að taka verðtryggingu neytendalána!

Þá er og sagt að: "Ef jafngreiðslukerfi verðtryggingakerfisins hefði ekki verið við lýði við Hrunið hefðu t.d. afborganir af 20 millj. kr. láni farið yfir 400 þús. kr. á mánuði, í stað þess að vera um 120 þús. kr. á mán."
Ef að jafngreiðslukerfi verðtryggingakerfisins væri ekki búið að vera við lýði á Íslandi í 30 ár efast ég um að skuldavandi heimila væri með þeim hætti sem nú er, sem og efast ég um að vöxtur bankanna hefði orðið sá sem raun ber vitni fyrir Hrun. Verðtrygging lána með aðstoð sjálfdrifinnar neysluvísitöla hjálpaði þar til.

Þar sem rafiðnaðarmenn virðast vilja fylgja forseta ASÍ og halda verðtryggingu neytendalána óbreyttri, hljóta þeir af þeim sökum að ætla berjast framvegis fyrir því að verðtrygging launa verði tekin upp á ný svo að komið verði í veg fyrir heimili geti yfirskuldsett sig í annarri mynt en laun eru greidd í, eða alla vega að allar breytingar á þróun þessara atriða verði af völdum sömu breyta. Eða hvað?

Guðmundur sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Guðmundur sagði...

Þessi ákvörðun er ekki ný, hún hefur verið í öllum ályktunum sem rafiðnaðarmenn hafa sent frá sér undanfarinn áratug. Hún er ekki unnin eftir ákvörðun forseta ASÍ, enda hafa rafiðnaðarmenn alla burði til þess að leita sér upplýsinga og taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Það hafa birst margar ákaflega vandaðar skýrslur um verðtryggingu og aðra hugsanlega afborgunarmöguleika lána. Þar blasir við að þessi niðurstaða rafiðnaðarmanna er rökrétt. Umræðan um verðtrygginguna er á fullkomnum villigötum, enda fara þar hamförum helstu lýðskrumarar þessa lands.

Í þessu sambandi má t.d. benda á ítrekaðar yfirlýsingar Alþingismanna um að afnema verðtrygginguna, en ætíð þegar þeir hafa kannað málið hverfa þeir frá því. Það er sakir þess að verðtryggingin er ekki orsök, hún er afleiðing slakrar og óagaðra stjórnar efnahagsmála.

Þegar ákveðið var að taka upp verðtryggingu lána var eftir því leitað að verðtryggja laun. Því höfnuðu þáverandi félagsmenn stéttarfélaganna alfarið. Með því væri verið að múlbinda kjarabaráttuna og þá sérstaklega þáverandi skiptingu launakökunnar og bil milli starfshópa.

Þetta hefur nýlega verið skoðað og þá kom í ljós að þessi ákvörðun hafði verið rétt og var farsæl, því laun höfðu almennt hækkað um liðlega 30% umfram verðlagsvísitöluna frá því að verðtryggingin var tekinn upp. Lægstu laun hafa hækkað umtalsvert meira, enda er bil milli launataxta mun minna nú en það var.

Í þessu sambandi má t.d. benda á bilið milli launataxta iðnaðarmanna og verkafólks var um 1980 að meðaltali um 25% en er í dag innan við 10%.

Nafnlaus sagði...

Ég get bara ekki skilið þá menn sem ætlast til þess að það sé tekið partur af launum manns og sett í lífeyrissjóð og svo eigi að láta verðbólguna látin éta það upp og enn óskiljanlegra að þar skuli vera maður sem kallar sig verkalýðsforkólf í fararbroddi að reyna að eyðileggja eftirlaunakerfi verkalýðsins, en líklega er það nú vegna eigin fjármálastöðu eða heimsku nema hvorttveggja sé
Elías Smári

Nafnlaus sagði...

Við þurfum Evru til að leysa þessi vandamál. Verðtryggingin er bara það gjald sem krónan kostar okkur og hún er nauðsynleg meðan við höfum krónuna.

Sumir lýðsskrumarar hafa gagnrýnt lífeyrissjóðina vegna verðtryggingar og ég get nefnt einn vin minn sem er byrjaður að taka lífeyri úr sínum sjóði og fær hann yfir 300 þ á mánuði. Hvað halda menn að hann fengi ef engin verðtrygging væri????

Nánast ekki neitt því öll hans iðgjöld hefðu þá farið til skuldara.Þetta veit ég fullkomlega því ég er á pari með réttindi við menn sem byrjuðu að vinna 10 árum á eftir mér og fengu sínar lífeyrisgreiðslur vertryggðar.

Allt það sem ég greiddi í lífeyri fyrir verðtryggingu er horfið eða við skulum bara um orða það lífeyrisgreiðslur mínar þá fóru til þeirra sem tóku lánin og skrumarar þess tíma fengu þær eins og skrumari nútímans vill fá þær til að borga græðgislán sitt
Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Afnám verðtryggingar eitt og sér leysir ekki málin, enn það breytir því ekki að verðtryggingin sem slík á ekki rétt á sér, hvort sem menn vilja kalla það töfralausnir eða ekki.

Það er ekki ásættanlegt að hækkanir á ýmsum vörum og þjónustu leiði til hækkana á lánum landsmanna.
Það er verðbólgan og hátt vaxtastig sem af henni hlýst og óstöðugleikinn sem eru vandamálið.

Afborgun af tuttugu miljóna láninu hefðu ekki farið í 400 þús.kr.á mánuði ef vextir væru lægri og ásættanlegri. Það kemur hins vegar ekki fram hvað tuttugu miljónirnar hækkuðu mikið vegna verðtryggingarinnar. Burt með verðtrygginguna.
Guðmundur Smári

Guðmundur sagði...

Sæll nafni
Jú það kemur glögglega fram í pistlinum hvað lánið hækkar, en er reyndar ekki óalgengt að margir gera sér ekki grein fyrir því.

Þegar verðbólgan fer uppfyrir það stig sem er í lánasamningnum, eða m.ö.o. föstu vextina (oftast er það um 5%) byrjar verðtryggingin að tikka. Þú borgar þessar 120 þús. kr. en mismuninn á þeim og 400 þús. borgar þú á seinni hluta lánstímans. Með öðrum orðum þú færð í raun að fá nýtt lán.

Það eru alltof fáir hér heima sem hækka afborgunina til þess að losna undan því að höfuðstóllinn hækki.

Í öðrum löndum er þetta framkvæmt með öðrum hætti þú annað hvort hækkar afborgunina eða semur við bankann um endurfjármögnun og þá er oftast farin bil beggja þessara leiða, afborgun hækkuð í samræmi við getu viðkomandi og restinni bætt aftan við lánið.

Nafnlaus sagði...

Ég kom út vinnumarkað um 1970, var í velborgaðri vinnu hjá Ísal ásamt því að kenna og vann auk þess sem rafvirki í „frítíma“ mínum.

Af öllu var greitt í lífeyrissjóð eftir að hafa greitt í 10 ár þegar verðtrygging var tekin upp átti ég inn í lífeyrissjóð mínum inneign sem samsvaraði verðgildi tveggja lambalæra. Eða með öðrum orðum sem svaraði einum góðum árslaun af sparifé mínu hafði runnið til þeirra sem nutu góðs af reglulegum gengisfellingum og neikvæðri ávöxtun.

Ef verðtrygging hefði verið afnuminn umsíðustu aldamót þá væri einstaklingur sem í dag fengi 180 þús. kr. á mán úr sínum lífeyrissjóð að fá 100 þús. kr. Mismunur hefði runnið til útflutningsgreifanna og þeirra sem fengu lán. Til þess að borga upp lánið sem maðurinn tók til þess að kaup asér 100 millj.kr. glæsivillu og tvo nýja bíla

Erlingur sagði...

Guðmundur: Verðtrygging, í hvaða formi sem hún er, er hækja lélegrar efnahagsstjórnunar, enda var hún sett á í ráðaleysi ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar gegn óðaverðbólgu í vildarvina- og haftaumhverfi snemma árs 1979. Væri verðtrygging á neytendalánum afnumin gerir það eðlilega kröfu á ríkisstjórn að taka efnahagsmál fastari tökum til frambúðar. Á meðan verðtrygging er við lýði verður það ekki gert. Ekkert annað land, sem Ísland er reglulega borið saman við, notast við verðtryggingu á neytendalán með sama hætti og hér er gert.

Gunnar Tómasson hagfræðingur sagði á fundi Framsóknarfélaganna í Reykjavík á Grand Hótelí í ágúst 2009 að verðtryggingin væri mestu hagstjórnarmistök Íslandssögunnar. Ef veitt væru Nóbelsverðlaun fyrir vitlausar hugmyndir í hagfræði, (sem gerist alltaf öðru hverju) ætti höfundur hennar Nóbelsverðlaunin skilin.

Ég held að Gunnar slái öllum rafiðnaðarmönnum til samans við í kunnáttu um hagfræði og efnahagsmál.

Staðreyndin er að vísitala neysluverðs er að mestu sjálfdrifið fyrirbæri og tenging neytendalána við hana verður að afnema, til að stöðva þessa vítisvél, enda er hún að öllum líkindum ólögmæt á EES-svæðinu.

Varðand ummæli annarra um verðtryggingu lífeyris þá verða sömu aðilar að hafa í huga að enginn þessara svokölluðu "lýðskrumara" hefur talað fyrir afnámi verðtryggingar á lífeyri. Hins vegar eru til "lýðskrumarar" sem telja tengingu verðtryggingar lífeyris og lána órjúfanlega, á sama tíma og þeir benda á að verðtrygging lána geri heimilum kleift að yfirskuldsetja sig.

Ef á Íslandi væri heilbrigðara fjármálaumhverfi þyrfti líklega ekki verðtryggingu, hvorki á lífeyri né lán.

Guðmundur sagði...

Einhverra hluta vegna virðist það vera nokkuð almenn skoðun á Íslandi að verðtrygging húsnæðislána og annarra neytendalána skaði hagsmuni neytenda. Þannig hafa t.d. oft verið lagðar fram tillögur til þingsályktunar um afnám verðtryggingar á Alþingi. Þessi almenna skoðun Íslendinga er mjög á skjön við niðurstöður allflestra hagfræðinga.

Hagfræðingarnir John Campbell (Harvard) og Joao Cocco (London Business School) birtu fyrir nokkru ýtarlegan samanburð á ágæti mismunandi húsnæðislána fyrir neytendur.

Campbell og Cocco báru saman þrenns konar húsnæðislán: 1) Lán með föstum nafnvöxtum; 2) Lán með breytilegum nafnvöxtum; og 3) Lán með föstum raunvöxtum (þ.e. verðtryggð lán). Ein helsta niðurstaða þeirra er að verðtryggð lán séu umtalsvert hagstæðari fyrir neytendur en óverðtryggð lán.

Campbell og Cocco benda á að eðli áhættunnar sem fylgir mismunandi gerðum húsnæðislána sé mismunandi. Lánum með föstum nafnvöxtum fylgir miklar sveiflur í heildarverðmæti lánsins. Þetta er vegna þess að verð á skuldabréfum til þrjátíu ára með föstum nafnvöxtum er mjög næmt fyrir breytingum á langtímavöxtum. Annar ókostur við lán með föstum nafnvöxtum er að þau bera að jafnaði hærri vexti en lán með breytilegum vöxtum. Kosturinn við slík lán er hins vegar að raungildi afborgana slíkra lána eru mun stöðugri en raungildi afborgana lána með breytilegum vöxtum.

Helsti ókostur lána með breytilegum nafnvöxtum er að raungildi afborgana slíkra lána getur breyst mjög hratt ef langtímavextir hækka vegna væntinga um aukna verðbólgu í framtíðinni. Annar ókostur er að sá sem tekur lán með breytilegum vöxtum ber áhættu sem fylgir sveiflum í raunvöxtum. Á móti kemur að slík lán bera að jafnaði lægri vexti og að heildarverðmæti þeirra sveiflast mun minna. Hættan á því að verðgildi lánsins verði hærra en verð húseignarinnar er því minna en þegar lán með föstum nafnvöxtum eiga í hlut.

Campbell og Cocco benda síðan á að verðtryggt lán verji lántakanda gegn sveiflum í heildarverðmæti lánsins sem fylgja sveiflum í nafnvöxtum án þess að hann þurfi að taka á sig áhættuna sem fylgir sveiflum í raungildi afborgana og áhættuna sem fylgir sveiflum í raunvöxtum. Þeir benda einnig á að vextir af verðtryggðum lánum séu að jafnaði lægri en vextir af lánum með föstum nafnvöxtum þar sem tímaróf raunvaxta sé flatara en tímaróf nafnvaxta og einnig vegna þess að rétturinn til þess að greiða lánið upp sé ekki jafn dýr (þar sem hann er ekki jafn verðmætur).

Campbell og Cocco meta þann hag sem bandarískir neytendur myndu hafa haft af því að hafa haft aðgang að verðtryggðum lánum á tímabilinu 1962-1999 og komast að því að hann sé talsverður. Hagur íslenskra neytenda af verðtryggðum lánum er ef eitthvað er meiri en hagur bandarískra neytenda þar sem verðbólga á Íslandi hefur verið og mun að öllum líkindum halda áfram að vera sveiflukenndari en verðbólga í Bandaríkjunum.

Guðmundur sagði...

Verðtrygging á Íslandi kostir og gallar. Úr skýrslu sem unnin var fyrir efnahagsráðuneytið.

Umfjöllun um ákvörðun vaxta, verðbólgu og verðtryggingu hefur verið fyrirferðarmikil í fræðiritum um hagfræði undanfarna áratugi. Erlendir hagfræðingar hafa mælt með aukinni notkun verðtryggðra skuldabréfa. Aðal röksemdirnar hafa verið þær að verðtryggð skuldabréf leiði til lægri fjármagnskostnaðar, auki fjölbreytni fjárfestingarkosta fyrir fjárfesta og hvetji til sparnaðar, auki trúverðugleika hagstjórnar og auðveldi útgáfu skuldabréfa til langs tíma. Þá þýði verðtryggð skuldabréf minni hættu á óviljandi eignatilfærslum.

Heimilin eru einn stærsti hagsmunahópurinn þegar kemur að verðtryggingu. Skuldir heimila, að stærstum hluta fasteignalán, eru verðtryggðar en heimilin eru einnig eigendur sparnaðar sem er verðtryggður þar sem stærstu hluti fjárhagslegs sparnaðar þeirra er innan lífeyrissjóða. Verðtrygging hefur því veruleg áhrif á heimilin. Algengur lánstími á íslenskum húsnæðislánum er 25 eða jafnvel 40 ár sem er talsvert lengi en meðallánstími erlendis. Þá hafa raunvextir hér á landi verið hærri en í nágrannalöndum.

Verðtrygging sparnaðar heimilanna í gegnum lífeyrissjóðakerfið er óneitanlega kostur fyrir heimilin og tryggir verðgildi framtíðarlífeyris. Í verðtryggðum lánum felst einnig sá kostur að lánað er fyrir vöxtum og verðbótum, þeim er bætt við höfuðstólinn. Greiðslubyrði er jafnari með hefðbundnu, verðtryggðu jafngreiðsluláni með föstum vöxtum en að öllu jöfnu á óverðtryggðu láni. Þá felst öryggi í verðtryggingu við skilyrði verðhjöðnunar. Ísland er með öflugt lífeyrisskerfi sem byggir að meginhluta á sjóðsöfnun bæði í sameignar– og séreignarsjóðum auk hins opinbera tryggingarkerfis.

Lífeyrissjóðir víða um heim hafa fjárfest í verðtryggðum skuldabréfum í vaxandi mæli. Til að mynda var hlutfall verðtryggðra skuldabréfa í skuldabréfasöfnum breska lífeyrisssjóða var um helmingur árið 2005. Verðtrygging er almennari á Íslandi en víðast annars staðar enda þótt hún sé þekkt í mörgum löndum í einhverjum mæli. Það eru þó helst lönd sem búa við óstöðugan, lítinn gjaldmiðil og mikla verðbólgu sem búa við verðtryggingu í miklum mæli. Hins vegar er ljóst að stöðugri gjaldmiðli fylgir minni þörf fyrir verðtryggingu í því skyni að auka trúverðugleika hagstjórnar. Verðtrygging er notuð innan ESB en nokkur ESB ríki hafa gefið úr verðtryggð skuldabréf í evrum. Tilhneigingin erlendis virðist fremur vera í átt að aukinni verðtryggingu lífeyrissparnaðar.

Nýlega er fram komið lagafrumvarp þar sem lagt er til að þak verði sett á verðtryggingu með þeim hætti að hámarkshækkun vegna verðtryggingar skuli á ársgrundvelli vera 4%. Hugmynd þessi jafngildir því að lánveitendur afhendi lánþegum tryggingu í formi kaupréttar á verðbólgu (e. call option) þar sem þröskuldur (e. strike price) er við 4%. Frá fræðilegum sjónarhóli virðist ekkert útiloka þennan möguleika en ákvarða þyrfti hver ber kostnaðinn af kaupréttinum. Vextir láns með verðtryggingarþaki gætu orðið aðrir en venjulegs láns. Það er vandasamt að sjá hvaða breytingar á fyrirkomulagi verðtryggingar gætu á þessu stigi mála leitt til snöggs viðsnúnings hjá einstaklingum í skuldavanda. Hins vegar mætti leitast við að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Niðurstaðan er sú að breytingar virðast mögulegar en ekki er sjálfgefið að breyting á núverandi fyrirkomulagi leiði til betri útkomu.

Guðmundur sagði...

Í mörgum löndum þar sem verðbólga hefur verið mikil, t.d. á Íslandi, hefur verðtrygging verið forsenda fyrir þróun markaðar fyrir langtímalán. Rökin fyrir hagkvæmni verðtryggingar sem vörn gegn óvissu um verðbólgu byggjast á því að verðvísitalan sem við er miðað mæli verðbólguna nokkurn veginn rétt. Algengasta gagnrýni á verðtryggingu er að engin verðlagsvísitala sé fullkomlega rétt og að í mörgum tilfellum sé hægt að innleiða aðferðafræðilegar breytingar sem hafi áhrif á útreikning vísitölunnar. Það er hins vegar ljóst að hægt sé að ekki er hægt að komast hjá því að miðað sé við einhverja verðvísitölu þegar lánasamningar eru gerðir þótt ákvæði um verðvísitöluna séu ekki skrifuð inn í lánasamningana.

Í gegnum tíðina hafa margar kenningar verið settar fram um samspil verðtryggingar og verðbólgu. Verðtrygging er algengari þar sem verðbólga er há. Það mætti túlka sem svo að verðtrygging væri verðbólguhvetjandi en einnig má benda á að hagkvæmni verðtryggingar er meiri þar sem meiri óvissa er um verðbólguna og því eðlilegt að þar sé verðtrygging algengari. Heilmikil umræða átti sér stað um verðtryggingu á áttunda og níunda áratugnum þegar verðbólga var mikið vandamál í hinum vestræna heimi. Í þessari umræðu tóku þátt margir af fremstu hagfræðingum heims á þeim tíma.

Á þessum árum skoðuðu hagfræðingar einnig hagkvæma samsetningu skulda hins opinbera og sýndu að hagkvæmt væri að fjármagna a.m.k. hluta skuldanna með verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Í mörgum ríkjum gefur hið opinbera út verðtryggð ríkisskuldabréf og þykir það eðlilegur hluti af fjármagnsmarkaðnum auk þess sem samanburður á ávöxtun sambærilegra verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa gefur mikilvægar vísbendingar um væntingar fjárfesta um verðbólgu.

Verðtryggð húsnæðislán hér á landi eru yfirleitt jafngreiðslulán, þ.e. raungildi greiðslna vaxta og afborgana er jafnt. Áfallnir vextir eru mestir í byrjun þegar lánið er hæst. Ef áfallnir vextir eru greiddir að fullu auk fastrar afborgunar er greiðslubyrði langtímalána ójöfn.Þar sem nafnvaxtalán tíðkast er greiðslubyrði langtímalána mjög þung fyrst en lækkar svo hratt eftir það. Verðtryggingin gerir það mögulegt að jafna greiðslubyrðina. Þessi jöfnun greiðslubyrðarinnar yfir tíma er aukin enn frekar með verðtryggðum jafngreiðslulánum.

Í mörgum löndum glíma seðlabankar við þann vanda að peningastefnan hefur lítil áhrif á langtímavexti. Ekki hefur verið bent á trúverðugar ástæður fyrir því að verðtrygging auki þennan vanda. Ef verðbólguhorfur eru mjög óvissar er verðtrygging forsenda fyrir framboði langtímalána. Við slíkar aðstæður skiptir verðtrygging oft miklu fyrir skilvirkni fjármagnsmarkaða og ætti að auka virkni peningastefnunnar og vinna gegn verðbólgu. Hækkun breytilegra vaxta umfram verðbólgu hækkar hins vegar greiðslubyrði af slíkum lánum umfram greiðslubyrði af verðtryggðum lánum með fasta vexti og dregur úr eftirspurn ef aðgengi fólks að fjármagni er takmarkað.

Verðtrygging og jafngreiðslufyrirkomulag jafna endurgreiðslubyrðina yfir tíma. Jafnari greiðslubyrði er oftast hagkvæm fyrir lántaka og lánveitendur, einkum ef mikil óvissa er um verðbólgu og þar með dreifingu greiðslubyrðarinnar eins og alla jafna er þegar verðbólga er nokkur. Hins vegar leiðir af jafnari dreifingu greiðslubyrðarinnar að ný útlán verða lægra hlutfall af útistandandi lánum á hverju tímabili.

Erlingur sagði...

Ég Googlaði skýrslu Campbell og Cocco sem þú vísar til og sá að hún er frá júní 2003. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan hún var gerð, bæði hér á landi sem og í USA. Eins og þú bendir á ber hún saman lánamöguleika frá 1962-1999 við verðtryggð lán. En mér sýnist í fljótu bragði að framkvæmd þessara verðtryggðu lána sem þeir skoða sé með nokkuð öðru sniði en hér.

Sjá bls. 28: "Real mortgage payments are fixed at mortgage initiation, and nominal payments increase in proportion to the price level Pt. Thus, unlike a nominal FRM, the real capital value of an inflation-indexed mortgage is not sensitive to inflation."

Lauslega þýtt: "Raungreiðslur lánsins eru festar við lántöku, og nafnvirði greiðslna hækkar í hlutfalli við verðlag. Þess vegna, ólíkt veðlánum með föstum vöxtum, breytist höfuðstóll lánsins ekki með verðbólgu."

Framkvæmd verðtryggðra lána hér á landi hefur verið önnur en þarna er lýst þar sem höfuðstóll verðtryggðra lána hefur bara hækkað frá lántökudegi.

Þá má sjá í þeim heimildum sem þeir vísa til í heimildaskrá, að þeir sem ættu að íhuga að taka þau verðtryggðu lán sem fjallað er um, séu fyrst og fremst þeir sem séu með verðtryggðar tekjur.

Á bls. 30 í sömu skýrslu segja þeir: "For the parameter values we have considered, households with inflation-indexed mortgages never default."

Lausleg þýðing: "Miðað við þau gildi sem við lögðum til grundvallar verður aldrei greiðslufall hjá heimilum með verðtryggð lán."

Við þekkjum nokkuð aðra sögu, því væri áhugavert að sjá þá skoða íslenska fasteignalánamarkaðinn með módelinu sínu þar sem fjöldi heimila hefur einmitt farið í greiðsluþrot þó hlutfall verðtryggðra lána sé hátt.

Önnur og nýrri skýrsla frá sömu aðilum fjallar um líkur á greiðslufalli lána. Þó ekki sé þar fjallað um greiðslufall verðtryggðra lána benda þeir á að þegar lánsveðhlutfall fasteignar er hátt aukast líkur á eignarhluti verði neikvæður, og þar sem greiðslubyrði láns er há miðað við innkomu aukast líkur á greiðslufalli. (Sjá útdrátt á forsíðu skýrslunnar.)

Þetta eru ekki ný sannindi fyrir okkur, en hvoru tveggja er auðvelt að heimfæra á hinn verðtryggða íslenska húsnæðismarkað, eins og hann hefur þróast.

Rétt að lokum:
Ég er 41 árs gamall, og ég sagði við aldraðan vinnufélaga minn fyrir tæpum 20 árum, þá nýbúinn með stúdentspróf, að ég byggist ekki við að fá neitt úr lífeyrissjóði þegar ég næði eftirlaunaaldri. Mér sýnist stefna í að það verði því miður raunin, þó að verðtrygging lífeyris fengi að halda sér óbreytt næstu 30 árin.