miðvikudagur, 23. júlí 2008

Landmannalaugar


Mannhafið í Landmannalaugum kemur manni einhvernveginn alltaf í opna skjöldu þegar komið er inneftir. Stórar rútur og fjöldi bílaleigubíla. Fólk á reiðhjólum og síðan hinir stóru ferðahópar sem fara Fjallabaksleið á hestum. Íslendingar eru þarna í miklum minnihluta og einkabílar ekki margir miðað við hin farartækin. Laugin er alltaf full af fólki og göngumenn á ferð hvert sem litið er.Góður vinur minn sem hóf störf í vor við eitt af hinum fjölmörgu sveitahótelum sem risið hafa á suðurlandi á undanförnum árum sagði að það hefði komið sér mest á óvart hversu margir erlendir gestir komi hingað einungis til þess að sjá Landmannalaugar. Margir tengja þetta við hestaferðir og það setur skemmtilegan svip á ferðir þarna inneftir að sjá ferðahópa með allt að 100 hestum á ferð.


Gríðarlegur fjöldi göngumanna leggur leið sína um Laugaveginn, þar eru íslendingar í meirihluta, en margir hinna erlendu fara Fimmvörðuhálsinn í beinu framhaldi eða byrja þar og enda inn í Laugum. Þessu kynntist ég vel þegar ég var við skálagæslu á Fimmvörðuhálsinum. Það er gríðarlegur skortur á aðstöðu á þessu svæði og ekki síður lagfræingar á gönggötum og ökuleiðum um svæðið. En allskonar gamlar reglur eru til sem koma í veg fyrir að hún sé til staðar. Til þess að mæta þessu hafa menn farið inneftir með gamlar forljótar rútur auk gamalla húsvagna og breytt þeim í veitingaskála, verzlanir og svefnaðstöðu.

Það eru fjölmargir sem hafa atvinnu við að þjónusta ferðafólkið og það skapar miklar tekjur fyrir þjóðarbúið. Langstærsti hluti þessa fólks kemur frá mið-Evrópu. Ég hef farið þar um og þar sér maður hvaða aðstöðu fólk krefst í dag. Íslenskir göngumenn hafa í auknum mæli sótt þangað ekki bara á skíði um veturna heldur einnig á sumrin. Íslensk stjórnvöld er víðsfjarri því að standa sig í því að mæta og nýta þá möguleika sem íslensk fjallaferðamennska getur gefið af sér. Auk þess skaðar þetta aðgerða- og stjórnleysi náttúruna mikið.

Engin ummæli: