laugardagur, 22. júní 2013

Skæðasta svikamylla auðvaldsinsÉg er vona svo sannarlega að núverandi stjórnarandstaða taki ekki upp samskonar vinnubrögð og núverandi ráðherrar Sjálfstæðismanna og Framsóknar viðhöfðu á síðasta kjörtímabili og drógu þá álit Alþingis niður í eins stafs tölu með málþófi, upphrópunum og skringilegum upphlaupum í hverju einasta máli.


Núverandi ráðherrar virtu þá ítrekað vilja meirihluta landsmanna að vettugi. Þetta er ástæða þess að margir trúa ekki einasta orði sem þeir segja, enda er það svo að koma í ljós á hverjum degi að þarna er á ferð fólk sem ekki er að vinna að almannaheill, heldur að viðhalda mismunum og stéttaskiptingu í þessu landi. Ég tek undir með Agli Helga að það væri skelfilegt ef þingmenn og stuðningsmenn núverandi stjórnarandstöðu færu að svara fyrir sig með sömu aðferðum.

Hún er harla einkennileg svo ekki sé meira sagt túlkun forsætisráðherra á sögu þessa lands. En hann heldur sig reyndar við þá söguskoðun sem valdastéttin hefur viðhaldið, að það séu erlendir menn sem hafi farið illa með íslenskan almenning og heimili þeirra.

Þegar litið er til þéttbýlismyndunar hér á landi og atvinnubyltingar í kjölfar tæknibyltingar í sjávarútvegi, er erfitt á sjá hvernig hún tengist sjálfstæðisbaráttu Íslendinga eins og haldið var fram í kennslubókum Jónasar á Hriflu, sama má segja um  og eins er sögutúlkun Eimreiðarhópsins sem hefur t.d. birst í sjónvarpsþáttum Hannesar Hólmsteins og skrifum fyrrv. ráðherra sjálfstæðismanna.

Það voru Danir sem áttu ætíð frumkvæði að því að því að bæta atvinnuþróun hér á landi. En það var aftur á móti Alþingi sem barðist gegn þessum tilraunum og studdi ekki við þessa þróun. Bændur voru ráðandi afl á Alþingi reyndu ítrekað að koma í veg fyrir fólksflutninga í þorpin við sjávarsíðuna og allt var gert til þess að gera fólki erfitt að flytja úr sveitunum og stofna heimili í þéttbýli.

Þeir sögðu að aukið frelsi launamanna gerði þá að letingjum, hér má vísa til kostulegra ummæla núverandi formanns fjárlaganefndar um markvissa stefnu vinstri manna og ESB ófétisins um að koma sem flestum á bætur og skapa mönnum störf við að útdeila skattpeningum almennilegs fólks í þann óþarfa.

Sagan endurtekur sig reglulega. Íslendingar eru að flýja land vegna afleiðinga þeirrar efnahagsstefnu sem Framsókn og Sjálfstæðismenn vilja viðhalda. Einar Benediktsson skrifar í blað sitt Dagskrá árið 1896 grein sem hann nefndi „Fólksekla á Íslandi“

„Það eru ekki mörg ár síðan að ýmsar sveitastjórnir úti um land, kepptust við að kaupa velvinnandi fólk hundruðum saman til þess að fara til Vesturheims í því skyni að létta aukaútsvörum af gjaldendum hreppanna................En eins og þegar hefur verið sagt, er það hin mesta villa, að halda að landið auðgist þó fátæklingarnir fari. Mesti og besti auður hvers lands er fólkið sjálft, sem lifir þar, hugsar og starfar, og hver sem stuðlar til þess, að fólk flytji sig burt úr jafn lítt byggðu landi, sem Ísland er, vinnur þjóðinni tjón, því meira, sem honum verður betur ágengt.“

Allmargir íslendingar reyndu að koma vitinu fyrir valdastétt bænda og útgerðar þar má t.d. nefna Sr. Arnljót Ólafsson þegar hann kom heim árið 1861 eftir hagfræðinám Hann sagði að samkvæmt „þjóðmegunarfræðinni“, eins og hann nefndi hagfræðina, væru ónauðsynlegar vörur ekki til. Það sem fólk vildi kaupa teldi það vera nauðsynjar hverju sinni, og enginn væri þess umkominn að rengja þá skoðun.

Sr. Arnljótur gaf lítið fyrir þá hræðslu að allir lausamenn legðust í leti og ómennsku og spurði, „Er það hið rétta eðli mannsins, að vera latur og ónytjungur?“ og Arnljótur svarði sjálfur „Allir hefðu hvöt til þess að bjargast, jafnvel að verða ríkir.“ Samþingmenn hans úr bændastétt sögðu þetta væri innantómt fjas í Arnljóti og hér væri hann augljóslega að misnota menntun sína. Í þessu sambandi koma fram í hugann upp orð núverandi forsætisráðherra og samþingmanna hans.

Sæstrengur er lagður yfir hafið með góðum styrk frá Dönum og tengdi þjóðina við útlönd árið 1906, samfara því komast á eðlileg viðskiptasambönd og verslunin flyst inn í landið. Þá hefst þilskipa útgerð og velvæðing veiðiflotans. Einangrunarstefna bændastéttarinnar hafði orðið til þess að Ísland hafði dregist langt aftur úr atvinnuþróun og hér voru erlendi skip sem mokuðu upp öllum fiskafla við sterendur landsins.

En auknir möguleikar til viðskipta við nágrannalönd okkar urðu til þess að erlent fjármagn bauðst og með því sköpuðust tækifæri fyrir iðjulausan skríl á mölinni í Reykjavík. Hetjur íslenskrar iðnbyltingar voru ekki síst hinn fyrirlitni lýður sem fluttist úr sveitunum á mölina þrátt fyrir allar hrakspár þingmanna bænda.

Viðhorf hinnar íslensku valdastéttar gangvart launamönnum viðhélt stéttskiptingunni og varð m.a. til þess að það var fyrst árið 1956 að íslenskir launamenn ná fram atvinnuleysistryggingum, 30 árum á eftir hinum Norðurlandanna eftir langt og hatramt verkfall.

Viðhorf þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar höfði barist með öllum ráðum gegn þessu. Orð Thor Thors á Alþingi um þetta lýsa afstöðu þeirra mjög vel „að þetta frumvarp (um atvinnuleysistryggingar), sem felur það í sér að styrkja atvinnuleysingja í kaupstöðum, sé enn eitt nýtt og öflugt spor í áttina til þess að raska alveg atvinnulífi þjóðarinnar, með því móti að ginna til kaupstaðanna ennþá fleira fólk úr sveitum landsins, en það sem forsjárlaust og fyrirhyggjulaust hefur flust hingað á mölina.“

Forsvarsmenn útgerðar og bænda börðust alla tíð harkalega gegn þessum máli og töldu að með atvinnuleysisbótum væri dregið úr viðleitni og hvata launamanna til þess að bjarga sér sjálfir. Atvinnuleysistryggingar myndu stuðla að ómennsku og leti.

Sjálfstæð skráning krónunnar hófst 13. júní 1922. Fram að því hafði íslensk króna jafngilt danskri. Fyrstu árin var gengi krónunnar fljótandi, en var fest í kjölfar mikillar hækkunar á árunum 1924 og 1925: 22,15 krónur jafngiltu einu sterlingspundi. Festing gengisins var þá skoðuð sem bráðabirgðaákvörðun, en varð upphafið að lengsta tímabili stöðugs gengis í sögu íslenskra efnahagsmála. Gengið gagnvart pundi stóð var óbreytt til 1939.

Þegar Ólafur Thors , þáverandi forstjóri Kveldúlfs og formaður Félags Íslenskra Botnvörpuskipaeigenda (FÍB), barðist fyrir gengislækkun krónunnar árið 1933, var bent á það innan verkalýðshreyfingarinnar á nú væri krónan að orðin Skæðasta svikamylla auðvaldsins.  Sú spá hefur heldur betur ræst og enn berjast þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fyrir því að viðhalda þessari svikamyllu.

1 ummæli:

Sverrir Hjaltason sagði...

Sammála ofanrituðu. Danakóngur var líka stundum brjóstvörn alþýðufólks á Íslandi gegn valdsmönnum hér. Engin þjóð hefur reynst okkur betur en Danir. Danskir innflytjendur hafa líka auðgað mannlífið. Það þekkja Sunnlendingar vel.