fimmtudagur, 31. júlí 2008

Flatey


Flatey hefur ákveðna sérstöðu í hugum margra. Flokkast undir ákveðna rómantík, seiðmagnað andrúmsloft sem hefur komið fram í myndum og bókum. Í sjálfu sér er það fábreytnin sem verður til þess að maður nýtur þess sem eyjan hefur upp á að bjóða. Rólegur göngutúr um eyjuna er góð afslöppun. Fuglalífið er fjölbreytt og fuglarnir eru óvenjulega spakir. Hvíldin felst einnig í því að það er góður tími til þess að skríða jafnvel upp í aftur og lesa aðeins meira og fara svo aftur í stuttan göngutúr. Húsin í þorpinu hafa flest verið endurbyggð í sína upprunalegu mynd með myndarlegum hætti.

Breyting hefur orðið á ferðamenningu með tilkomu hótelsins. Þar er búið að endurbyggja þrjú hús á listilegan hátt. Fágað og vandað handbragð iðnaðarmanna blasir við hvar sem litið er. Ingibjörg Á. Pétursdóttir hótelstýra hefur stutt við það andrúmsloft sem er í húsunum með góðu vali á húsgögnum og munum.

En Ingibjörg er meistari meistaranna í eldhúsinu og þeir réttir sem hún laðar fram eru hreint út sagt óviðjafnanlegir. Ingibjörg rekur veisluþjónustuna Mensu. Matseðilinn er sóttur í Breiðafjörðinn. Fiskisúpan er sú besta sem ég hef smakkað, er þó vel inn í þeim málum sakir dálætis á súpum og hef prófað þær víða auk þess að glíma við þær í eldhúsinu heima. Þorskurinn hennar, léttreykti svartfuglinn, sjávarréttaþrennan og þannig mætti halda áfram. Allt þetta dregur mann inn í unaðsheima eldhúss sem er í heimsklassa.

Enda það orðið eftirsótt að gista á hótelinu og það fullbókað á næstunni. Haustið með sínum stillum og myrkum kvöldum eru seiðmögnum í Flatey. Skyndilega er allur fuglinn farinn yfir hafið til vetursetu í öðrum löndum og þögnin er mikil. Engir bílar, engar hraðbrautir.

Á veggjum hótelsins er skemmtileg málverkasýning Jóns Bogasonar eins af sonum eyjarinnar. Jón er 85 ára 5 barna faðir býr nú í Kópavogi. Gríðarleg nákvæmni og natni einkennir verk hans og þar má sjá mörg þekkt einkenni helstu listamanna heimsins. Myndefni er sótt í sögu eyjarinnar og þekktustu verk hans urðu til áður en hann fékk nokkra tilsögn í listmálun.

Jón fer um fjörur eyjunnar og er þar klukkustundum saman við að grafa í sandinn við söfnun á sýnum úr fjörunni og undan steinum þegar útfyri er. Hann skoðar þessi sýni í smjásjám og hefur fundið nokkur hundruð sýna sem ekki voru þekkt áður og hafa rannsóknir hans vakið athygli og viðurkenningu víða og þeir þörungar sem hann hefur fundið hafa hlotið latneska fræðanafnið Bogasonia.

mánudagur, 28. júlí 2008

Maríu nauðgað

Ég fattaði það ekki fyrr en nú í kvöld eftir að hafa hlustað á Kastljósið, að ég hef ekki skilið textann snjalla um ferð Maríu Mörkina rétt.

Troddu þér nú í tjaldið hjá mér
Síðan ætl´ég að sofa hjá þér
María María María María

Þetta sungum við öll á leið í Mörkina hér í á árum áður þegar við skelltum okkur á ball um í Húsadalnum Savannatríónu um Verzlunarmannahelgina með kók í flösku og Sjenever í beltinu.

Ég sem hélt að við hefðum verið á venjulegu kvennafari og stelpurnar að spila með okkur líka og öll sungum við um Maríu. Alla vega var grunnur margra velheppnaðra hjónabanda lagður í Mörkinni.

Barátta gegn óafsakanlegu og einstaklega ógeðfelldu hátterni ungra manna gagnvart bjargarlausum stúlkum á útihátíðum á fullan rétt á sér.

En er Baggalútur ekki bara vindmylla? Er ekki betra að beina spjótunum annað?

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Landmannalaugar


Mannhafið í Landmannalaugum kemur manni einhvernveginn alltaf í opna skjöldu þegar komið er inneftir. Stórar rútur og fjöldi bílaleigubíla. Fólk á reiðhjólum og síðan hinir stóru ferðahópar sem fara Fjallabaksleið á hestum. Íslendingar eru þarna í miklum minnihluta og einkabílar ekki margir miðað við hin farartækin. Laugin er alltaf full af fólki og göngumenn á ferð hvert sem litið er.



Góður vinur minn sem hóf störf í vor við eitt af hinum fjölmörgu sveitahótelum sem risið hafa á suðurlandi á undanförnum árum sagði að það hefði komið sér mest á óvart hversu margir erlendir gestir komi hingað einungis til þess að sjá Landmannalaugar. Margir tengja þetta við hestaferðir og það setur skemmtilegan svip á ferðir þarna inneftir að sjá ferðahópa með allt að 100 hestum á ferð.


Gríðarlegur fjöldi göngumanna leggur leið sína um Laugaveginn, þar eru íslendingar í meirihluta, en margir hinna erlendu fara Fimmvörðuhálsinn í beinu framhaldi eða byrja þar og enda inn í Laugum. Þessu kynntist ég vel þegar ég var við skálagæslu á Fimmvörðuhálsinum. Það er gríðarlegur skortur á aðstöðu á þessu svæði og ekki síður lagfræingar á gönggötum og ökuleiðum um svæðið. En allskonar gamlar reglur eru til sem koma í veg fyrir að hún sé til staðar. Til þess að mæta þessu hafa menn farið inneftir með gamlar forljótar rútur auk gamalla húsvagna og breytt þeim í veitingaskála, verzlanir og svefnaðstöðu.

Það eru fjölmargir sem hafa atvinnu við að þjónusta ferðafólkið og það skapar miklar tekjur fyrir þjóðarbúið. Langstærsti hluti þessa fólks kemur frá mið-Evrópu. Ég hef farið þar um og þar sér maður hvaða aðstöðu fólk krefst í dag. Íslenskir göngumenn hafa í auknum mæli sótt þangað ekki bara á skíði um veturna heldur einnig á sumrin. Íslensk stjórnvöld er víðsfjarri því að standa sig í því að mæta og nýta þá möguleika sem íslensk fjallaferðamennska getur gefið af sér. Auk þess skaðar þetta aðgerða- og stjórnleysi náttúruna mikið.

mánudagur, 21. júlí 2008

Enn um Egil


Ég er búinn að vera í fríi og haldið mig utan umræðunnar. Verið á fjöllum eða nærri þeim og ekki einu sinni nennt að bera mig eftir blöðum þó svo leiðin hafi legið fram hjá vegasjoppum og sjaldan hlustað á fréttir. Kom heim í gærkvöldi í stutt stop valið með tilliti til veðurstofunnar og svo konan gæti hent í eina vél eða tvær og svo leggjum við í hann aftur. Hrökk við þegar ég las Eyjubloggið í morgun, Egill, af öllum, er farin að taka undir illskiljanlega og svo óendanlega tilgangsgangslausa gagnrýni Bubba.

Settist við tölvuna og sló inn nokkrar línur um að ég skildi ekki hvað Bubbi eigi með það að skipta sér af því hvort Björk haldi tónleika og bjóði landsmönnum á þá. Hún er ekki alþýðunnar dæmir Egill í framhaldspistli.

Talandi um alþýðutónlistamenn þá er það nú skoðun mín að það sé allnokkuð í að Bubbi geti gert kröfur um að standa þar fremstur í flokki. Þar stendur Megas langt upp úr, mjög langt upp. Meistari texta, glöggur á þjóðfélagslega stöðu og ef eftir því hlustað kemur fram að tónlist Megasar á eftir að lifa. Mikið lengur en tónlist sumra annarra, enda er hver tónlistamaðurinn á fætur öðrum um taka upp lög Megasar. En þetta er mín skoðun. Öll veljum við okkar tónlist og hvaða diskar lenda á spilaranum.

Björk hefur aldrei fengið styrki og hefur byggt upp allt sitt á vinnu, mjög mikilli vinnu. Sló reyndar pabba sinn nokkrum sinnum til að byrja með. En sumir eru á ríkisstyrkjum og sponseraðir af stórfyrirtækjum.

Á meðan aðrir gera það ekki, en styrkja aðra listamenn og hjálpa þeim að koma verkum sínum á framfæri. Þrátt fyrir uppskera þeir öfundar og neikvæða umræðu og eru flokkaðir sem millistéttarfólk á meðan aðrir eru vinir alþýðunnar og Egils.

Lágkúra Egils

Björk hélt ásamt Sigurrós tónleika þar sem lögð var áhersla á að það nýta mætti íslenska orku til annarra hluta en stóriðju og álvera. Hún margtók fram í viðtölum að hún væri ekki að berjast gegn virkjunum hún vissi að það væri nauðsynlegt að virkja til þess að byggja upp atvinnulíf, en þar mætti fara varlegar fram og henni fyndist álver skemma ímynd landsins. Hún lagði á það áherslu að bæta mætti og lagfæra aðgang að náttúruperlum.

Björk hefur alltaf lagt sérstaklega áherslu á að kynna Ísland sérstæða náttúru landsins. Forsvarsmenn í landkynningarmálum hafa ítrekað fullyrt innlegg Bjarkar í þeim málum samsvara margra milljarðra auglýsingaherferð. Hún hefur gefið mörgum tónlistamönnum tækifæri bæði með því að taka þá með sér í tónleikaferðir, eins og t.d. hinar 10 brassstelpur og svo strengjasveitnina um árið. Auk þess þá hefur hún styrkt marga íslenska listamenn.

Árni Johnsen ásamt nokkurm öðrum hægri stjórnmálamönnum fannst þetta tilefni til þess að hnýta í Björk og þeir halda áfram að stíga fram á sjónarsviðið nú Bubbi og Silfur-Egill. Björk svaraði Árna ágætlega, ummæli Bubba voru venjubundinn. Hann einn íslenskra tónlistamanna telur sig vera á þeim stall að geta talað niður til annarra. Bubbi hefur haldið marga tónleika sem hann hefur helga ýmsum málefnuma og engin hefur gert athugasemdir við það. Bubbi hefur hæðst af textum í lögum Bjarkar, en Björk hefur aldrei sagt neitt til lasta um hann eða hans tónlist.

Hvað er það sem heimilar Bubba og tala niður til annarra tónlistarmanna með þeim hætti sem hann gerir? Hvað er það sem heimilar Bubba að fara og húðskamma dagskrárgerðarmenn vilji þeir ekki spila lögin hans?

En það lægsta og óvæntasta sem ég hef séð í þessu er innlegg Silfur-Egils. Pistill hans er ómerkileg klisjufroða og hann færir sig svo neðar í ummælum með pistlinum og bætir svo um með útúrsnúningapistil. Þetta er svo langt fyrir neðan það sem maður átti von frá Agli. Björk náði saman 40 þús. manns , en Egill segir að engin vilji hlusta á Björk bara Bubba!! Hvað hafa verið margir á tónleikum Bubba. Hvað hafa verið margir á tónleikum Sigurrósar?

Við eru allnokkur sem fílum ekki Bubba, en það gefur okkur ekki neinn rétt til þess að fara fram og tala niður til hans og gera lítið úr tónlist hans. Bubbi gerir vitanleg sína texta og tónlist eins hans telur best hverju sinni. Það gera aðrir tónlistamenn líka.

Hvað er það sem gefur manni heimild að segja að ein tónlist sé góð og önnur vond. Er sú tónlist sem Buggi og félagi hans Egill fíla sú eina rétta og sú sem við hin eigum bara að hlusta á? Eru þeir ásamt nokkrum hægri mönnum handhafar sannleikans?

mánudagur, 14. júlí 2008

Gatan er stundum grýtt


Hún getur stundum verið grýtt leiðin upp, en það næst ef við erum samtaka og ákveðin. Við sonur minn hjóluðum Síldargötur úr Hvalfirði yfir Skorradal.

Ég skil útspil Björns í gær þannig að hann sé að reyna að trufla þá umræðu sem er í gangi, það er svo sem ekki langt síðan hann hefur gert það. Björn er ásamt forystu Sjálfstæðisflokksins að víkja sér undan því að ræða þau mál sem eru á dagskrá.

Í því sambandi má minna í innlegg Illuga á síðustu viku. Reyksprengjur Birgis. Óheppilegt innlegg Sigurður Kára. Horngrýtis kjaftæði Árna Johsen. Offramboð af evrópuskoðunum Einars. Dónalegar spurningar forsætisráðherra. Þannig má rifja upp hreint út sagt ótrúlegan ruglingsmálflutning sjálfstæðismanna síðustu ár. Það er bara ekki heil brú í honum.

Máið er einfalt og búið vera það mjög lengi. Alltaf lengi, en við völd sitja menn sem geta ekki viðurkennt þau skelfilegu mistök sem þeim hafa orðið á í efnahagsstjórninni og axla ábyrgð á gjörðum sínum.

Lausnir dagsins í dag :
· Efnhagsstefna undanfarinna ára. Þau mistök sem hafa verið gerð og hvað þarf að leiðrétta.
· Efnhagsleg staða fyrirtækja og heimila í dag. Hvað er til úræða?
· Hvers vegna gerir ríkisstjórnin ekkert? Hún er að vinna feykileg skemmdarverk með því að gera ekkert. Sparar reyndar ríkisjóð fjármuni, en með því er ríkisstjórnin að leggja miklar og óþarfa byrðar á heimilin og fyrirtækin.

Lausnir til langframa :
· Hvað þarf að gera til þess að við þurfum ekki reglulega að upplifa rússibanaferðir krónunnar?
· Hvernig getum við tryggt svipað dagvörverð og er í nágrannalöndum okkar. Svipaða verðbólgu og svipaða vexti.

föstudagur, 11. júlí 2008

Guðmundur og Kastljósið

Allir stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fá senda dagskrá funda, sama gildir um fundargerðir. Af hverju á Guðmundur einn að skila þeim. Hvað með fyrri stjórnarmenn?

Borgarstjórnarmenn, fréttastofa stjónvarps, Kastljóssins hafa orðið sér til skammar undanfarna daga.

Það kom glögglega fram í Kastljósinu í kvöld að Sigmar skilur ekki upp eða niður í þessu máli og er fullkomlega blindaður af því sem pólitíkusar hafa sagt honum og varð sér til minnkunar. Leitt því þetta er fínn gaur.

Ef t.d. Sigmari væri fyrirvaralaust sagt upp hjá RÚV, myndi hann (og fá fulla aðstoð síns stéttarfélags) halda óbreyttum kjörum út uppsagnartíma. Ef það væri t.d. hluti af hans kjörum að fá Möve hjól til eigin afnota ætti hann að halda því út uppsagnartímann.

Engin myndi rukka hann um fundarboð eða fundargerðir sem hann héldi saman um fundi á dagskrárdeild, jafnvel þó hann hefði haldið þeim saman á vinnustað í stórum möppum og tæki möppurnar með sér þegar hann hætti, eða væri sagt upp.

Enn einu sinnu lætur fréttastofa sjónvarps allra landsmanna og Kastljósið pólitíkina blinda sig fullkomlega. Af hverju snýr Kastljósið sér ekki alfarið að tónlistarkynningum, hvar málverkasýningar eru haldnar og hver séu bestu kaffihúsin.

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Hvert er Illugi að fara?

Hún var einkennileg fréttin í kvöld með Illuga, svo ekki sé nú meira sagt. Hann sagði m.a. að menn ættu að hætta að hugsa um þá skyndilausn að ganga í ESB og snéru sér að því að leysa efnahagsvandann. Með þessu væru menn að koma sér undan því að horfast í augu við vandann. Síðan bætti hann við að Sjálfstæðismenn hefðu alltaf viljað tala um ESB og innan flokksins hefði farið fram mikil umræða um ESB. Ja hérna.

Síðan um áramót hefur þjóðin beðið eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn tækist á við efnahagsvandann. Ekkert hefur gerst, utan þess að í vor var samþykkt að afla heimildar til þess að taka 500 milljarða lán. Þrátt fyrir það hefur ekkert gerst. Ráðherrar hafa hrósað sér og sagst hafa unnið sigra með því að gera ekki neitt og hafi sparað ríkissjóð mikil útgjöld. En við blasir algjört úræðaleysi.

Á sama tíma hafa fyrirtækin verið að verzlast upp, töluverðum fjölda launamanna hefur verið sagt upp og það stefnir í enn meira óáran á vinnumarkaði. Þetta háttalag þeirra sem fara með efnahagsstjórnina hefur verið gagnrýnt af sérfræðingum og þeir hafa bent á að þar hafi ríkisstjórninni orðið á alvarleg mistök.

Það liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur farið með efnahagstjórnina í allmörg ár hafi orðið á umtalsverð og alvarleg mistök. Hann hafi einnig virt að vettugi aðvaranir hagdeilda atvinnulifsins. Þetta hefur komið fram hjá allmörgum sérfræðingum um efnahagsmál.

Það liggur fyrir að innganga í ESB er ekki möguleg fyrr en búið er að taka umtalsvert til í efnahagsmálum. Ég hef ekki heyrt nokkurn af þeim sem hafa fjallað um ESB tala um að okkur standi það til boða.

Það liggur fyrir að fyrirtækin í landinu ásamt umtalsverðum fjölda launamanna vilja hefja þennan undirbúning, þar sem ekki sé hægt að búa við þá efnahagsóstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn viðheldur.

Innlegg Illuga í kvöld er því gjörsamlega úr takt við allt sem fram hefur farið í umræðu um þennan vanda, rakalaust bull. Illugi er með þessu að reyna að draga athyglina frá því fullkomna ráðaleysi sem ríkir á stjórnarheimilinu í efnahagsmálum.

Einari Oddi reistur minnisvarði


Það er vel til fundið að reisa Einar Oddi bautastein eins og ASÍ og SA ætla að gera næstk. laugardag á Flateyri. Þar á að minnast sérstaklega aðkomu Einars Odds að Þjóðarsáttinni.

Þjóðarsáttin hefur verið í umræðunni undanfarið. Þar hafa stjórnmálamenn eignað sér öll atriði og segjast hafa platað aðila vinnumarkaðs til þess að vera þátttakendur með því að telja þeim þeim í trú um að Þjóðarsáttin væri þeirra, svo vitnað sé til orða forseta lýðveldisins. Hreint út sagt ótrúlega ósmekklegt innlegg, en svo líkt málflutning Ólafs þegar hann var stjórnmálamaður. Reyndar einn þeirra óvinsælustu á þeim tíma.

Umræða þessara manna um Þjóðarsátt upplýsir reyndar mjög vel hversu lítið þeir vissu um málið og um hvað það snérsit. Þetta var ekki einhver einhföld ákvörðun tekinn á fundi stjórnmálamanna. Þjóðarsátt snérist um að grípa inn í efnahagsstjórnina. Öll fyrirtækin voru kominn að fótum fram 1988 vegna fáránlegrar efnhagsstjórnar.

Þá hófust um ræður meðal aðila atvinnulífs um að þessi leið gengi ekki lengur. Stjórnvöld og sveitarstjórnir gengu fremst í því að hækka þjónustugöld, fyrirtækin verðlag, bankarnir vexti og svo kæmu launamenn með kröfur vegna lækkunar kaupmáttar. Þessum spíral yrði að snúa við, en það gengi ekki upp nema allir væru þátttakendur. Ef einhver klifi sig út úr hópnum springi allt í loft upp.

Það er meir en að segja það að fá öll verkalýðsfélög til þess að fara fram í kjarasamningum og semja um lækkun kaupmáttar. Sama gildir um að fá fyrirtækin til þess að lækka verðlag, banka vexti og svo þjónustugjöld og óbeina skatta sveitarfélaga og hins opinbera. Ásmundur Stefánsson og Einar Oddur fóru fyrir þessari vinnu og hún hófst 1988. Þjóðarsáttin er svo gerð 1990.

Þá hófst mikil og erfið vinna við að halda aftur af stjórnmálamönnum. Þær voru ófáar ferðirnar sem forsvarsmenn atvinnulífsins þurftu að fara og minna stjórnmálamenn á hvaða samkomulög hefðu verið gerð. Ítrekað ætluðu þeir að hækka opinber gjöld og virtust telja að Þjóðarsáttin hefði snúist um að færa niður laun í landinu, ekkert annað.

Það voru aðilar vinnumarkaðs sem slógust við þá menn sem vilja eigna sér Þjóðarsáttina nú ekki öfugt. Í kjölfar þessa gerir svo Jón Baldvin ESS samninginn. Þessi blanda skilaði sér í miklum uppgangi.

miðvikudagur, 9. júlí 2008

Umferðahnútar samgönguráðherra

Ferðast mikið um landið í einkaerindum og ekki minna vegna starfs míns. Skipulag umferðarmannvirkja er einkennilegt. Erfitt er að skilja hvers vegna ekki skuli vera gert neitt í því áratugum saman að koma þjóðveg 1 út fyrir Selfoss. Það eru margir sem ekki eiga þangað erindi, en öllum er gert að fara þar í gegn eftir helstu verzlunargötu staðarins á 0 – 30 km. hraða. Stundum tekur það svipaðan tíma að komast í gegnum Selfoss og aka langleiðina þangað.

Hvers vegna er ætlunin að tvöfalda Suðurlandsveginn á þeim eina kafla þar sem hann er í lagi, en láta mesta slysaspotta landsins og einn þann umferðarþyngsta vera áfram óbreyttan, leiðina milli Hveragerðis og Selfoss?

Af hverju er okkur gert að þurfa alltaf að aka eftir endilöngum Borgarnesbæ og prófa allar hraðahindranir í bænum? Af hverju þurfum við alltaf að leggja 20 km. lykkju á leið okkar til þess að aka í gegnum Blönduós?

Hvers vegna er ekkert gert í því að laga leiðina í gegnum Mosfellsbæ? Þar hefur samgönguráðherrum tekist einstaklega vel við að búa til myndarlegan umferðahnút á hverjum einasta sunnudagseftirmiðdegi frá maí fram í september.

Einn vörbíll valt á Miklubrautinni fyrir skömmu og þá stöðvaðist öll umferð um austurbæinn og nánast öll umferð út úr borginni til austurs og norðurs. Hvers vegna hefur það tekið 30 ár að leysa Sundabrautarvandann?

Hvers vegna hefur í engu verið sinnt að leggja brautir fyrir hjólreiðamenn með helstu leiðum um landið?

Svona mætti halda áfram í alllöngum pistli. Umferðamannvirki kosta mikla peninga það er rétt og ekki hefur samgönguráðherra takmarkalaust fjármagn. En það breytir því ekki að í mörgu hefði verið hægt að nýta fjármuni betur og ýta til hliðar hagsmunum fárra og kjördæmapoti.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Göngubrautir hættulegar

Það er nú svo komið að maður er ekki lengur öruggur á merktum göngubrautum. Jafnvel þó þær séu sebramerktar eða á hraðahindrun. Nýverið var ekið á 8 ára dreng á merktri göngubraut sem var að auki á hraðahindrun á Fjallkonuveg í Grafarvogi.

Ég hef í gegnum tíðina gert mikið af því að skokka og eða fara í göngutúra um göngustíga austurborgarinnar. Maður hefur í gegnum tíðina hiklaust farið yfir sebrabrautir og bílstjórar undantekningalaust stöðvað. Í dag er allt annað upp á tengingnum. Oft flauta bílstjórar á mann og gefa jafnvel að auki fingurinn. Þetta á undantekningalaust við um unga bílstjóra og oftast eru það ungar stúlkur við stýrið sem láta svona.

Hvað veldur þessu? Eru ökukennslu að hraka? Eða er þetta enn eitt merki hins agalausa og tillitslausa unga íslendings? En það býður heim mikilli hættu ef gangandi vegfarendur geta ekki treyst merktum göngubrautum.

Fjölnir

Skelfing erum við Grafarvorgsbúar ánægðir með liðið okkar. Ég er einn þeirra foreldra sem hef staðið á hliðarlínunni upp í gegnum alla flokka og mátt horfa á sigra og stundum stór töp. Það er ekki bara að vinna 6 -1, heldur ekki síður að við erum með lið sem er byggt upp á strákum sem hafa verið aldir upp hér. Ekki samansafn efnilegra einstaklinga frá minni liðunum, sem er að auki styrkt með erlendum leikmönnum.

Minni liðin hafa í gegnum tíðina mátt horfa upp á "stóru" liðin lokka til sín alla efnilega einstaklingana. Oft hef ég dáðst af seiglu þeirra sem eftir sitja hjá minni liðunum þegar þeir mæta ofurefli „stóru“ liðanna og þurfa að auki að sitja undir háðsglósum frá stuðningsmönnum „stóru“ liðanna um getuleysi. Hinir raunverulegu sigurvegarar hafa verið þeir leikmenn sem berjast allan tímann við ofureflið, halda áfram og klára leikinn með fullri reisn.

Toppurinn er að mínu mati þegar þekktur lögmaður, þáverandi formaður fótboltadeildar eins „stóru“ liðanna stóð upp frá hliðarlínunni, þegar ekkert gekk hjá hans liði, og stillti sér upp á bak við mark mótherjanna, sem þá var lið frá Norðfirði. Þetta var á stelpumóti á Siglufirði fyrir nokkrum árum.

Þegar stelpur „stóra“ liðsins úr Reykjavík nálguðust mark Norðfirðinganna sleppti hæstaréttarlögmaðurinn sér fullkomlega og lét öllum illum látum bak við markið og öskraði af öllum lífs og sálar kröftum á markmann Norðfirðinganna; „Láttu boltann eiga sig – ekki taka boltann“ Markmaðurinn fipaðist og boltinn rúllaði inn. Hinn stóri lögmaður þóttist hrósa sigri. Hann var það ekki í augum annarra sem á mótinu voru. Hann hefur reyndar beitt samskonar brögðum við varnir fyrirtækja í tilraunum þeirra að hafa af erlendum launamönnum kaup og kjör.

mánudagur, 7. júlí 2008

Viskí og gæsavarp

Það er vart annað en hægt að draga þá niðurstöðu að markviss umfjöllun í bloggheimum um ESB og evruna sé að skila sér, sé litið til greina sem eru birtar í prentmiðlum undanfarna daga. Hópur innan Sjálfstæðisflokksins er greinilega búinn að fá sig fullsaddan á einkennilegum yfirlýsingum þingmanna og ráðherra flokksins á undanförnum mánuðum. Nú eru þær orðnar vandræðalegar, svo ekki sé meira sagt, rakalaus útúrsnúningur. Nýleg ummæli Birgis Ármannssonar um reyksprengjur gera hann nánast afkáralegan.

---------------------

Hef verið latur við pistlagerð undanfarna daga. Sumarið og útiveran draga mann til sín og verður það svo næsta mánuðinn a.m.k. Hálendið er að opnast og dregur marga til sín. Mörgum hefur verið tíðrætt um gæsavarpið og uppistöðulón. Varp gæsanna hér á landi hefur vaxið á ákveðnum svæðum og því haldið fram að það sé vegna þess að hún hafði verið rekin til þess að flytja sig vegna framkvæmda Landsvirkjunar. En við ættum að líta til unnenda single-malt viskí í leit af sökudólgum frekar en á skrifstofum Landsvirkjunar. Ásókn í eðalviskí Skota hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Byggakrar Skota hafa af þeim orsökum vaxið umtalsvert og viðkoma gæsa þar af leiðandi mun meiri. Stærri stofn hefur síðan leitað sér að nýjum varpstöðum hér á landi.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Ekki nákvæmt brot á sannleikanum

Ég hef nokkrum sinnum áður komið að því áður að hagfræðingar aðila vinnumarkaðs vöruðu við skattalækkunum á tímum ofurspennu í efnahagslífinu. Ekki bara vegna þess að það virkaði sem benzín á þennslubálið. Heldur hitt að þó tekjur ríkisins væru miklar við þennsluaðstæður og skiluðu tekjuafgang, þá þyrfti það ekki að þýða að svigrúm væri til skattalækkana. Nær væri að nýta fjármunina til þess að undirbúa lækkun flugs efnahagslífsins þannig að ekki yrði um harkalega brotlendingu að ræða.

Ef forsendur skattalækkunar væru miðaðar við tekjur ríkissjóð á spennutímum þá gæti svo farið eftir skattalækkun, að tekjur ríkissjóðs dyggðu ekki fyrir útgjöldum við eðlilega stöðu. Á þessar aðvaranir var ekki hlustað frekar en aðvaranir við að sleppa bönkunum lausum á lánamarkaði. Og efnhagsráðgjafarnir í hinum steinsteyptu líkingu ostsins neðst á Háaleitisbrautinni sendu okkur tóninn. Ég minni á þetta í kjölfar orða forsætisráðherra í fréttum í gærkvöldi að nú blasti það við að skerða þyrfti ríkisútgjöld verulega þar sem ljóst væri að tekjur ríkissjóðs dyggðu ekki fyrir útgjöldum vegna mikills samdráttar.

-----------------------------
Í þessu sambandi má einnig velta fyrir sér fréttum um grein virts bresks efnhagsspekulants, sem þekkir vel til allra aðstæðna hér, um stöðuna hér eftir ranga efnhagsstjórn, glórulausa skuldsetningu og eyðslu. Einkavæðingu banka grundvallaða á pólitískum hagsmunum, frekar en þekkingu á efnahagsforsendum. Og svo þeirri spá að stjórnarslit séu á næsta leiti, þar sem fólk sé búið að fá nóg að þessari efnahagsstefnu og vilji sveigja í átt til norrænna forsenda. Nú veit ég ekki hvort þessi efnhagsspekingur lesi Eyjuna, en allavega kannast maður við hvert einasta atriði í þessara vangaveltna.

------------------------------
"Ekki nákvæmt brot á samningi", segir menntamálaráðherra þegar borin voru undir hann ummæli Páls útvarpsstjóra. (Það á eftir að vísa oft í þessa setningu spái ég, hún er ódauðleg) Hið ónákvæma brot leiðir til uppsagna starfsfólks vegna þess að menntamálaráðuneytið stóð ekki við gerða samninga. Ég ætla að vísa til pistils gærdagsins um óskhyggju og ábyrgðarleysi stjórnmálamanna gagnvart starfsmönnum stofnana í eigu ríkissins.

------------------------------
Í lokin þá er enn verið að velta fyrir sér hver eigi nú Þjóðarsáttina, þar á meðal Guðni. Í því sambandi ætla ég að spyrja; Halda menn virkilega að stjórnmálamenn plati forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, til þess að gera kjarasamninga upp á mun minni kauphækkanir en verðbólgan væri. Þeir geri kjarasamninga sem innifela töluverða kaupmáttarlækkun allan samningstíman meðvitundarlaust.

Undirbúningur Þjóðarsáttarsamninga hófst árið 1988. Það var Ásmundur Stefánsson sem hóf þessa vinnu með því að fara um allt land og funda með hverri einustu stjórn allra verkalýðsfélaga landsins og undirbúa þennan jarðveg. Það kostaði gríðarlega mikil átök innan verkalýðshreyfingarinnar að ná samstöðu um að leggja fram tillögur um kjarasamninga um skertan kaupmátt. Í þessu sambandi má minna á bráðabyrgðalög og andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þau, sama gilti um afstöðu opinberra starfsmanna. En Ásmundi tókst smá saman að fá fleiri til fylgis við hugmyndir sínar. Hann náði góðum takti við forsvarsmenn Vinnuveitendasambandsins og áttu þeir ekki minni þátt í þessari vinnu. Það var ekki fyrr en árið 1990 sem búið var að vinna jarðveginn þannig að hægt var að kynna þessi mál fyrir ríkisstjórn og leggja fyrir hana tillögur í 10 liðum um markmið. Stjórnvöld tóku þessu sem himnasendingu því efnahagsmálin voru hreinlega í rúst á þeim tíma og fyrirtækin komin að fótum fram. Það kostaði síðan mikla baráttu næstu tvo ár að fá bæði stjórnmálamenn og eins alla aðila innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að ganga í takt og klára dæmið.

Oftar en ekki þurftu aðila vinnumarkaðsins að fá stjórnmálamenn til þess að hætta við að hækka þjónustugjöld umfram sett mörk. Það þurfti að fara oft til bankanna og fá þá til þess að ganga í sama takt og lækka vexti. Sama gilti innan Vinnuveitendasambandsins þar var tekist á um að fá fyrirtækin til þess að halda verðlagi á seldri vöru og þjónustu innan settra marka. Og sama að fá verkalýðsfélögin öll til þess að sprengja ekki sett mörk við kaupkröfur. Þetta gera menn ekki meðvitundarlaust.

Þessi hégómafulla raupumræða forseta lýðveldisins og annarra stjórnmálamanna er ekki launamönnum og forsvarsmönnum fyrirtækjanna boðleg.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Samanburður á starfskjörum

Ég hef alltoft haldið því fram bæði hér á þessari síðu og annarsstaðar að fjárlög einkennist frekar af óskhyggju en raunsæi. Það blasi við þeim sem þekki til kjaramála að samþykktir Fjárlaganefndar taka ekki tillit til raunverulegrar launaþróunnar. Hún hafi í gegnum tíðina miðast við lægstu umsömdu launahækkanir.

Óábyrgir „því meira/því minna-þingmenn“ benda ætíð á umsamda lágmarkstaxta og segja að þeir vildu svo gjarnan greiða starfsfólki opinberra stofnana hærri laun en verkalýðsfélögin banni það þau hafi samið um þessi skammarlega lágu laun. Allir utan stjórnmálamanna vita að kjarasamningar kveða á um lágmarkslaun. Þeir eru ekki ákvörðun um hámörk, ef svo væri þá væru kjarasamningar óþarfir. En eins og margir vita þá halda frjálshyggjumenn því fram, að atvinnurekendur bíði spenntir eftir því að losna frá hámörkun kjarasamninga svo þeir geti ausið yfir starfsfólk sitt launahækkunum óáreittir af afskiptasemi stéttarfélaganna.
Afskipti stjórnarliða hafa leitt til þess að framkvæmdastjórar ríkisstofnana hafa orðið að búa til allskonar frávik frá umsömdum launum til þess að halda fólki. Eða þá að fækka fólki og sumar ríkistofnanir eru undirmannaðar, jafnvel heilu deildirnar lokaðar vegna skorts á starfsfólki. Á meðan biðlistarnir lengjast.

Svo einkennilegt sem það nú er þá eru það þingmenn stjórnmálaflokks sem hvað harðast hefur mælt með notkun markaðslauna sem hafa farið með stjórn efnahagsmála hér á landi um langt skeið. Markaðslaun eru allt annað en umsamin lágmarksgólf kjarasamninga. Þau stéttarfélög sem hafa verið fylgjandi markaðslaunum gerðu tilraun til þess að koma því kerfi á í kjarasamningum við hið opinbera með opnum launtöflum í þar síðustu kjarasamningum. En það breytti engu fjárlaganefndarþingmenn héldu áfram að miða við gólfin. Þetta er helsta ástæða þeirrar umræðu sem fram fer þessa dagana.

Það er útilokað að bera saman umsamdar launahækkanir í opnum markaðslaunakerfum og launahækkanir í föstum taxtakerfum. Þetta eru gjörólíkir hlutir. Kröfur um launahækkanir í föstum taxtakerfum taka mið af almennri launaþróun í opnum markaðslaunakerfum. Launataxtakerfin sitja föst á milli kjarasamninga, það gera opnu markaðslaunakerfin ekki. Ef menn ætla af einhverju viti að bera saman laun starfstétta á almennum markaði og fastlaunamarkaði þá verður það ekki gert með því að bera sama umsamin lágmarksgólf. Það verður að taka raunlaun samskonar starfstétta og sambærilegan vinnutíma. Allur annar samanburður segir okkur ekkert af viti.

Annað atriði er líka nauðsynlegt að hafa í huga, á almennum markaði skiptir um 35% launamanna árlega um starf. Þetta er ein helsta ástæða launaskriðs. Ef efnahagsspár hagfræðinga standast þá munu laun á almennum markaði sveiflast töluvert niður næsta vetur, á sama tíma munu laun fastlaunahópanna sitja kyrrir. Geta vitanlega ekki annað, þau sitja á umsömdum lágmörkum.

Einnig er spáð að atvinnuleysi geti farið upp í 4 – 6%. Þar er miðað við vinnumarkaðinn í heild. Ljóst er að þetta atvinnuleysi mun ekki koma fram hjá fastlaunahópum hins opinbera. Það mun alfarið koma fram hjá ákveðnum hópum á almennum markaði. Sem þýðir í raun að þar geti atvinnuleysi farið í 12 – 15%. „You cann´t win them all“ segir einhversstaðar. Þú týnir ekki bara bestu bitana úr boxinu og heimtar svo nýtt gotterísbox. Í lokin menntun og ábyrgð í starfi ræður miklu um launakjör og ekki síður starfsöryggi almennum markaði.