föstudagur, 26. apríl 2013

Efnahagslegir átthagafjötrar


Umfangsmesti hluti kosningaumræðunnar hefur snúist um loforð um niðurfellingu skulda. Þar er áberandi umræða flata niðurfellingu, frekar en að beina þeim fjármunum sem hugsanlega væru lausir til þessara hluta til þess hóps sem helst þarf á því að halda.

Það liggja fyrir kannanir, sem sýna að með flatri niðurfellingu myndu allt að 80% þeirra fjármuna fara til fólks sem ekki þarf á þessari aðstoð  að halda. En einungis 20% fjármunanna færu til hinna verst stöddu, en myndu ekki duga til þess að hjálpa þeim úr vandanum. Sjá hér Seðlabanki Íslands  
 
Jafnframt er ljóst að með þessum aðgerðum verða um 22 milljarðar fluttir frá landsbyggðinni til Suðvesturhornsins.

Ábendingar hafa komið fram að þær leiðir sem haldið er að okkur kjósendum af hálfu nokkurra flokka sé hættuleg og muni kalla yfir okkur mikið verðbólguskot seinni hluta árs 2014. Það ætti því að vera mikilvægasta verkefni okkar kjósenda að stefna á þá leið sem komi í veg fyrir að lánin okkar stökkbreyttist aftur.

Orsök stökkbreytingar lána heimilanna var hrun krónunnar, og það var fall hennar sem olli verðbólguskotinu. Þrátt fyrir hina alþjóðlegu kreppu þurftu fjölskyldur á hinum Norðurlöndunum ekki að þola sambærilegar stökkbreytingar. Evran hélt verðgildi sínu. Verðlag fór ekki úr böndunum og kaupmáttur launa féll ekki.

Þeir sem vilja halda í krónuna beina vísvitandi umræðunni ætíð að verðtryggingunni. Verðtryggingu var komið á með svokölluðum Ólafslögum af þáverandi forsætisráðherra Framsóknarflokksins um 1980. Þar var verið að verja hag sparifjáreigenda og sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum, sem hafði verið gert að horfa upp á allt sparifé sitt brenna upp á verðbólgubálinu, það varð jafnframt til þess að  ekkert lánsfé var til í landinu og engin fékkst til þess að fjármagna húsnæðislánakerfið.

Fyrst eftir setningu Ólafslaganna voru vextir á verðtryggðum langtímalánum 2%, takið eftir 2% eða svipað og er í nágrannalöndum okkar. En með árunum hefur ávöxtunarkrafa hér á landi hækkað og er kominn upp allt að 5-7% ofan á verðtryggðar höfuðstól lánanna.

Þetta er fullkomlega óásættanleg ávöxtunarkrafa. Nafnvextir í löndum, sem búa við stöðugan gjaldmiðil er 1-2%. Það er því ekki við verðtrygginguna að sakast heldur er það hin óstöðuga króna, sem er höfuðóvinur íslenskra heimila og launamanna.

Í flestum nágrannalöndum okkar er margskonar útfærsla á verðtrygging langtímalána. Verðtrygging er ekki bara til á Íslandi, hún er notuð víða, en þar er ekki þetta vaxtaokur, og þar er að auki stöðugur gjaldmiðill, þannig að þar þarf ekki að grípa til verðtryggingarákvæða.

Greiðsluáætlanir heimila á hinum Norðurlandanna standast og þau greiða upp sitt hús á 20 árum með lánum, sem eru á með um 3% vexti. Hér á Íslandi þurfum við hins vegar að greiða fyrir 2,4 hús. Það gerist vegna þess að vaxtakostnaður hér er allt að því þrefaldur en annarsstaðar. Svo að við getum staðið undir þessum mikla lánakostnaði greiðum við íslensku lánin okkar upp á 40 árum og verðum að skila um 10 klst. lengri vinnuviku en nágrannar okkar, svo við getum staðið undir þessum greiðslum.

Hér liggja rætur hins Íslenska vanda og það er hér sem við þurfum að taka til hendinni. En hvers vegna leggjast Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn svona einsdregið að gegn því? Hagsmuni hverra er verið að verja? Þar ræður augljóslega ekki ríkjum umhyggja fyrir hagsmunum launamanna og fjölskyldna þeirra.

Kollsteypur í gjaldmiðilsmálum er ekki nýjung hér á landi. Þær hafa skollið reglulega á Íslenskum heimilum með um 7 – ára millibili. Krónan féll um helming árið 2008, árið 2001 féll hún um fjórðung. Það var einnig kollsteypa um 1990 og líka um 1980.

Þegar Íslenska krónan var tekinn upp var hún jafngilt hinum norrænu gjaldmiðlunum og nothæf til erlendra viðskipta. Það er hún ekki í dag, hún hefur fallið um 99.5%. Íslenskir launamenn búa í dag í raun við samskonar kerfi og þegar launamenn fengu laun sín í inneignarmiðum hjá næsta verslunareiganda, sem jafnframt var helsti atvinnurekandinn á staðnum.

Þá bjuggu Íslenskir launamenn við átthagafjötra vörðum með efnahagslegu ofbeldi, en þeim tókst að brjóta þá af sér við mikilli baráttu fyrri hluta síðustu aldar og tókst að búa til þjóðfélag jafnaðar og öryggis fyrir fjölskyldur sínar.

En sérhagsmunavöldin náðu undirtökum á Íslensku samfélagi undir lok aldarinnar, sem náði hámarki í helmingaskiptastjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Hún missti síðan endanlega alla stjórn á efnahagslífinu þegar þessir flokkar höfðu losað var um allar reglur og skapað það umhverfi að eigendur fjármagnsins gætu ráðskast með þjóðfélagið eftir eigin höfði.

Þar horfðum við upp á niðurrif þess samfélags sem foreldrar okkar höfðu með blóði og svita byggt upp á síðustu öld. Ef ekkert verður að gert og við förum í gegnum kosningar undir þeim loforðum sem eru mest áberandi stefnir í aðra kollsteypu.

Engin ummæli: