þriðjudagur, 25. júní 2013

Sigmundur Davíð volandi - Icesave skuldin er ekki horfin



Sigmundur Davíð er nú mættur í fjölmiðla volandi yfir því að allir séu svo ósanngjarnir við sig. Sigmundur Davíð hefur enn ekki svarað þeim spurningum sem beint var að honum í kosningabaráttunni, um hvernig hann ætlaði að standa við stórfengleg loforð sín, og nú stendur hann ráðalaus frammi fyrir alþjóð.

Nú kemst hann nefnilega ekki lengur upp með innistæðulausu upphrópanirnar sem hann notaði í ræðustól Alþingis síðasta kjörtímabil. En honum er svarafátt og frá honum koma einungis ásakanir um að vinstra fólk sé tapsárt. Ekki eitt einasta málefnalegt innlegg.

Þegar EFTA-dómurinn féll hélt Sigmundur Davíð því að almenning að hann hefði staðið í lappirnar gegn erlendu auðvaldi sem vildi knésetja íslenskan almenning. Hann hefði komið Icesave-skuldinni fyrir kattarnef með atkvæðagreiðslu.

Staðreyndin er hins vegar sú að skuldin er enn á sínum stað, nákvæmlega jafnhá daginn og hún var daginn fyrir dóminn og eftir að hann féll. Stærsti hluti skuldarinnar liggur nefnilega enn í Landsbankinn, banka sem þjóðin er í ábyrgð fyrir.

Seðlabanki Íslands á í Icesave uppgjörinu ógreiddar kröfur vegna hinna svokölluðu ástarbréfa að upphæð um 127 milljarð króna. Auk þess hefur ríkissjóður þurft að leggja nýja Landsbankanum til 122 milljarða króna í eigið fé og þar til viðbótar þarf nýi Landsbankinn að greiða 300 milljarðar króna í þrotabú hins gamla fram til ársins 2018. Þetta þarf að greiða í erlendum gjaldeyri, sem er einfaldlega ekki til í dag. Staðan í Icesave er nefnilega óbreytt.

Seðlabanki Íslands tapaði vegna ástarbréfaviðskiptanna frægu u.þ.b. tíföldum þeim kostnaði sem orðið hefði af Buchheit-samningnum um Icesave.

Icesave samningurinn snérist um að eyða eins mikilli óvissu og unnt var. Því er gjarnan haldið fram að Ísland hafi sigrað í Icesave deilunni, Íslandi hafi verið bjargað frá því að verða Kúba norðursins.

Íslenskir skattborgarar og launafólk eru sannarlega ekki sigurvegarar í þessari deilu. Atvinnulífið væri mikið betur statt ef tekið hefði verið á Icesave með Bucheitsamningum eins og meirihluti Alþingis vildi. Flestir helstu forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja hafa ítrekað bent á að dráttur á lausn Icesave deilunnar leiddi til þess að Ísland hefur að óþörfu búið við slaka viðskiptastöðu.

Icesave-deilan var skrímsli sem tætti þjóðina í sundur, þjóð sem sannarlega hefði þurft að standa saman og takast á við efnahagsvandann í stað þess að gera tilraun að kjósa hann í burtu. Ýta honum þar með á undan sér. Þeir sem benda á þessar staðreyndir eru umsviflaust kallaðir ljótum nöfnum eins og þjóðníðingar.

Og við bíðum eftir svörum Sigmundar Davíðs um hvernig eigi nú á næstu mánuðum að :
  1. greiða upp Icesave
  2. losna við snjóhengjuna
  3. afnema verðtrygginguna
  4. fella niður skuldir um 20%
  5. hækka elli- og örorkubætur
  6. lækka skatta
  7. ná efnahagslegum stöðugleika
  8. lækka vexti
  9. hækka kaupmátt
  10. jafna kynjabundin launamun á vinnumarkaði.
 
En Sigmundur Davíð segir „fyrrum stjórnarflokka ganga fram með „ótrúlegu offorsi“ og einskis svífast í ómerkilegum pólitískum brellum. Að sama skapi þurfi ný ríkisstjórn að sæta mun óvægari umfjöllun fjölmiðla en fyrri ríkisstjórn og kvartar sáran undan óbilgjarnri stjórnarandstöðu og einhliða fréttaflutningi ákveðinna fjölmiðla.“

Ja hérna. Bíddu aðeins Sigmundur Davíð hvar eru svör þín? Fórstu í gegnum heila kosningabaráttu með fullt af l0forðum, en hafðir þú ekkert fyrir að kanna hvort hægt væri að standa við þau.

Hver var málflutningur þinn síðasta kjörtímabil, málþófið, upphrópanirnar? Varstu kannski farinn að trúa eigin upphrópunum um að þetta væri svo einfalt.

Hverjir voru það sem drógu álit Alþingis niður í eins stafs tölu?


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

var það ekki fráfarandi ríkisstjórn sem skerti örorku og ellilífeyri

Guðmundur sagði...

Jú hú gerði það, það hafa flestar ríkisstjórnir undanfarna tvo ára tugi gert með því að fikta í skerðingarmörkunum. Fyrir þingi liggur frumvarp unnið af nefnd sem m.a. undirritaður sat í ásamt fulltrúum frá öllum flokkum og hagsmuna aðilum eldri borgara. Þar er tekið á þessum vanda. Náðist ekki að ljúka því máli fyrir þinglok vegna hins endalausa málþófs, en okkur bar lofað að þetta yrði afgreitt núna. Eins og kemur glögglega fram í pistlinum

Nafnlaus sagði...

Við skulum einnig hafa í huga að Icesave skömmin var og er skilgetið afkvæmi Sjallabankans, gamla Landsbankans. Davíð Oddsson afhenti Rússíá-Mafíunni bankann og fékk ekki einu sinni takk, hvað þá greitt fyrir. Síðan fór „Lands“-bankinn í víking til útlanda með forsetann í broddi fylkingar og stal þar sparifé, einkum barna, unglinga og gamalmenna. „Tær snilld“ sagði bankastjórinn, „great“ sagði forsetinn, „sjáið ekki veisluna“ sagði fjármálaráðherrann.
Þegar eigendur vildu svo taka út sparifé sitt fannst það ekki, hafði „gufað upp“, eins og það var orðað. Leitað var til Geirs Haarde og Dabba um bætur, en þeir rifu bara kjaft, sögðust ekki borga skuldir óreiðumanna með tilvitnanir í ömmur sínar lengst aftur í ættir. Þeir báðu samt Guð að blessa alla vitleysuna. Auðvitað hlustaði hann ekki á þá, mátti ekki vera að því.

Landsbankinn var vígi FLokksins, þar gengu flokksdindlar út og inn, heimtuðu fé í kosningasjóði sem og í rekstur Valhallar. Einnig var þar boðið upp á svokölluð „kúlulán“ fyrir innmúraða og innvígða. Það þótti flott. Kommissarinn, Kjartan Gunnarsson, sat í stjórn bankans sem varðhundur Íhaldsins, en sá maður hefur það einkum sér til frægðar að hafa eitt öllum sínum veiku starfskröftum í þágu FLokksins. Og nú á að fella niður veiðgjöld, svo kvóta-kóngar geti borgað tannlækningar kvóta-króa.

Stórasta land í heimi?

Haukur Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Þannig að frumvarpið sem Eygló kynnti í dag er árangur margra mánaða vinnu allra stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila og var tilbúið til afgreiðslu á síðasta þingi? Og síðan eigna núverandi stjórnarflokkar sér þá vinnu. Magnað.

Mér finnst einmitt þessar tillögur vera mjög "þroskaðar" í þeim skilningi að ráðherra og ráðuneyti kokka þær ekkert upp á einum mánuði.

Kristján Kristinsson