mánudagur, 1. apríl 2013

Vilji þjóðar lítilsvirtur

 
 
Það verður seint sagt að fréttastofa RÚV hafi sýnt stjórnarskrármálinu sanngirni í umfjöllun sinni. Undanfarna daga er eins og fréttastofan hafi fundið hjá sér þörf til þess að réttlæta það hvernig hún hefur verið virkur þátttakandi í baráttunni gegn vilja þjóðarinnar, sem birtist með svo afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslunno 20. okt.

Skúli Magnússon héraðsdómari hefur verið virkur þáttakandi í þessari baráttu gegn þjóðinni og hefur þar af leiðandi verið ákaft hampað af fréttastofu RÚV og ítrekað verið fenginn til að tjá skoðanir sínar á tillögum stjórnlagaráðs í fréttatímum RÚV.

Hann var í vikunni ásamt Björg Thorarensen fenginn til þess að taka þátt í hvítþvotti fréttastofu RÚV á umfjöllun sinni og virkri þátttöku í því hvernig komið sé í þessu máli, en næsta víst að um þennan feril verður fjallað í sagnfræðiritum framtíðar, þ.e. hvernig valdníðslu var purrkunarlaust beitt gagnvart opinberum vilja þjóðarinnar og niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Bæði eru þau þekktir fylgismenn þess, að einungis fylgismenn valdastéttarinnar fái að koma að breytingum á stjórnarskránni.

Frammistaða RÚV í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október sl. staðfestir þetta. Hún var meðhöndluð á allt annan og ómerkilegri hátt en báðar þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave og er málið svartur blettur á "útvarpi allra landsmanna".

Talsmenn þeirra sem fara með völdin hér á halda því fram að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur sagt, eða ummæli höfundar Reykjavíkurbréfs um að hún sé „helgur gjörningur“,hvorki meir eða minna.

Var það skoðun helstu þáverandi stjórnmálaforingja þegar núverandi stjórnarskrá var borinn upp á Alþingi árið 1944? Hér nefni ég nokkur dæmi:

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis ... Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf."

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „... er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „... nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. ... Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 –að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“

Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku.

Nær allir að sem einn sem tóku til mál sögðu að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið saminn til bráðabirgða. Ólafur Jóhannesson lagaprófessor benti á nokkur atriði sem taka þyrfti til rækilegrar endurskoðunar áður en gengið yrði frá framtíðarstjórnarskrá hins íslenska lýðveldis.

Ólafur Lárusson prófessor í lögum tók dýpra í árinni, en var þó varkár að eðlisfari. „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum náinnar framtíðar. Lýðsveldisstjórnarskráin í þeirri mynd sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“

Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : „Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. …Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Það var einhugur um lýðveldisstjórnarskránna, en sá einhugur snerist um að hún væri einungis til bráðabirgða. En það eru ákvæði í núgildandi stjórnarskrá sem tryggja völd til fárra, og það gerðist. Ráðherraræðið varð alsráðandi og tryggði pilsfaldakapítalismann og helmingsskiptaregluna.

Í Jobsbók segir: "Drottinn gaf og drottinn tók, lofað veri nafn drottins." Þessi sannindi hafa fylgt okkur allt frá kristnitöku. Fljótlega eftir að ráðandi stjórnmálamenn uppgötvuðu hversu mikið vald var falið í slakri þýðingu á aldagamalli danskri stjórnarskrá ritaðri til þess að tryggja konungi veraldlegt einræðisvald, tóku þeir til sín valdið.

Ég treysti okkar réttsýnasta þingmanni Jóhönnu Sigurðardóttur til að halda fast í feldinn og gefa sig hvergi í þeim átökum sem staðið hafa allt þetta kjörtímabil. En sjálfskipaðir handhafar valdsins og fjármagnsins höfðu betur og þannig fór eins og í viðureign þeirra Grettis og Gláms, er þeir toguðust á um röggvarfeldinn en þar segir: "Glámur ... þreif í feldinn stundar fast. ... kipptu nú í sundur feldinum í millum sín."

Og eftir stóð hnípin þjóð með lítið brot af réttlætinu öllu.

Sagt er að vald spilli, en frekar má segja að vald laði til sín hina spilltu. Heilbrigðir einstaklingar laðast yfirleitt að öðrum hlutum en valdi. Vörn stjórnmálamanna og handbendi þeirra felst í að hefja blekkingarleiki til að friða eigin fylgi.

Heiðarleiki virðist ekki eiga heima í stjórnmálum, sama hvert formið er. Alltaf virðist spillingu takast að skjóta rótum eins og illgresi, sem kæfir allar aðrar plöntur, sem við viljum frekar rækta.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Frábær grein Guðmundur.